Neyðarvarnir
Rauði krossinn á Íslandi gegnir stoðhlutverki við stjórnvöld í almannavörnum. Hlutverk félagsins felst meðal annars í opnun og starfrækslu fjöldahjálparstöðva, söfnunarsvæða aðstandenda og skráningarstöðva, úrvinnslu skráninga, sálfélagslegum stuðningi og aðkomu að rekstri þjónustumiðstöðva almannavarna.
Neyðarvarnir eru landsdekkandi verkefni og félaginu ber skylda til að sinna þeim um land allt. Landsskrifstofa fer með samræmingarhlutverk og sinnir þjónustu við deildir sem eru framkvæmdaraðilar
Fjöldahjálp
Fjöldahjálparstöðvar er hægt að opna og starfsrækja með skömmum fyrirvara til að bjóða þolendum náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól. Þar er þeim séð fyrir helstu grunnþörfum svo sem mat, fatnaði og húsaskjóli. Einnig er gert ráð fyrir að í boði sé ýmis frekari þjónusta svo sem skyndihjálp, sálrænn stuðningur, ráðgjöf og upplýsingar.
Mörg hundruð sjálfboðaliða Rauða krossins eru þjálfuð í að starfrækja fjöldahjálparstöðvar og sækja námskeið reglulega til að viðhalda þekkingunni.
Fjöldahjálparstöðvar eru í flestum tilfellum staðsettar í skólum en einnig má gera ráð fyrir að opna þurfi fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilum, samkomuhúsum, hótelum eða íþróttahúsum. Allt fer þetta eftir aðstæðum hverju sinni.
Algengar spurningar og svör um rýmingar og fjöldahjálparstöðvar
Ef þú ætlar í fjöldahjálparstöð þá fer fram skráning þar. Ef þú ætlar að dvelja annarsstaðar á meðan á rýmingu stendur, skaltu tilkynna þig og aðra sem þú ert að rýma með til 1717.
Nei. Skrá þarf alla sem eru að rýma, bæði börn og fullorðna.
Já. Allir sem hafa búsetu eða dvelja á rýmingasvæði þurfa að láta vita hvar þeir muni dvelja meðan á rýmingu stendur.
Já. Hægt er að hringja í 1717 og upplýsa um dvalarstað.
Já. Það þarf að skrá alla sem eru að rýma svæðið.
Já það má. Mikilvægt er að hafa búr meðferðis.
Tilkynnið að þörf sé á aðstoð við að komast út af svæðinu til næstu lögreglustöðvar.
Nei, ekki á meðan það er utan rýmingasvæðis og símanúmer hafi fylgt með skráningu í upphafi.
Nei, það þarf ekki að tilkynna ef búið er að aflétta rýmingum.
Hafa þarf samband við lögreglu til að fá leyfi til að nálgast nauðsynjar.
Í tilkynningum frá lögreglu og almannavarnadeild eru gefin upp þau heimilisföng sem eru á rýmingarsvæði. Ef þitt er ekki þar á meðal þá þarf ekki að rýma. Ekki er hægt að tryggja að sms berist eingöngu á ákveðnar götur og eru send til upplýsingar til íbúa um rýmingar.
Ekki er hægt að tryggja að SMS berist til allra svo fylgið fyrirmælum/tilkynningum sem koma frá lögreglu og almannavörnum.
Í fjöldahjálparstöðvum eru þjálfaðir sjálfboðaliðar að störfum. Þau sem hafa áhuga á að leggja okkur lið í framtíðarverkefnum geta skráð sig sem sjálfboðaliðar hér og þá verður ef til vill haft samband síðar: https://www.raudikrossinn.is/sjalfbodastorf/umsokn-um-sjalfbodastarf/
Við erum mjög þakklát fyrir hve margir vilja hjálpa og koma með ýmsa muni í fjöldahjálparstöðvarnar, en almennt er ekki þörf fyrir neitt aukalega í fjöldahjálparstöðvarnar.
Ef þú vilt styðja við aðgerðir Rauða krossins er best að gera það með því að skrá sig sem Mannvinur hér: https://www.raudikrossinn.is/styrkja/mannvinir/
Viltu verða sjálfboðaliði í fjöldahjálp?
