Skyndihjálp er ekki aðeins kunnátta hún er hreyfiafl sem stuðlar að sterkari og öruggari samfélögum
Þekkir þú næstu skyndihjálparmanneskju ársins ?
Rauði krossinn leitar eftir tilnefningum um skyndihjálparmanneskju ársins 2025
Ár hvert er veitt viðurkenning til einstaklings eða einstaklinga sem hafa veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt og bjargað lífi
Hjálpaðu okkur að finna næstu skyndihjálparmanneskju ársins og sendu okkur tilnefningu
Skyndihjálparmanneskja ársins 2024
Skyndihjálparmanneskja ársins 2024 verður heiðruð á 112 daginn!!
Komdu og taktu þátt í því að fagna þeim sem hafa skarað fram úr í skyndihjálp á árinu. Athöfnin fer fram á 112 daginn:
📅 Þriðjudaginn 11. febrúar 2025
📍 Skógarhlíð, Reykjavík
⏰ Klukkan 17:00
Við hlökkum til að sjá þig!
Skyndihjálparmanneskja ársins 2023
Tilgangurinn með tilnefningu til Skyndihjálparmanns ársins er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.
Sérstök valnefnd fer yfir þær ábendingar sem berast og útnefnir einn Skyndihjálparmann ársins. Í nefndinni eru fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Þorbjörg Sveinsdóttir, Torfi Ásgeirsson og Guðni Jónsson eru Skyndihjálparmanneskjur ársins 2023. Þau björguðu lífi Ásgeirs, eiginmanns Þorbjargar og föður Torfa, þegar hann fékk skyndilegt hjartastopp 12. apríl 2023.
Skyndihjálparmanneskja ársins 2023
Þorbjörg Sveinsdóttir, Torfi Ásgeirsson og Guðni Jónsson eru Skyndihjálparmanneskjur ársins 2023.
Skyndihjálparmanneskja ársins
Þorbjörg Sveinsdóttir, Torfi Ásgeirsson og Guðni Jónsson eru Skyndihjálparmanneskjur ársins 2023. Þau björguðu lífi Ásgeirs, eiginmanns Þorbjargar og föður Torfa, þegar hann fékk skyndilegt hjartastopp 12. apríl 2023. Þau sýndu vel hvernig hægt er að bjarga mannslífi með réttum viðbrögðum og fumlausum leiðbeiningum neyðarvarðar hjá Neyðarlínunni 112.
Arnór Ingi Davíðsson var valinn skyndihjálparmanneskja ársins 2022, en hann bjargaði lífi yngri bróður síns þegar þeir lentu í snjóflóði fyrir tæpu ári, en þá voru þeir 14 og 10 ára. Arnór fékk viðurkenninguna vegna þess að hann brást rétt við þegar bróðir hans grófst í snjó. Hann hafði strax samband við neyðarlínuna og var svo hjá bróður sínum, fylgdi leiðbeiningum neyðarlínunnar í hvívetna og hélt Bjarka rólegum þar til hjálpin barst.
Skyndihjálparmanneskja ársins 2021 er Elsa Albertsdóttir, 22 ára gömul kona úr Reykjanesbæ sem bjargaði lífi föður síns, Alberts Eðvaldssonar, 57 ára, sem fór skyndilega í hjartastopp þar sem fjölskyldan var samankomin á heimili foreldra Alberts að horfa á fótboltaleik. Elsa hafði sótt skyndihjálparnámskeið Rauða krossins þrjú ár í röð og var fljót að átta sig á því hvað væri að gerast. Hún hafði í huga fjögur grunnatriði skyndihjálpar og stjórnaði aðgerðum fumlaust. Hún setti fjölskyldumeðlimi sína í hlutverk, bað þá að blása í föður hennar á milli þess sem hún beitti hjartahnoði og aðra að hringja í 112 sem varð til þess að sérhæfð aðstoð barst á staðinn fljótlega. Endurlífgunin bar árangur og Albert dvaldi 3 nætur á sjúkrahúsi í kjölfarið en er við góða heilsu í dag. Við getum sennilegast öll tengt við söguna hennar Elsu, sem sat í rólegheitum í fjölskyldusamveru þegar óvænt uppákoma varð til þess að líf föður hennar var í hennar höndum. Sagan hennar sýnir okkur einnig að skyndihjálparnámskeiðin kenna okkur mikilvæg handtök og skipulag þegar álag getur verið með mesta móti og líf liggur við. Með snarræði, og vel þjálfuðum vinnubrögðum, sem Elsa lærði á skyndihjálparnámskeiðum síðustu ára, bjargaði hún lífi föður síns og njóta þau bæði góðs af í dag.
Sólveig Ásgeirsdóttir, 27 ára, bjargaði lífi bestu vinkonu sinnar, Súsönnu Helgadóttur, 28 ára, í júlí síðastliðnum þegar Súsanna fór í skyndilegt hjartastopp á heimili sínu. Tveggja ára sonur Súsönnu lá sofandi í herbergi sínu þegar atvikið átti sér stað.„Við vorum heima hjá henni, róleg stelpukvöld eins og venjulega. Við sátum í sófanum að spjalla þegar hún fór skyndilega í hjartastopp án þess að vera með nokkur veikindi fyrir,“ segir Sólveig Ásgeirsdóttir, í samtali við Fréttablaðið.Hún segir að hún hafi hringt í Neyðarlínuna um leið og hóf endurlífgun, með aðstoð neyðarlínustarfsmanna, þegar hún áttaði sig á því að hún væri ekki með púls eða andaði. Á þessum tíma var Súsanna orðin blá í framan.„Ég var í því, að hnoða og blása, þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn og tóku við,“ segir Sólveig.Í kjölfarið á þessu dvaldi Súsanna á spítala í tvær vikur þar sem læknar komust að því að hún og fjölskylda hennar eru með leyndan hjartagalla. Í dag er hún með bjargráð og hefur lokið endurhæfingu sem hún hóf eftir atvikið.
Sólveig segist þakklát fyrir að hafa verið stödd hjá vinkonu sinni þetta kvöld og segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst hefði hún ekki verið á staðnum. Hún er enn fremur þakklát fyrir að hafa nýlega lokið skyndihjálparnámskeiði þegar atvikið átti sér stað en það veitti henni öryggi í afar krefjandi aðstæðum.
„Ég hafði lokið námskeiði aðeins mánuði áður,“ segir Sólveig og er handviss um að það sé það sem bjargaði vinkonu sinni.
Sólveig segir að þetta hafi ekki verið fyrsta skyndihjálparnámskeiðið hennar og hlær að því að hún hafi eflaust farið oftar en flestir á slík námskeið.
„Það getur svo margt breyst og maður gleymir smáatriðum. Það eru nýjar áherslur á milli ára og mér fannst mjög mikilvægt á þessari stundu, þegar maður veit ekki alveg hvað er að gerast, að vera nýbúin að fara. Það breytti öllu og þar af leiðandi brást ég rétt við. Þannig að ég myndi klárlega segja að ég hefði ekki brugðist eins við hefði ég ekki verið nýbúin að fara á skyndihjálparnámskeiðið,“ segir Sólveig.
Hún segir að viðbrögð hennar séu þó alls ekki sjálfsögð. Oft frjósi fólk í þessum aðstæðum þótt það hafi farið á slík námskeið.
„Maður veit aldrei fyrir fram hvernig maður bregst við í slíkum aðstæðum en er mjög þakklát að ég brást við á þennan hátt og það tók við eitthvað „autopilot“ sem stjórnaði ferðinni á meðan ég var í þessum aðstæðum. Maður var ekki beint að hugsa hvað maður var að gera, bara bjarga,“ segir Sólveig.
„Við erum himinlifandi að hún sé enn á lífi og að við getum enn verið bestu vinkonur,“ segir Sólveig.
Spurð um áhrif atviksins til lengri tíma segir Sólveig það hafa skipt miklu máli fyrir hana að hafa fengið aðstoð og sálgæslu frá sjúkrahúsprestinum Ingólfi Hartvigssyni.
„Fyrir mig vann hann stórkostleg starf í sálgæslu. Ég veit að mörgum finnst skrítið að tala við prest sem ekki eru trúuð en mér fannst það ekki skipta máli. Þetta var bara sálgæsla og hann hélt vel utan um mig á þessum tíma. Ég er rosalega þakklát honum,“ segir Sólveig.
Spurð hvernig það hafi komið til að hún hafi verið tilnefnd sem Skyndihjálparmaður ársins segir Sólveig að hún viti ekki hver tilnefndi hana en að henni þyki þetta mikill heiður.
„Þetta var ótrúlegt símtal. Ég var mjög hissa og vissi ekki að ég hefði verið tilnefnd. Þetta er ótrúlegur heiður en þetta er samt skrítinn titill. Ég er mjög stolt af honum en þetta er ekki eitthvað sem maður stefnir að í lífinu. Það er kannski ekki óskandi að vera skyndihjálparmanneskja ársins því maður veit hvað er því að baki. En þvílíkur heiður, og ég er mjög meyr að fá þennan titil,“ segir Sólveig.
Sólveig hvetur alla sem geta til að fara á skyndihjálparnámskeið.
„Ég vil berjast fyrir þessum boðskap og vil að þetta verði skylda á vinnustöðum og skólum að sækja sér þessa þekkingu því það getur bjargað mannslífum,“ segir Sólveig.
Hún segir að hún hafi verið heppin með vinnustaði sína og þar hafi oft verið boðið upp á skyndihjálparnámskeið. Hún hafi farið á fjögurra tíma námskeið hjá Rauða krossinum.
Í umsögn valnefndar segir: Sólveig sýndi snarræði á neyðarstundu og þessi atburður sýnir okkur að alvarlegir atburðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er getur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga meðborgurum sínum, jafnvel á rólegu kvöldi heima hjá góðum vini. Sem betur fer er sjaldgæft að jafn ungt fólk og Súsanna fari í hjartastopp án nokkurs fyrirvara en saga þeirra Sólveigar á erindi við okkur öll, enda gerist hún í aðstæðum sem flestir geta tengt við. Snarræði Sólveigar bjargaði lífi ungrar móður sem átti sér einskis ills von. Sólveig á svo sannarlega skilið að vera sæmd titlinum Skyndihjálparmaður ársins.
Það er heiður að fá þessa viðurkenningu og að sjálfsögðu er maður ánægður með að þetta fór vel, af því að þetta leit ekki vel út í fyrstu,“ segir Hilmar Elísson, sem var fyrr í dag útnefndur skyndihjálparmaður ársins 2019.
Rauði krossinn á Íslandi útnefndi Hilmar fyrir þátt hans í björgun manns sem lá meðvitundarlaus á botni Lágafellslaugar í Mosfellsbæ á síðasta ári. Hann viðurkennir fúslega að atvikið hafi reynt á hann.
„Þetta er ekki eitthvað sem maður vill upplifa á hverjum degi. Þetta er öðruvísi — en í þessum aðstæðum þá er bara framkvæmt, maður getur ekki verið að hugsa neitt fyrr en eftir á."
Hilmar hefur um nokkurt skeið verið í karlaþreki í World Class í Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Eftir æfingar fara þeir gjarnan í pottinn en Hilmar ákvað að taka auka sundsprett einn janúardag í fyrra áður en hann slakaði á í pottinum. Þegar hann var kominn í dýpri enda laugarinnar sá hann mann á botninum.
Hann hugsaði með sér að mögulega væri hann að kafa en ákvað að athuga nánar með hann. Hilmar ýtti við manninum sem sýndi engin viðbrögð. Hilmar fór þá aftur niður, greip í manninn og togaði upp en þá var maðurinn alveg líflaus.
Hilmar kallaði á fleiri til að aðstoða sig við að ná manninum upp á bakkann. Annar maður hóf endurlífgun meðan Hilmar hljóp og lét hringja á 112. Með Hilmari í karlaþrekinu er margreyndur slökkviliðsmaður sem var í pottinum þegar atburðarásin fór af stað en hann tók yfir endurlífgunina. Hilmar segir að það hafi tekið rúma mínútu að fá lífsmark í manninn aftur. Sem betur fer var sjúkrabíllinn fljótur á vettvang.
Hilmar gerir ekki mikið úr sínum þætti í björguninni en er þakklátur fyrir að hafa verið á réttum stað á réttum tíma.
Sonur Hilmars, Huginn Hilmarsson, veitti viðurkenningunni móttöku í Björgunarmiðstöðinni að Skógarhlíð í dag þar sem Hilmar er staddur erlendis.
Skyndihjálparmaður ársins 2018 er Guðni Ásgeirsson en hann bjargaði manni sem hafði fengið hjartaáfall á hlaupastíg í Reykjavík. Guðni kom að manninum þar sem hann hafði lagst í jörðina, veitti honum hjartahnoð og stjórnaði aðgerðum á vettvangi með mikilli yfirvegun.
Í fyrstu hélt Guðni að maðurinn sem hafði verið að skokka væri að teygja en eitthvað við aðstæðurnar fékk Guðna til að stöðva reiðhjól sitt og kanna ástandið á manninum. Maðurinn hafði þá fengið hjartaáfall og farið í hjartastopp. Guðni kallað til tvo vegfarendur og fékk annan til að hringja í neyðarlínuna og hinn til að aðstoða við að veita manninum hjartahnoð.
Guðni hnoðaði manninn af miklum krafti þar til sjúkraflutningarmenn komu á vettvang. Maðurinn fékk eitt rafstuð frá sjúkraflutningarmönnunum og var kominn til meðvitundar þegar hann var borinn upp í sjúkrabílinn. Á spítalanum var hann settur í aðgerð og hefur náð fullum bata í dag þökk sé hárréttum viðbrögðum Guðna á vettvangi.
Aðspurður sagði Guðni að hann vissi ekki hvað olli því að hann brást svona við. Hann sá strax að eitthvað sérstakt var í gangi þarna og hann gat ekki hugsað sér að hjóla framhjá og gera ekkert.
“Ég gat ekki látið þetta afskiptalaust og treyst á að einhver annar kæmi til aðstoðar Ég sá að það var ekki í lagi með manninn. Ég fór á skyndihjálparnámskeið í verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir mörgum árum. Í vinnunni hjá mér eru svo reglulega haldin stutt námskeið sem stýrði mér áfram í þessi réttu viðbrögð þennan dag” sagði Guðni.
Guðni vill líka koma á framfæri þakklæti til þeirra sem aðstoðuð hann þennan dag. Einstaklingar á vettvangi aðstoðuðu hann við að hringja á 112 og framkvæma hjartahnoð. Einnig komu lögregluþjónar að honum og bentu honum á að þessi lífsreynsla gæti haft áhrif á hann seinna enda mikið sjokk að lenda í þessum aðstæðum.
,,Maður veit aldrei hvernig maður bregst við þegar maður kemur á slysi. Ég hafði í rauninni ekki hugmynd um það hvernig ég myndi bregðast við en ég hugsaði að það er alltaf best að gera eitthvað í stað þess að gera eki neitt. Í þessu tilfelli hefði það verið stór mistök að gera ekki neitt. Ég fékk ótrúlega hugarró þegar ég heyrði í manninum sem ég bjargaði rúmum sólarhring síðar og hann þakkaði mér kærlega fyrir lífsbjörgina.” sagði Guðni
Af lýsingunni að dæma er ljóst að Guðni brást hárrétt við aðstæðum og voru aðgerðir hans þennan dag til fyrirmyndar. Við óskum Guðna til hamingju með titilinn Skyndihjálparmaður ársins 2018.
Jónas starfar sem kokkur hjá fyrirtæki sem keyrir út heitan mat, m.a. til ýmissa eldri borgara í Hafnarfirði. Þennan dag er Jónas tiltölulega nýlagður af stað með fullan bíl af matarsendingum þegar hann hringir bjöllunni hjá eldri konu. Hún er sein til svara, sem er ekki óalgengt, en þegar hún loksins opnar fyrir honum bendir hún strax á hálsinn ár sér og það rymur í henni. Hún sýnir honum með látbragði í anddyrinu hjá sér að það þurfi að slá á bakið á henni, en kemur ekki upp stöku orði. Hann leggur frá sér matinn og hefst handa við að slá hana á bakið. Ekkert gekk og hann áttaði sig á því að ef hann ætti að ná bitanum úr hálsi konunnar þyrfti hann að beita kröftum. Hann tók utan um hana aftan frá og þrýsti fast, eða beitti svokallaðri heimlich aðferð. Konan var orðin mjög máttfarin þegar þarna var komið við sögu.
Jónas náði að losa örlítið um bitann sem stóð fastur í konunni og heyrði soghljóð þegar opnaðir lítillega fyrir öndun. Bitinn fór þó ekki allur út og Jónas áttaði sig á því að hann myndi ekki að ná miklu meira upp úr henni og hringdi því á sjúkrabíl. Hann beið með konunni uns sjúkrabíllinn kom og sjúkraflutningamenn tóku við.
Jónas hélt vinnu sinni áfram og velti atvikinu kannski ekki mjög mikið fyrir sér enda beið fullur bíll af mat sem þurfti að koma til skila. Það var síðan daginn eftir þegar aðstandendur konunnar höfðu samband við hann og sögðu honum frá því að hún hefði þurft að fara á bráðadeildina til þess að hægt væri að losa bitann alveg úr hálsinum á henni sem hann gerði sér grein fyrir alvarleika málsins og hversu heppinn þau bæði voru að hann hefði verið þarna akkúrat á þessum tíma. Hann er þakklátur fyrir að hafa beðið eftir að hún svaraði því annars væri ljóst hvernig þetta hefði getað endað.
Jónas starfaði sem þjónn í 20 ár og veit ekki hversu oft hefur hrokkið ofan í fólk þegar hann hefur verið við störf, en aldrei þannig að biti náist ekki úr. Hann hefur tekið skyndihjálparnámskeið reglulega síðan hann var 16 ára og fór síðast í fyrra þegar hann var á björgunarnámskeiði fyrir sportkafara. Það var ekki skylda að taka skyndihjálparnámskeið á björgunarnámskeiðinu en hann er afar þakklátur að hafa tekið þá ákvörðun að rifja upp rétt viðbrögð svo nýlega, en mælst er til þess að fólk fari á a.m.k. tveggja ára fresti á skyndihjálparnámskeið til að rifja upp kunnáttu sína og handtök.
Það var samdóma álit dómnefndar að Jónas Már Karlsson hefði sýnt hárrétt viðbrögð í þessum aðstæðum, byrjað á því að reyna að veita konunni hjálp en hringt síðan á sjúkrabíl þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki klárað verkið einn.
Vinnustaður Jónasar hefur rætt um að halda skyndihjálparnámskeið eftir atvikið.
Jónas fékk afhent viðurkenningarskjal, iPhone Red frá Nova, 12 tima skyndihjálparnámskeið fyrir 2, skyndihjálpartösku auk veglegs blómvandar þann 21. febrúar 2018.