Við leitum að sjálfboðaliðum 23 ára og eldri sem vilja vera til staðar og bregðast við með skömmum fyrirvara þegar alvarleg atvik koma upp.
Hvar eru fjöldahjálparstöðvar staðsettar?
Viðbragðsteymi
Viðbragðsteymi Rauða krossins veitir þolendum húsbruna, hópslysa og annarra alvarlegra atburða sálrænan stuðning, tryggir að grunnþarfir séu veittar, svo sem fæði, klæði og húsaskjól og stýrir aðgerðum Rauða krossins á vettvangi. Sjálfboðaliðar skipta með sér bakvöktum allan sólarhringinn.
Hópurinn er mannaður sjálfboðaliðum með fjölbreyttan bakgrunn sem eiga það sammerkt að hafa þekkingu og reynslu af sálrænum stuðningi í gegnum menntun, reynslu og störf. Allir sjálfboðaliðar hljóta jafnframt þjálfun í sálrænum stuðningi, neyðarviðbrögðum og skyndihjálp hjá Rauða krossinum, helst áður en þeir hefja störf í hópnum.
Viltu verða sjálfboðaliði í viðbragðsteymi?
Við leitum að sjálfboðaliðum 25 ára og eldri sem hafa þekkingu og reynslu af sálrænum stuðningi
3 dagar
Þjóðin fær reglulega að kynnast áhrifum eldgosa, jarðskjálfta, ofanflóða, jökulhlaupa og óveðra. Rauði krossinn á Íslandi er mikilvægur hluti af kerfi almannavarna á Íslandi og felst hlutverk félagsins meðal annars í opnun og starfsrækslu fjöldahjálparstöðva, söfnunarsvæða aðstandenda og skráningarstöðva, úrvinnslu skráninga, sálfélagslegum stuðningi og aðkomu að rekstri þjónustumiðstöðva almannavarna.
Hvert og eitt heimili þarf einnig að geta verið sjálfu sér nægt í 3 daga ef hamfarir og neyðarástand dynur yfir. Er þitt heimili tilbúið?
Algengar spurningar og svör
Ef slokknar á öllu, net- og símasamband dettur og/eða vegir verða ófærir er mikilvægt að hvert heimili geti verið sjálfu sér nægt í a.m.k. 3 daga.
Góður undirbúningur minnkar álag á viðbragðsaðilum t.d. björgunarsveitum.
Að vera vel undirbúin getur jafnvel bjargað mannslífum. Öll heimili ættu að vera með heimilisáætlun og viðlagakassa tilbúinn.
Öll! Náttúruhamfarir og slæmt veður getur dunið á á Íslandi hvar sem er og með litlum fyrirvara.
Viðlagakassi ætti að vera til staðar á hverju heimili, þ.e. kassi sem inniheldur þá hluti sem íbúar gætu þurft á að halda í kjölfar hamfara. Við vitum aldrei hvenær við gætum þurft að grípa til hans þegar náttúran gerir vart við sig svo best er að útbúa slíkan kassa strax í dag ef hann er ekki nú þegar til staðar. Athugið að geyma kassann þar sem öll fjölskyldan getur nálgast hann og gættu þess að hlutirnir í honum séu ekki útrunnir.
Hér að neðan er gátlisti yfir hluti sem mikilvægt er að hafa innan seilingar - annað hvort í viðlagakassanum eða á aðgengilegum stað.
Viðlagakassinn
Munið að margt er til á heimilum nú þegar og því er þetta oftar en ekki spurning um að taka þá til, setja í kassa og hafa á aðgengilegum stað.
-
Listi yfir mikilvæg símanúmer - Fjölskyldumeðlimir og viðbragðsaðilar, s.s. 112.
-
Kerti og eldspýtur - Ef rafmagn þrýtur er nauðsynlegt að geta tendrað ljós og kveikt upp í eldunargræjum.
-
Sterkt viðgerðarlímaband - Mjög gagnlegt í minni viðgerðir og skammtímareddingar.
-
Hreinlætisvörur - Tannbursta, bleyjur, sápu, dömubindi/túrtappa, svitalyktareyði o.s.frv.
-
Vasaljós með rafhlöðum
-
Reiðufé
-
Leikföng og spil - Nauðsynlegt fyrir börn jafnt sem fullorðna og fyrirtaks dægrastytting.