Unnur Lísa Schram var valinn skyndihjálparmaður ársins 2016 en hún bjargaði eiginmanni sínum, Eiríki Þórkelssyni á öðrum degi jóla með ótrúlegum hætti.
Þau hjónin búa ásamt tíu ára tvíburadætrum sínum og syni á Vorsabæ í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Elsti sonur þeirra er fluttur að heiman.
Eiríkur var enn með sauma í sér að jafna sig eftir hjartaaðgerð sem hann hafði farið í um viku fyrir jól. Hann var nýkominn úr göngutúr og sat við hlið Unnar Lísu þegar hann skyndilega stífnaði allur upp svo að ekki fór á milli mála að eitthvað alvarlegt var að gerast. Unnur Lísa áttaði sig strax á að hann væri farinn í hjartastopp og hringdi á 112 til þess að kalla eftir sjúkrabíl að meðan hún hófst handa við að hnoða brjóstkassa eiginmanns síns. Tvíburadætur þeirra, þær Fríða og Svana, tóku sinn þátt í skyndihjálpinni þegar þær kölluðu á Valgerði nágrannakonu sína af næsta bæ sem kom eins fljótt og auðið var og aðstoðaði við hnoðið en sonur þeirra hjóna, Baldvin, var einnig nýfarinn frá þeim á spariskónum á leið á jólaball þegar hann fékk fregnirnar, festi bílinn í atganginum og hljóp af stað yfir túnin til þess að komast sem fyrst til þeirra. Hann tók þá við að ræða við 112 og kveikja á hættuljósum á bílnum svo að þyrla Landhelgisgæslunnar sem hafði verið ræst út gæti séð hvar bærinn væri í myrkrinu.
Færðin var vond þetta kvöld og sjúkrabíllinn nokkuð lengi á leiðinni, en Unnur Lísa hnoðaði eiginmann sinn í um 25 mínútur þangað til fyrst sjúkrabíllinn en síðan þyrlan kom á staðinn og flutti Eirík til Reykjavíkur.
Að hnoða tekur gífurlega á líkamlega og vita þeir sem farið hafa á skyndihjálparnámskeið að 25 mínútur eru þannig ótrúlega langur tími til þess að hnoða stanslaust. Þeim hjónum brá raunar mest eftir að þau voru aftur komin heim af spítalanum þegar þau fóru að leita á netinu og sáu að almennt lifir fólk ekki af nema þegar hnoðað er í nokkrar mínútur og hversu fátíð skyndihjálparkennsla er í bæði Evrópu og Bandaríkjunum miðað við á Íslandi.
Unnur Lísa lýsir því hvernig hún hafi verið óviss hvort hún mætti yfir höfuð hnoða Eirík þar sem hann var nýkominn úr stórri hjartaaðgerð, en ef hún hefði ekki staðið í ströngu í þennan tæpa hálftíma er ljóst að Eiríkur hefði ekki lifað af. Þau eru þakklát fyrir hvernig allir brugðust strax við, skyndilega voru um 12 manns inni á stofugólfi hjá þeim að aðstoða, Valgerður nágrannakona þeirra stóð vaktina í blæstri og Camilla vinkona þeirra hjóna einnig. Unnur Lísa lýsir því hvernig hún hafi verið úr tengslum við raunveruleikann og ekki hugsað um neitt annað en að hnoða og blása þannig að þegar sjúkraflutningamennirnir voru komnir á staðinn hafi hún spurt hvort fólkið vildi ekki kaffi! Þau flugu síðan til Reykjavíkur þar sem hjartaskurðteymi Landspítalans beið eftir þeim ef þyrfti að opna hann aftur.
Dómnefnd var sammála um að hreint skyndihjálparkraftaverk væri að ræða og hún vel að þessu komin.
Eiríkur sjálfur man ekkert eftir deginum eða atburðunum, en er annars heill heilsu og raunar eins og ekkert hafi í skorist.
Þau ætla núna að fá hjartastuðtæki að Vorsabæ, ekki síst fyrir sveitunga sína þar sem bærinn er nokkuð miðsvæðis og allir vita þá hvar er hægt að nálgast hjartastuðtækið svo að hægt sé að bregðast fljótt og örugglega við í framtíðinni. Þau eru glöð að hafa bæði farið nokkuð reglulega á skyndihjálparnámskeið og munu hvetja alla í kringum sig til þess að gera slíkt hið sama og vera tilbúin ef á reynir. Þau vilja koma innilegu þakklæti til skila til allra sem að björguninni komu, ekki síst vina og vandamanna sem voru tilbúin þegar á reyndi.
Hin 7 ára gamla Karen Sæberg Guðmundsdóttir varð fyrir valinu, Skyndihjálparmaður ársins 2015. Hún hlaut viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 1-1-2 daginn sem haldin var í húsi Neyðarlínunnar í Skógarhlíð.
Karen Sæberg bjargaði lífi móður sinnar, Margrétar Sæberg Þórðardóttur, í fyrrasumar þegar Margrét, sem er flogaveik, fékk flog í heitum potti. Karen var snögg til og lyfti höfðinu á móður sinni upp úr vatninu, sendi 5 ára vin sinn sem var þarna hjá þeim til að sækja föður sinn, eiginmann Margrétar, og hélt henni á floti þar til hann gat tekið við.
Karen stóð sig svo sannarlega vel og er vel að þessari viðurkenningu komin. Það er svo gaman að segja frá því að samkvæmt Margréti er Karen dugleg að horfa á Hjálpfús þættina sem sýndir voru í Stundinni okkar fyrir nokkrum árum í samvinnu Rauða krossins og Rúv.
Það er Rauða krossinum mikið gleðiefni að veita þeim Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og leikmönnum meistarafokks kvenna í handbolta hjá Val, viðurkenningu sem skyndihjálparmenn ársins 2014 fyrir einstakt björgunarafrek.
Rauði krossinn á Íslandi útnefnir árlega skyndihjálparmann ársins í tilefni 1-1-2 dagsins sem er ætlað að kynna mikilvægi neyðarnúmersins 112 og hvernig neyðarlínan nýtist almenningi. Rauði krossinn fær þann heiður að útnefna skyndihjálparmann ársins við tilefnið.
Guðmundur Helgi Magnússon, 56 ára gamall Valsmaður, var einu sinni sem oftar að skokka í kringum áhorfendapalla Vodafone-hallarinnar að Hlíðarenda síðastliðið vor. Á sama tíma var að hefjast æfing hjá meistaraflokki kvenna í handbolta. Þegar æfingin var í þann mund að hefjast tekur Anna Úrsúla eftir því að Guðmundur virðist missa meðvitund og fellur til jarðar. Hann rak um leið höfuðið í vegg svo úr blæddi. Stefán Arnarsson, þjálfari, lýsir því hvernig Anna tók þá mikið „gasellustökk“ yfir áhorfendapallana og tók þegar að athafna sig við Guðmund og kallaði á hjálp. Samhæfingin og liðsheildin var greinilega til staðar því á svipstundu fengu allar konurnar sitt hlutverk, ein hringdi í neyðarlínuna, ein náði í hjartastuðtæki, ein byrjaði að hnoða og ein skar bolinn utan af Guðmundi svo hefja mætti endurlífgun með hjartastuðtæki.
Þegar sjúkraliðar mættu á vettvang var Guðmundur kominn með púls en hann byrjaði að ranka við sér í sjúkrabílnum. Það er fyrst og fremst Valskonum að þakka að Guðmundur er á lífi í dag og einnig að hjarta hans hlaut lítinn sem engan skaða.
Svona sagði Stefán Arnarsson, þáverandi þjálfari Vals, frá afrekinu í grein sem birtist á dv.is:
„Maðurinn sem missti meðvitund var og er mjög virtur innan hópsins og þ.a.l. var björgunin mjög tilfinningamikil og hafði mikil áhrif á hópinn.“
Stefán lýsir því hvernig Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Gróttu og þáverandi leikmaður Vals, Rebekka Rut Skúladóttir, leikmaður Vals, og fleiri björguðu lífi manns sem hneig niður uppi á svölum á meðan á æfingu Valskvenna stóð í Vodafone-höllinni á síðasta ári. Stefán rifjar atvikið upp í tilefni af áramótunum en hann segir þennan atburð standa upp úr á árinu.
„Ég varð vitni að mikilli hetjudáð, það var æfing hjá mér og þegar æfingin er ný hafin verður Anna Úrsula vör við að maður sem var að hlaupa uppi á svölum hnígur niður“ segir Stefán.
„Anna tók mikið Gasellu stökk og var komin upp á nokkrum sekúndum, hún kallar á liðsfélaga sína að kalla á hjálp. Rebekka Rut hljóp þá upp ásamt fleirum og fóru þær að aðstoða Önnu. Þegar ég kom upp var maðurinn meðvitundarlaus og var farinn að blána. Stelpurnar byrjuðu að hnoða og Rebekka Rut stuðaði einstaklinginn sem leiddi til þess maðurinn komst til meðvitundar um svipað leyti og sjúkrabíllinn mætti á staðinn“ segir hann.
Að sögn Stefáns er mesti sigur í lífinu að bjarga mannslífi.
„Það er hefð sem fylgir áramótum að velja mann eða konu ársins, hjá mér er valið einfalt, Anna Úrsula, Rebekka Rut og þeir leikmenn sem komu að björguninni eru menn ársins að mínu mati“ segir Stefán.
Rauði krossinn á Íslandi hefur valið Bylgju Dögg Sigurðardóttur sem Skyndihjálparmann ársins 2013 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar hún kom að bifreið með hættuljósin á sem lagt hafði verið í vegkanti í Seljahverfi í Breiðholti. Ungur maður sem var farþegi í bifreiðinni fór í hjartastopp, og á líf sitt að launa þeirri meðvituðu ákvörðun Bylgju að stöðva alltaf þegar hún sér fólk í vanda til að athuga hvort hún geti orðið því að liði.
Viðurkenningin var veitt í húsi Rauða krossins í dag 9. Febrúar, og er um sérstakan viðhafnarviðburð að ræða, þar sem félagið fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Á þessum tímamótum þykir við hæfi að bjóða þeim útnefndir hafa verið skyndihjálparmenn Rauða krossins á síðustu 14 árum og þeim sem bjargað hefur verið að samgleðjast með Skyndihjálparmanni ársins 2013. Þá hljóta einnig þrír aðrir einstaklingar viðurkenningu fyrir að hafa brugðist rétt við á neyðarstundu.
Í lok október fékk Patrekur Maron Magnússon, háskólanemi á fyrsta ári í verkfræði, einu sinni sem oftar far með skólasystur sinni í Seljahverfið. Patrekur hugðist fara úr bílnum á miðri leið, og ganga heim til sín hluta leiðarinnar. Hann teygði sig eftir skólatöskunni, og datt þá skyndilega út og reisti sig ekki aftur. Vinkona hans nam staðar og lagði út í kant, setti hættuljósin á og hringdi á Neyðarlínuna, en taldi að hann hefði fengið flogakast.
Af hreinni tilviljun var Bylgja á ferðinni á þessum tíma með börnin sín tvö, og sá að stúlka hafði lagt upp í kant og var að tala í símann. Hún ákvað að bjóða fram aðstoð sína, og stúlkan sagði henni að vinur hennar væri í flogi í framsætinu. Bylgja sá strax að það var ekki rétt, hann hafði alveg misst lit og virtist líflaus. Hún ákvað að hún yrði að ná honum út úr bílnum, og leggja hann upp á grasið og hefja endurlífgun.
Bylgja notaði tak sem hún hafði lært af pabba sínum og reyndi að draga Patrek út. Fótur hans festist í eða undir bílnum, svo hún reyndi að stöðva bíla og fá hjálp, en var hissa á hversu margir keyrðu fram hjá. Að endingu stöðvuðu hjón, og maðurinn hjálpaði Bylgju að leggja Patrek í grasið, og hún bað konuna að huga að börnunum tveimur sem biðu í bílnum. Bylgja hóf þegar að hnoða, og var þá komin í samband við neyðarvörðinn á Neyðarlínunni og gat greint honum frá gangi mála.
Bylgja, sem er einungis 24 ára en hefur oft farið á skyndihjálparnámskeið, lét eðlishvötina ráða og einbeitti sér að því að hnoða þar til hjálp barst í stað þess að stoppa og blása á milli. Fleiri vegfarendur voru þá komnir á vettvang, og hún segir að eldri maður hafi hvatt hana áfram þegar hún efaðist um hvort hún væri með réttu handtökin. Sjö mínútur liðu þar til lögregla kom á vettvang og tók við endurlífguninni, og sjúkrabíll fylgdi í kjölfarið.
Bylgja var beðin um að fylgja vinkonu Patreks á sjúkrahúsið, og þar tók lögregla skýrslu af henni um atburðinn. Fjölskylda Patreks setti sig svo í samband við hana og flutti henni fréttir af líðan hans, sem hún segir hafa skipt sig miklu máli.
Patrekur var þrjár vikur á hjartadeild Landspítalans, og fékk bjargráð stuttu síðar. Hann hefur náð sér ótrúlega vel eftir atburðinn, fór í tilsett próf í Háskólanum í desember, og er í fullu námi í skólanum. Fjölskylda Patreks bauð Bylgju í heimsókn um jólin, og eru þau í góðu sambandi.
Óhætt er að segja að þetta atvik sé um margt óvanalegt. Patrekur á sér enga sögu um hjartasjúkdóma, er í góðu formi og sjaldgæft að svo ungur maður fari í skyndilegt hjartastopp. Þá er afstaða Bylgju um að koma náunga sínum ávallt til hjálpar til mikillar eftirbreytni og frábært að þessi unga kona skuli hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Bylgja farið á fjölmörg skyndihjálparnámskeið, sem án efa skiptu sköpum fyrir Patrek þennan eftirmiðdag í október.
Í könnun um skyndihjálp sem gerð var á vegum Rauða krossins í haust kom fram að af þeim sem hafa sótt námskeið á síðustu 3 árum eru 85% sem treysta sér til að veita skyndihjálp, en ef lengra er um liðið frá námskeiði lækkar hlutfall þeirra sem myndi treysta sér til að veita skyndihjálp niður í um 65%.
Þrír aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningu Rauða krossins í dag fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru: Heiðar Arnfinnsson, Mosfellsbæ, sem bjargaði tengdaföður sínum eftir að hann féll við byggingu sumarbústaðar við Meðalfellsvatn og hrygg- og hálsbrotnaði; Heimir Hansson og Sveinbjörn Björnsson, Ísafirði, sem hnoðuðu lífi í nágranna sinn eftir að hann fór í hjartastopp við snjómokstur; og Jóhanna Guðmundsdóttir búsett í Flórída, sem kom konu til aðstoðar eftir að hún fór í hjartastopp rétt fyrir jólin í konuboði í Skerjafirðinum.
Rauði krossinn á Íslandi hefur valið Arnar Huga Birkisson sem Skyndihjálparmann ársins 2012 fyrir einstaka hugvitssemi og að sýna hárrétt viðbrögð á slysstað þegar hann varð vitni að útafkeyrslu á Steingrímsfjarðarheiði fjarri byggð í fyrrasumar. Viðurkenning Rauða krossins var veitt í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag 11. febrúar á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.
Arnar var á ferð ásamt kærustu sinni Steinunni Hlíf Guðmundsdóttur á Steingrímsfjarðarheiði þegar bíll tók fram úr þeim og þau urðu vitni að því að hann náði ekki beygju heldur fór fram af veginum og hvolfdi, valt hring en lenti svo aftur á dekkjunum.
Arnar stöðvaði bíl sinn, bað Steinunni að hringja í 112 og setja upp þríhyrning til að vara aðra við. Arnar kannaði meðvitund þeirra sem voru í bílnum með því að hrópa og klappa saman lófum. Eftir svolitla stund sýndi farþegi í aftursæti viðbrögð og stuttu seinna byrjaði ung kona sem sat í framsætinu að anda. Ökumaður bærði hinsvegar ekki á sér, og einbeitti Arnar sér því fyrst að því að aðstoða hann. Með lélegum verkfærum tókst honum að losa öryggisbelti ökumannsins að hluta, en þá fór konan að kvarta yfir að ná ekki andanum.
Arnar sneri sér því að konunni sem var mjög aðþrengd þar sem bílbeltið var neglt fast við hana og farþeginn í aftursæti hafði kastast yfir á hana við höggið. Arnar sýndi þá einstaka hugvitssemi þegar hann fann glerkrukku í bílnum sem hann braut og náði að sarga beltið í sundur með brotinu svo að hún ætti auðveldara með að anda. Steinunn aðstoðaði hinn farþegann og hélt honum rólegum í bílnum. Arnar drap á bílnum til að koma í veg fyrir að kviknaði í.
Um 14 mínútum síðar kom annar bíll á vettvang, og þar fékk Arnar vasahníf og náði að losa ökumanninn alveg úr beltinu. Arnar hóf að reyna endurlífgun ásamt þeim sem komu að, en fljótt varð ljóst að ökumaðurinn hafði ekki lifað slysið af. Stuttu síðar kom lögregla á staðinn og tók við stjórn. Það tók sjúkraflutningamenn um 18 mínútur að koma á vettvang, en neyðarlínan studdi vel við Arnar og Steinunni á meðan.
Farþegarnir í bílnum voru ungt par frá Kanada, Jonathan Boilard og Emilie Beaule, sem höfðu einungis verið 3 daga á Íslandi og voru að ferðast á puttanum. Þau voru bæði flutt með þyrlu til Reykjavíkur á sjúkrahús, og var þeim vart hugað líf fyrst um sinn. Ljóst er að snarræði Arnars við að losa um bílbelti konunnar og gera henni fært að anda, og það að róa niður manninn sem var hryggbrotinn, varð þeim til lífs. Þeim hefur þó tekist með mikilli endurhæfingu að ná sér að mestu, en Jonathan er þó bundinn við hjólatól. Pörin tvö hafa síðan verið í góðu sambandi og vinfengi tekist með þeim.
Skyndihjálparmaður ársins, Arnar Birkisson, er staddur í útlöndum og gat því ekki tekið á móti viðurkenningunni.
Þetta er í tólfta sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda.
Sjö aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru: Anika Mjöll Júlíusdóttir, 11 ára sundkona, sem bjargaði eins árs stúlku frá drukknun í Vatnaveröld í Reykjanesbæ; Kristján Ingi Kristjánsson, Reykjavík, fyrir að hafa hnoðað og blásið lífi í konu á bílaplani N1 í Hveragerði þar sem hann var staddur með fjölskyldu sinni í sunnudagsbíltúr; Kristín Harðardóttir, Reykjavík, sem bjargaði eiginmanni sínum á heimili þeirra þegar hann lenti í hjartastoppi; Kári Kárason og sonur hans Pétur Arnar, Blönduósi, fyrir að bjarga ökumanni frá drukknun þegar bíll hans valt við brúarvegrið og festist á hvolfi ofan í á; og Grétar Guðmundsson og Steingrímur S. Stefánsson, Akureyri, sem björguðu starfsfélaga sínum við Sláturhúsið þegar hann lenti í hjartastoppi með því að hnoða og blása í hann lífi.
Jónas Birkisson, bróðir Arnars Huga, flutti ræðu þegar val á Skyndihjálparmanni ársins 2012 var kunngert.
Rauði kross Íslands hefur valið Gísla Örn Gíslason sem skyndihjálparmann ársins 2011 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar dóttir hans fór í hjartastopp á heimili þeirra þann 29. janúar 2011. Gísli tók við viðurkenningu Rauða krossins í göngugötunni í verslunarmiðstöðinni Smáralind kl. 14:00 í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.
Gísli bjargaði lífi dóttur sinnar, Sigurbjargar Jóhönnu Gísladóttur, með hjartahnoði eftir að hún fór í hjartastopp í miðjum samræðum þeirra á milli á laugardagskvöldi. Feðginin höfðu bæði ætlað að vera að heiman þegar þetta gerðist en röð tilviljana olli því að Sigurbjörg var í tölvunni uppi í rúmi í svefnherbergi sínu þetta kvöld og Gísli kom inn í herbergið hennar til að spyrja eitthvað út í heyrnartól sem hún hafði gefið honum í jólagjöf.
Þegar hjarta Sigurbjargar hætti að slá seig höfuð hennar niður og hélt Gísli fyrst að hún væri að grínast en áttaði sig fljótt að ekki var allt með felldu og að hjarta hennar hafði stöðvast. Gísli kallaði á eiginkonu sína að hringja í sjúkrabíl, tók dóttur sína niður á gólf og hóf strax endurlífgun.
Gísli starfar í álverinu í Straumsvík og hefur farið þar reglulega á skyndihjálparnámskeið. Kom kunnátta hans þaðan sér vel á þessari örlagastundu. Piparkökusöngurinn „Þegar piparkökur bakast” kom strax upp í huga hans en á námskeiðinu hafði verið kennt að það væri góð leið til þess að halda réttum takti við hjartahnoð. Samkvæmt leiðbeiningum frá neyðarverði hjá Neyðarlínunni opnaði bróðir Sigurbjargar öndunarveg hennar og aðstoðaði Gísla við endurlífgun.
Sjúkraflutningamenn og lögreglumenn komu á staðinn 7-8 mínútum eftir hringt var í 112. Þeir gáfu Sigurbjörgu stuð sem kom hjarta hennar aftur af stað og var hún í kjölfarið flutt á sjúkrahús.
Þetta er í ellefta sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd sker úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síst að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda.
Fimm aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru Íris Grönfeldt, kennari, og dóttir hennar Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, en Íris endurlífgaði móður sína með aðstoð Önnu Þórhildar eftir að hún lenti í blóðþrýstingsfalli og fór í hjartastopp á heimili sínu í Borgarnesi; Theodór Fannar Eiríksson, sem slökkti eld í móður sinni með teppi og vatni eftir sprengingu í etanólarni á heimili þeirra; Vilhjálmur Vernharðsson, björgunarsveitarmaður og bóndi á Möðrudal á Fjöllum, sem endurlífgaði tékkneska ferðakonu sem fór í hjartastopp á tjaldstæðinu við bæinn; og Þorgrímur Ómar Tavsen, stýrimaður, sem endurlífgaði skipsfélaga sinn eftir að hann fór í hjartastopp úti á sjó.
Rauði kross Íslands hefur valið Ólaf Guðnason sem Skyndihjálparmann ársins 2010 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar hann lenti í bílslysi fjarri byggð í fyrrasumar. Ólafur mun taka við viðurkenningu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag 11. febrúar kl. 14:00, á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.
Ólafur bjargaði lífi sonar síns, Ólafs Diðriks Ólafssonar, með því að stöðva miklar blæðingar á höfði og handlegg hans þegar bíll þeirra valt á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði. Þegar slysið varð var Ólafur eldri sofandi í farþegasætinu en Ólafur Diðrik keyrði bílinn. Ólafur Diðrik sofnaði undir stýri og missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af og valt. Bíllinn gjöreyðilagðist, allar rúður brotnuðu og nota þurfti klippur til að ná Ólafi Diðriki út úr honum.
Ólafur faðir Ólafs Diðriks rumskaði fyrst á hvolfi þegar bíllinn var í loftköstum á leið út af veginum. Hann komst að sjálfsdáðum út úr bílnum en skömmu síðar kom vegfarandi að sem hringdi í Neyðarlínuna 112. Ólafur kallaði í son sinn en hann svaraði ekki heldur umlaði og var greinilega með skerta meðvitund. Handleggurinn á honum lá út um gluggann á bílnum og höfuðið á gluggakarminum. Á höfðinu voru margir skurðir, höfuðleðrið hafði flest af og það fossblæddi úr hnakkanum. Ólafur notaði bol til að þrýsta á sárið og reyna að stöðva blæðinguna.
Fleira fólk var þá komið á vettvangi og kona úr hópi viðstaddra lánaði honum handklæði til að vefja um höfuðið á Ólafi Diðriki. Síðar fengust betri þrýstiumbúðir til að gera að sárum hans. Ólafur Diðrik var aldrei með fullri meðvitund og barðist um en Ólafur faðir hans reyndi að tala við hann og halda honum rólegum á meðan þeir biðu eftir aðstoð sem barst um 40 mínútum eftir slysið. Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman í kringum bílinn og var einhver í sambandi við Neyðarlínuna alla tímann. Ólafur Diðrik var fyrst fluttur á Egilstaði og síðan til Reykjavíkur þar sem kom í ljós að hann var með brákaða höfuðkúpu og brákaða háls- og hryggjaliði.
Ólafur eldri hefur unnið sem skipstjórnarmaður og er vanur að taka við stjórn við erfiðar aðstæður. Hann hefur farið á mörg skyndihjálparnámskeið hjá Slysavarnaskólanum, og kom kunnátta hans og þekking þaðan sér afar vel á þessari örlagastundu. Læknar telja það algert kraftaverk að Ólafur Diðrik skyldi ekki lamast.
Þetta er í tíunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda.
Sex aðrir einstaklingar hljóta einnig viðurkenningar hjá deildum Rauða krossins fyrir að hafa beitt skyndihjálp og bjargað lífi á eftirtektarverðan hátt. Þeir eru Ágúst Þorbjörnsson fyrir endurlífgun á félaga sínum sem starfar í næsta húsi við vélsmiðju hans á Hvammstanga; Sæþór Þorbergsson fyrir endurlífgun á gesti sem fór í hjartastopp í líkamsræktarstöð á Stykkishólmi; Erna Björg Gylfadóttir fyrir endurlífgun á systur sinni ásamt vinnufélögum í HB Granda á Akranesi; Borghildur Sverrisdóttir í Hafnarfirði fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi á föður síns í sumarbústaðaferð fjölskyldunnar; Alfreð Gústaf Maríusson fyrir að endurlífga samstarfsmann sinn í grunnskóla í Hafnarfirði; og Benedikt Gröndal, einnig í Hafnarfirði, fyrir að losa aðskotahlut úr hálsi sonar síns.
Rauði kross Íslands hefur valið Magneu Tómasdóttur sem Skyndihjálparmann ársins 2009 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnea tók við viðurkenningu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.
Magnea bjargaði lífi föður síns, Tómasar Grétars Ólasonar, þegar hann fór í hjartastopp í sumarhúsi fjölskyldunnar á Hvalsnesi á Suðurnesjum. Magnea var þar ásamt honum, 18 mánaða gömlum syni sínum og 8 ára systurdóttur, Ernu Diljá. Tómas var að hvíla sig eftir kvöldmatinn í stofunni og þær frænkur voru að spila við borð í sama herbergi. Erna Diljá tók þá eftir því að afi var ekki eins og hann átti að sér að vera, og þegar Magnea sneri sér að föður sínum áttaði hún sig á því að hann hafði misst meðvitund og það kurraði í honum.
Magnea náði umsvifalaust í farsímann sinn og hringdi í Neyðarlínuna, tók alla púða undan höfði Tómasar og lét hann liggja áfram á hörðum bekk. Hún byrjaði strax hjartahnoð og blástur með símann á öxlinni og hélt því áfram allt þar til aðstoð barst frá Keflavík um 16 mínútum síðar. Sjúkraflutningamennirnir gáfu Tómasi 2 rafstuð og hjartað fór að slá aftur.
Magnea fékk góða aðstoð frá neyðarvörðunum og fannst hún ekki lengur vera ein um verkið eftir að hún komst í samband við Neyðarlínuna. Börnin urðu hrædd og stundum var erfitt að heyra í starfsmanni Neyðarlínu vegna þeirra. Magnea þurfti því að fela Ernu Diljá að taka soninn afsíðis og sjá um hann á meðan, og stóð sú litla sig með stakri prýði.
Þetta er í níunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Þess má geta að Magnea hefur nokkrum sinnum sótt skyndihjálparnámskeið og er ekki í vafa um að það hjálpaði henni í þessum erfiðu aðstæðum þar sem tók langan tíma að fá sjúkrabíl á staðinn.
Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í tilefni af 112-deginum, kemur í ljós að 90% þeirra sem hafa sótt námskeið í skyndihjálp á síðustu þremur árum treysta sér til að veita lífsbjargandi aðstoð ef þörf krefur, en aðeins 37% þeirra sem ekki hafa lært skyndihjálp. Það er því ljóst að kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum fyrir björgun á mannslífi.
Rauði kross Íslands hefur valið Magnús Þór Óskarsson bifvélavirkja í bifreiðarskoðuninni Frumherja sem Skyndihjálparmann ársins 2008 fyrir hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnúsi Þór var veitt viðurkenning Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112- daginn.
Magnús vann það þrekvirki að bjarga Hannesi Ragnarssyni sem kramdist milli tveggja bifreiða á bílastæði við Frumherja í ágúst á síðasta ári.
Hannes hafði skilið bifreið sína eftir í gangi. Hann ætlaði að teygja sig inn í bílinn til að drepa á honum en virðist þá hafa rekið sig í sjálfskiptinguna og sett bílinn í bakkgír. Hannes var þá hálfur inni í bílnum. Bíllinn bakkaði á fullri ferð og lenti Hannes milli eigin bifreiðar og bílsins fyrir aftan. Við áreksturinn fór hurðin af með miklum látum og Hannes skellur þá út úr bílnum og lendir á milli bifreiðanna.
Símastúlka í Frumherja varð vör við slysið og kallaði eftir hjálp Magnúsar og hringdi á Neyðarlínuna. Þegar Magnús kom að var Hannes hættur að anda. Hann var stórslasaður á brjóstkassa, mjaðmakúla úr lið, lungun fallin saman og nýra var í lamasessi.
Magnús gat komist að Hannesi með því að fara inn um hægri framhurðina og náði að blása í Hannes úr bílstjórasætinu þar til hjálp barst.
Þetta er í áttunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Þess má geta að Magnús hefur farið nokkrum sinnum á námskeið í skyndihjálp, meðal annars á vegum vinnu sinnar.
Rauða krossinum hefur aldrei borist eins margar tilnefningar og fyrir árið 2008, og voru björgunarafrekin eins fjölbreytt og þau voru mörg. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi við vinnu eða inni á heimilinu – aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.
Eftirfarandi deildir Rauði kross Íslands veita einnig viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2008: Akureyrardeild, Árnesingadeild, Borgarfjarðardeild, Grindavíkurdeild, Kópavogsdeild og Norðfjarðardeild.
Rauði kross Íslands hefur valið feðgana Sveinbjörn Grétarsson og Tómas Sveinbjörnsson sem Skyndihjálparmenn ársins 2007 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Sveinbjörn og Tómas tóku við viðurkenningu Rauða krossins í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112- daginn.
Kona Sveinbjörns, Guðrún Hauksdóttir, hafði fundið fyrir slappleika en ekkert óeðlilegt greinst við læknisskoðun. Seint að kvöldi 26. september var hún að horfa á sjónvarpið þegar Sveinbjörn verður þess var að hún er eins og í krampakasti og hryglir í henni. Hann gerði sér umsvifalaust grein fyrir að hún var meðvitundarlaus, hringdi í Neyðarlínuna og hóf endurlífgun.
Vitandi að það getur tekið langan tíma fyrir sjúkrabíl að keyra upp á Kjalarnes þar sem þau búa, sendi hann Tómas 6 ára son sinn til að sækja nágranna þeirra, Þórð Bogason, sem unnið hefur í slökkviliði og sjúkraflutningum í fjöldamörg ár. Tilviljun ein réði því að Þórður var heima, og aðstoðaði hann Sveinbjörn við endurlífgunina.
Þórður kallaði einnig til björgunarsveitina Kjöl, sem kom með súrefni á staðinn áður en sjúkrabíllinn kom og læknishjálp barst. Guðrún hefur náð sér ótrúlega vel af veikindunum.
Þetta er í sjöunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Auk viðurkenningarinnar hlýtur Skyndihjálparmaðurinn gjöf frá N1 sem hefur verið samstarfsaðili Rauða krossins um útbreiðslu skyndihjálpar síðastliðin þrjú ár.
Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi, aðstæður sem hver og einn gæti hæflega lent í.
Eftirfarandi deildir Rauði kross Íslands veita einnig viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2007 í héraði: Akranesdeild, Árnesingadeild, Blönduósdeild, Borgarfjarðardeild, og Kópavogsdeild.
Rauði kross Íslands hefur valið Egil Vagn Sigurðsson sem Skyndihjálparmann ársins 2006 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Egill Vagn tók við viðurkenningunni í dag, sunnudaginn 11. febrúar, kl. 13:20 við athöfn í Smáralind sem viðbragðsaðilar í björgun og almannavörnum standa að í tilefni af 112-deginum.
Egill Vagn sem er einungis 8 ára bjargaði lífi móður sinnar í júní í fyrra þegar hún hneig niður á heimili þeirra og missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Egill Vagn brást skjótt við og sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar og sprautaði hana í handlegginn en hringdi síðan í neyðarlínuna 112 eftir hjálp. Hann fór svo eftir fyrirmælum neyðarvarðar þar til sjúkrabíll kom á staðinn.
Egill Vagn hikaði hvergi og bar sig í öllu rétt að þrátt fyrir ungan aldur. Það var móður hans til lífs að hún hafði rætt við hann um hvað þyrfti að gera ef eitthvað kæmi fyrir sig og að hann vissi hvar adrenalínpennann var að finna og hvernig ætti að nota hann.
Viðbrögð Egils Vagns ættu að vera hvatning fyrir alla aðstandendur þeirra sem kljást við króníska sjúkdóma á borð við sykursýki, flogaveiki, bráðaofnæmi og ýmsa hjartakvilla til að læra skyndihjálp. Mikilvægt er að allir sem eru í daglegri umgengni við fólk með slíka sjúkdóma kunni að bregðast við alvarlegu ástandi. Hafi fólk undirstöðuþekkingu í skyndihjálp er auðveldara að bregðast fumlaust við þegar mínútur og jafnvel sekúndur geta skipt sköpum.
Þetta er í sjötta sinn sem Rauði kross Íslands útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla.
Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi, aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.
Rauði kross Íslands veitir einnig eftirtöldum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2006: Andreu Jónheiði Ísólfsdóttir, fyrir að hafa hnoðað og blásið lífi í 2 ára stúlku sem dottið hafði ofan í tjörn, Finni Leó Haukssyni, fyrir að losa aðskotahlut úr öndunarvegi þriggja ára systur sinnar þegar brjóstsykur stóð í henni á aðfangadagskvöld, Gauta Grétarssyni, fyrir að bjarga 17 ára stúlku sem missti meðvitund og fór í hjartastopp á handboltaleik með því að beita hjartahnoði og blása í hana lífi, Lilju Dóru Michelsen, fyrir að blása lífi í ungabarn í andnauð fyrir utan matvöruverslun í Hafnarfirði, og Ríkharð Owen. Ríkharð kom að manni sem fengið hafði hjartáfall í bíl sínum á Reykjanesbrautinni, hringdi í Neyðarlínuna 112, hnoðaði manninn í 20 mínútur þar til lífsmark greindist og sérhæfð aðstoð barst.
Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra með Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur skyndihjálparmanni ársins 2005. Með þeim eru börnin sem nutu björgunar Guðrúnar.
Rauði kross Íslands hefur valið Guðrúnu Björk Sigurjónsdóttur sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra afhenti Guðrúnu Björk viðurkenninguna á Hótel Loftleiðum í dag við setningu ráðstefnunnar 112 í tíu ár ? hvað hefur breyst, hvað er framundan? sem haldin er á 112 daginn og afmæli neyðarlínunnar.
Guðrún Björk vann það einstaka þrekvirki að bjarga þriggja ára dreng og stúlku frá drukknun þegar þau lentu í sjónum á Snæfellsnesi í apríl í fyrra. Hún var þar við skeljatínslu ásamt systur sinni og frænku og börnum þeirra allra. Í einni svipan soguðust börnin tvö út þegar enginn sá til.
Um leið og Guðrún áttaði sig á hvað hafði gerst hóf hún björgunaraðgerðir. Kunnátta hennar í skyndihjálp rifjaðist upp á svipstundu og hún brást hárrétt við aðstæðum. Hún náði drengnum strax upp úr og þar sem hann hóstaði og sýndi viðbrögð lét hún dóttur sína bera hann að landi. Guðrún þurfti að synda að stúlkunni og varð strax vör við að hún andaði ekki. Guðrún hóf blástur þegar í sjónum og komst stúlkan til meðvitundar þegar þær bar á land. Bæði börnin fengu sýkingu í lungun þar sem þau gleyptu mikið af sjó en hafa náð sér að fullu í dag.
Guðrún Björk hafði tekið tvö námskeið í skyndihjálp á vegum Rauða krossins. Það er ekki vafi á því að með skjótum viðbrögðum sínum bjargaði hún lífi barnanna tveggja. Auk viðurkenningarinnar hlýtur hún gjafakort frá Olíufélaginu ESSO sem er samstarfsaðili Rauða krossins að útbreiðslu skyndihjálpar til almennings.
Þetta er í fimmta sinn sem Rauði kross Íslands útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla.
Þó aðeins einn sé útnefndur Skyndihjálparmaður ársins er hver og einn sem tilnefndur er hversdagshetja sem bjargað hefur mannslífi. Í flestum tilfellum var það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi, aðstæður sem hver og einn gæti hæglega lent í.
Rauði kross Íslands veitir einnig eftirtöldum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2005: Sigríði Guðjónsdóttur íþróttakennara á Bolungavík fyrir að hafa blásið lífi í 11 ára dreng sem var komin að drukknun í skólasundi, Árna Valgeirssyni verkstjóra í fiskvinnslu í Stykkishólmi fyrir að hafa hnoðað lífi í vinnufélaga sinn sem lenti í hjartastoppi, Oddnýju Þóru Baldvinsdóttur leikskólakennara í Vogum sem með réttum viðbrögðum losaði um aðskotahlut í hálsi samstarfskonu sinnar og Jónu Björk Grétarsdóttur frjálsíþróttakennara í Vestmannaeyjum fyrir að hefja tafarlausar endurlífgunaraðgerðir á manni sem hneig niður vegna hjartastopps.
Þessi atvik sýna glögglega að allir geta átt von á að lenda í þeim aðstæðum að þurfa með snarræði að bjarga sjálfum sér eða öðrum hvort sem þeir eru við leik eða störf. Allir búa yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi en suma vantar einungis herslumuninn til að ná tökum á tækninni sem til þarf. Þekking í skyndihjálp getur skipt sköpum.
Rauði kross Íslands hefur valið Anton Gylfa Pálsson sem Skyndihjálparmann ársins fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins afhenti Antoni Gylfa viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 1-1-2 deginum í dag. Anton Gylfi beitti kunnáttu sinni í skyndihjálp til bjargar mannslífi, með hetjulegri framgöngu þegar á reyndi.
Tólf ára gamalt skyndihjálparnámskeið Antons Gylfa Pálssonar rifjaðist upp fyrir honum á svipstundu þegar hann sýndi snarræði og bjargaði mannslífi með því að hann hnoða og blása lífi í Ásgeir Sigurðsson sem fengið hafði hjartastopp eftir að hafa verið áhorfandi á handboltaleik.
Anton var ekki einn síns liðs og lögðu félagar hans tveir sitt af mörkum. Annar var í stöðugu sambandi við Neyðarlínuna en hinn aðstoðaði Anton við endurlífgunina. Ásgeir er við góða heilsu í dag.
Rauði kross Íslands hefur valið Skyndihjálparmann ársins síðan árið 2000. Skyndihjálparmaður ársins er sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.
Allir ættu að kunna að veita skyndihjálp því flestir þurfa fyrr eða síðar á því að halda, annaðhvort vegna annarra eða sjálfra sín. Til dæmis er talið að um 200 Íslendingar látist skyndilega vegna hjartastopps á hverju ári. Jafnvel aðeins fjögurra mínúta töf eftir að hjarta manns hefur stöðvast getur kostað hann lífið.
Að auki veitir Rauði kross Íslands nokkrum einstaklingum viðurkenningar fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2004. Annars vegar er um að ræða tvær ungar stúlkur frá Egisstöðum: Jóhönnu Kolbjörgu Sigurþórsdóttur, 10 ára, og Rut Malmberg, 11 ára. Þær björguðu lífi vinkonu sinnar þegar hún fékk ofnæmislost með því að hringja strax á sjúkrabíl og hlúa að henni á fumlausan hátt meðan beðið var eftir aðstoð. Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða krossins veitir þeim viðurkenningu kl. 17 í dag á Egilstöðum.
Hins vegar fá viðurkenningu tveir fullorðnir menn á Selfossi; Gunnar Kristmundsson, 71 árs, og Gunnar Álfar Jónsson, 70 ára. Þeir björguðu lífi félaga síns sem á íþróttaæfingu eldri borgara fékk hjartaáfall, með því að hnoða og blása lífi í hann þar til sjúkraflutningamenn og læknar komu á vettvang. Félagi þeirra lifir eðlilegu lífi í dag. Árnesingadeild Rauða krossins veitir þeim viðurkenningu á Selfossi í dag.
Þessi atvik sýna að þekking í skyndihjálp er nauðsynleg öllum, sama hvort viðkomandi er ungur eða gamall. Líkja má aðhlynningu og flutningi slasaðra við keðju þar sem sá sem veitir skyndihjálp er fyrsti hlekkur keðjunnar. Því má segja að þekking í skyndihjálp geti stuðlað að betra og öruggara samfélagi.
Tvær tíu ára stúlkur úr Garðinum hlutu viðurkenningu Rauða kross Íslands sem skyndihjálparmenn ársins 2003 fyrir að bjarga lífi lítils drengs. Stúlkurnar, Kolfinna Jóna Baldursdóttir og Sigrún Guðbjörg Magnúsdóttir fengu viðurkenninguna fyrir frækilega frammistöðu og að sýna mikla hetjulund þegar Atli Reynir, 6 ára bróðir Kolfinnu, skarst illa á upphandlegg svo að slagæð fór í sundur.
Stúlkurnar voru ákveðnar í að koma drengnum til aðstoðar. Þær hringdu í Neyðarlínuna, 112, létu drenginn setjast niður, vöfðu handklæði um handlegginn á honum og þrýstu að sárinu þar til hjálp barst.
Stúlkurnar tvær höfðu lært nokkrar aðferðir í skyndihjálp í skátastarfi, meðal annars að stöðva blæðingu. Þær höfðu einnig lært neyðarnúmerið 112 í skólanum. Það fer ekki á milli mála að með þessum aðgerðum björguðu þær lífi Atla Reynis.
Rauði kross Íslands útnefnir árlega skyndihjálparmann ársins í því skyni að hvetja almenning til að læra skyndihjálp. Þekking á einföldum handbrögðum getur bjargað mannslífum þegar á reynir.
Sindri Róbertsson, sextán ára námsmaður frá Breiðdalsvík, hlaut viðurkenningu Rauða kross Íslands sem Skyndihjálparmaður ársins 2002. Jafnframt hlutu sjö aðrir einstaklingar sem komu að tveimur slysum á árinu 2002 sérstakar viðurkenningar fyrir framgöngu sína á slysstað.
Sindri fékk viðurkenninguna fyrir frækilega björgun 18 mánaða systur sinnar frá drukknun, en hún hafði fallið í tjörn í húsgarði á Breiðdalsvík í lok júlí 2002. Sindri brást við með því að blása í systur sína og beita hana hjartahnoði þar til sérhæfð aðstoð barst. Með framgöngu sinni bjargaði hann lífi hennar.
Sjö einstaklingum var veitt viðurkenning auk Sindra, Sigurði G. Ragnarssyni, Sigurði Skúlasyni, Pétri Ottesen, Guðmundi Jens Knútssyni, Sigmundi Felixsyni, Jónu Guðrúnu Baldursdóttur og Árna Rúnari Baldurssyni fyrir veitta aðstoð á vettvangi bílslyss í Hólmsá 29. nóvember 2002, og Svani Tómassyni sem bjargaði lífi föður síns þegar grafa hans fór út í sjó við Ólafsvíkurenni 11. nóvember 2002. Þess má geta að Jóna Guðrún og Árni Rúnar voru farþegar í bílnum sem fór í Hólmsá.
Mikilvægi þekkingar í skyndihjálp
Veitt er viðurkenning fyrir að beita réttum aðferðum á slysstað og bjarga þannig lífi eða koma í veg fyrir alvarlegri afleiðingar slyss.
Viðurkenningin er veitt í samstarfi við tímaritið Séð og heyrt, sem hefur tekið að sér að kynna aðferðir í skyndihjálp fyrir almenningi. Viðstaddir athöfnina voru fulltrúar landlæknis, heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis, Neyðarlínu, lögreglu, slökkviliðs og slysa- og bráðadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss
Það hlýtur að vera martröð hvers foreldris að koma að ungu barni sínu þar sem það hefur gleypt sogskál og getur ekki andað. Sigrún Heiða Pétursdóttir var í þessari stöðu skömmu fyrir jól, en sem betur fer hafði hún verið nýbúin að kynna sér ungbarnaskyndihjálp og brást við af því snarræði og yfirvegun sem nauðsynleg er þegar mikið liggur við. Henni tókst að snúa sogskálinni þannig að hún lokaði ekki öndunarvegi ellefu mánaða gamals sonar síns, Samúels Þórs Sölvasonar, og náði henni að lokum upp.
„Þetta atvik og það að hafa næstum því misst barnið breytti öllu, enda gæti ég ekki hugsað mér lífið án sonar míns, sagði Sigrún þegar Séð og heyrt veitti henni svokallaða hetjutékka í viðurkenningarskyni.
Rauði kross Íslands og Séð og heyrt hafa með sér samstarf um að kynna skyndihjálp, og Rauði krossinn heiðrar í því sambandi árlega Skyndihjálparmann ársins, einhvern sem þykir hafa sýnt snarræði og þekkingu á grundvallaratriðum skyndihjálpar. Þá birtir Séð og heyrt einföld skyndihjálparráð í tengslum við umfjöllun um fólk sem hefur sýnt snarræði við björgun.
Greinin úr séð og heyrt í febrúar 2002:
Samúel Þór Sölvason 11 mánaða, varhætt kominn þann 19. desember sl. Það var í raun aðeins snarræði móður hans Sigrúnar Heiðu, sem varð til þess að hann lét ekki lífið.
Sigrún Heiða, sem er nemi á sálfræðilínu við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, er í sambúð með Sölva Traustasyni rennismið. Þann 19. desember hafði hún lokið öllum prófum og var í óða önn að undirbúa jólin. Á meðan hún bisaði við að festa jólaseríur í glugga sat Samúel Þór hinn rólegasti á gólfinu og dundaði sér með dót. „Ég var með plast sogskálar til þess að festa jólaseríur í glugga og tók eftir því að hann hafði náð í eina. Eins og börn gera gjarnan setti hann sogskálina í munninn og þegar ég ætlaði að taka hana kyngdi hann,“ segir Sigrún Heiða og á greinilega erfitt með að rifja þetta upp. Daginn áður en slysið varð hafði hún gluggað í bók um skyndihjálp í því skyni að fræðast um ungbarnaskyndihjálp. Hún viss því uppá hár hvernig átti að bregðast við. „Ég tók hann upp á fótunum og hvolfdi honum en það virkaði ekki. Þá tók ég hann og setti á læri mér og sló í bakið á honum en það var líka án árangurs. Mitt lokaúrræði var að setja hana í læsta hliðarlegu og þrýsta undir rifbein hans. Þegar ekkert af þessu virkaði var ég orðin alvarlega hrædd, enda slefaði Samúel mikið og ég heyrði að hann átti erfitt með andardrátt. Það var alveg sama hvað ég gerði, aðskotahluturinn var það langt niðri í hálsi hans að ég náði honum ekki upp. Ég rauk í símann og hringdi á neyðarlínuna.“
Var farinn að blána
Þegar þarna var komið sögu var Samúel Þór tekinn að blána en þá loks náði Sigrún að snúa sogskálinni þannig að hún lokaði ekki lengur öndunarvegi hans. Eftir það náði hún sogskálinni upp og hringdi aftur í neyðarlínuna til að láta vita af því. Stuttu síðar kom hjúkrunarfræðingur sem búsettur var í þarnæsta húsi við Sigrúnu á vettvang. Hún hafði samband við sjúkrabíl sem lagður var af stað og eftir að hafa ráðfært sig við Sigrúnu var ákveðið að þiggja vitjun læknis. Þegar læknirinn kom á staðinn klukkan 14:30 skoðaði hann Samúel og sagði að hann væri með sár í hálsinum en að öðru leyti væri í lagi með hann.
Um kvöldið bar Samúel sig aumlega og vildi hvorki borða né sofa. Foreldrar hans hringdu því á lækni.
„Læknirinn sagði okkur að gefa honum 125 mg stíl og fara síðan að sofa. Það er skemmst frá því að segja að ekkert okkar svaf þessa nótt. Samúel sofnaði klukkan átta morguninn eftir en ég sat enn grátandi og gat ekki hætt að hugsa um hvað hefði getað gerst. Ef ég hefði ýtt á sogskálina þegar ég var að reyna að ná henni hefði getað farið illa.“
Rauði kross Íslands útnefndi 14. mars 2001 í fyrsta sinn Skyndihjálparmann ársins, en ætlunin er að standa að slíku vali árlega í samvinnu við Neyðarlínuna og tímaritið Séð og heyrt.
Skyndihjálparmaður ársins 2000 var valinn Jóhann Bjarnason, organisti og kennari við grunnskólann á Hólum í Hjaltadal. Jóhann notaði kunnáttu sína í skyndihjálp eftir að hann bjargaði barni sínu úr bíl upp úr Blöndu í nóvember 2000 og lífgaði það við.
„Jóhann beitti kunnáttu sinni í skyndihjálp með snarræði og hetjulegri framkomu þegar á reyndi,” segir í viðurkenningarskjali sem Jóhanni var afhent á Hólum.
Með viðurkenningu Rauða krossins fékk Jóhann 50.000 króna ávísun frá Séð og heyrt. Ítarlegt viðtal er við Jóhann í blaðinu sem kemur út í dag.
Útnefningin fór fram í samvinnu við Neyðarlínuna, sem sinnir daglega neyðarkalli fjölda manns um allt land. Starfsfólk Neyðarlínunnar leiðbeinir fólki oft um fyrstu viðbrögð þegar hringt er í 112 í kjölfar slyss.
Greinin í Séð og heyrt þann 14. mars:
Þrautgóður á raunastund!
Jóhann ætlaði að skreppa með fjölskylduna til Reykjavíkur þegar bíllinn lenti á hálkubletti við Blöndu og skipti engum togum að hann þeyttist út af þjóðveginum og endaði á hvolfi úti í ískaldri ánni. „Það var meiri hálka en ég gerði ráð fyrir og ég hef ekki hugmynd um hvað bíllinn fór margar veltur,“ segir Jóhann. „Ég man þegar bíllinn lenti og var feginn því að hann var að stoppa en hafði ekki tíma til að hugsa um það lengi því hann fylltist strax af vatni. Ég náði að losa beltið og var í raun mjög hissa þegar ég gat náð andanum.“
Slysið var um hádegisbil en það var algjört myrkur inni í bílnum því hann fór á kaf í ána. „Fyrsta sem kom upp í huga minn var að athuga hvort ég kæmist út því ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég sneri og var alveg ruglaður,“ segir Jóhann. „Eina hurðin sem ég komst að var farþegahurðin en hún var alveg föst. Ég heyrði eitthvert uml innan um vatnsniðinn og fór að athuga með fólkið. Laufey, konan mín, sat við hliðina á mér og aftur í voru synir okkar tveir, Bjarni Dagur, þriggja ára, og Guðmundur Elí, 16 mánaða, auk Ásrúnar Leósdóttur, nemanda úr Bændaskólanum, sem var á leiðinni heim í jólafrí. Hún svaraði mér þegar ég kallaði aftur í og ég heyrði að alla vega annar strákurinn var að gráta. Hins vegar heyrði ég ekkert í Laufeyju en hún svaraði mér að lokum og sagði mér seinna að þá loks hefði hún verið að koma upp úr vatninu. Hún náði ekki að losa beltið og var við það að hætta að geta haldið niðri í sér andanum.
Lífvana og máttlaus
Jóhann og Laufey fór að athuga nánar með syni sína. „Ásrún var búin að losa Bjarna Dag og sagðist ekki ná Guðmundi Elí því hann væri spenntur fastur í stólinn. Ég sá bara móta fyrir vatninu og hreyfingunni. Stóllinn var á hvolfi og hún náði ekki að losa hann. Ég var orðinn mjög dofinn og búinn að missa mest alla tilfinninguna í fingrunum. Einhvern veginn tókst mér samt að teygja mig aftur í á milli sætanna. Mér fannst ég vera eilífðartíma að ná honum. Það var einna erfiðasta stundin þegar ég náði ekki að losa hann.“
Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Jóhanni það að lokum. „Eftir að ég kom drengnum upp úr vatninu fann ég að hann var alveg máttlaus og lífvana í höndunum á mér. Eina sem ég gat gert var að dýfa honum aftur ofan í vatnið til að koma honum fram í til mín. Svo hélt ég á honum og reyndi að ná fram viðbrögðum en allt kom fyrir ekki.“
Jóhann hóf þegar í stað lífgunartilraunir á Guðmundi Elí. „Ég byrjaði að blása í hann eftir bestu getu en munnurinn á honum var fullur af vatni. Ég blés nokkrum sinnum í hann og eftir að hafa blásið í þrjú skipti fór að korra aðeins í honum og hann tók að umla og væla. Þá rétti ég Laufeyju hann og fór að reyna að komast út. Mér fannst langur tími liðinn og við vorum að krókna úr kulda. Ég reyndi að snúa mér við til að spyrna rúðunni út en það var of þröngt til þess að það tækist. Loks náði ég að setja öxlina í hurðina og hún hrökk upp eftir nokkrar tilraunir.
Þakkar æðri máttarvöldum
Þegar Jóhann steig út úr bílnum kom vegfarandi vaðandi út í ána á móti honum. Jóhann rétti honum drenginn og hjálpaði síðan Laufeyju út úr bílnum. Skömmu síðar kom sjúkrabíll á vettvang og fimmmenningarnir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Blönduósi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Guðmund Elí og Jóhann til Reykjavíkur en samkvæmt óstaðfestum mælingum fór líkamshiti drengsins velundir 30 gráður. Þrátt fyrir að útlitið hafi verið mjög slæmt í fyrstu var Guðmundur Elí útskrifaður með hrein lungu daginn eftir.
„Næstu daga á eftir var maður að upplifa þetta aftur og aftur,“ segir Jóhann. „Það mátti ekki muna nema nokkrum kílómetrum í hraða til að bíllinn hefði farið aðeins lengra út í ána þar sem er dýpra og straumurinn hefði tekið hann. Ég held að það sé óhætt að þakka æðri máttarvöldum að ekki fór verr en gerði.“
Jóhann tók skyndihjálp sem valgrein þegar hann var í 9. bekk grunnskóla og fór á námskeið í skyndihjálp fyrir 10 árum. „Mér finnst mikil upphefð að vera valinn Skyndihjálparmaður ársins en þetta er þekking sem maður vonar að maður þurfi aldrei að nota. Þarna kom berlega í ljós hvers virði hún getur verið. Maður veit aldrei hvað bíður handa næstu beygju.“
Fjölskyldan virðist að mestu vera búin að jafna sig nema hvað Jóhann, sem er organisti á Hólum, er með mjög skerta tilfinningu í fingurgómum.
„Ég fyllist ekki biturð þótt tilfinningin skili sér aldrei aftur,“ segir hann. „Ég fékk það mikið til baka úr þessu slysi.“
Synir Jóhanns og Laufeyjar eru ómetanlegir gimsteinar og sannkölluð kraftaverk því áður en þeir fæddust misstu foreldrar þeirra átta mánaða fóstur og nýbura.