-
Vatn á flöskum eða brúsa - Hver einstaklingur notar allt að fjóra lítra á dag.
-
Teppi til að kúra saman í kuldanum - Muna að hafa nóg fyrir alla á heimilinu.
-
Matur með langt geymsluþol (dósamatur, pakkamatur, þurrmeti) - Svo er bara að borða hann í útilegum á sumrin og fylla aftur á með haustinu.
-
Vasahnífur eða fjölnota verkfæri - Nauðsynlegt í minniháttar viðgerðir og skítamix.
Annað sem er mikilvægt að hafa í huga:
-
Skyndihjálpartaska er alltaf nauðsynleg á hvert heimili. Hana má kaupa hjá Rauða krossinum.
-
Prímus og gaskút er nauðsynlegt að eiga - það er leiðinlegra að borða dósamatinn kaldan. Þá virkar gasgrill líka.
-
Slökkvitæki
-
Hleðslubanki og hleðslutæki
-
Hafðu nóg eldsneyti á bílnum/passaðu að hann sé hlaðinn ef hættuástand skapast og þú átt bíl - þannig geturðu hlaðið síma og fylgst með fréttum í útvarpinu ef samband er til staðar.
-
Kynntu þér staðsetningu næstu fjöldahjálparstöðvar. HÉR má finna staðsetningar á landinu.
-
Náðu í skyndihjálparappið á App Store eða Google Play. Þar er einnig kafli um neyðarvarnir.
Mikilvægt er að heimilisáætlun sé til staðar þar sem náttúruhamfarir og veðrabrigði gerast oft án viðvörunar. Til að sporna við skaða á bæði híbýlum og fólki þarf fyrirfram undirbúin viðbrögð.
Í hvers kyns hamförum hafa flestir mestar áhyggjur af sínum nánustu og því er heimilisáætlun nauðsynleg. Samkvæmt Almannavörnum felst heimilisáætlun í fjórum megin skrefum:
- Hættumat - Hvað gæti gerst
- Forvarnir - Hvernig er hægt að minnka líkur á slysum og tjóni í kjölfar hættuástands?
- Viðbragðsáætlun - Hvernig eigum við að bregðast við?
- Æfingar-upprifjun-endurskoðun - Hvað og hvernig eigum við að æfa okkur?
Á vef Almannavarna má finna mjög greinagóða lýsingu á hvernig setja eigi upp heimilisáætlun og hvetur Rauði krossinn alla til að kynna sér hana til hlítar.
Þegar íbúum á tilgreindum reitum (svæðum) hefur borist tilkynning um rýmingu ber þeim að fara í öruggt húsnæði fyrir skilgreinda tímasetningu. Tryggja þarf að öll þau sem í húsinu búa eða vinna fái vitneskju um að rýma skuli húsnæðið. Heimilisfólk þarf að ákveða hver eða hverjir það eru sem tryggja það.
Gott er að hafa hugað að því hvað nauðsynlegt sé að taka með sér þegar rýma þarf. Til að mynda er ágætt að miða við að hafa fatnað og nauðsynjar til nokkurra daga, ásamt því að taka með sér eigur sem erfitt er að bæta.
Taka með:
• Lyf, fatnað, snyrtivörur og nauðsynleg hjálpartæki, t.d. gleraugu og heyrnartæki.
• Hleðslutæki og/eða hleðslubanka fyrir farsíma.
• Nauðsynjar fyrir ungbörn ef þau eru á heimilinu.
• Mat og búr fyrir gæludýr ef þau eru tekin með.
Ekki gleyma að:
• Ganga tryggilega frá helstu verðmætum eða hafa þau meðferðis. Helstu verðmæti eru til að mynda verðmætir pappírar sem erfitt getur verið að fá endurútgefna, hlutir með tilfinningalegt gildi, vottorð, vegabréf o.fl.
• Loka öllum gluggum og hurðum.
• Tryggja að matvæli liggi ekki undir skemmdum á meðan rýmingu stendur.
• Ganga úr skugga um að hiti sé á húsinu.
• Gott er að skilja eftir ljós í forstofu og við útidyr.
• Setja rýmingarskiltið út í glugga þegar heimili hefur verið rýmt þannig að það sjáist sem best frá götu.
Að þessu loknu skal halda til fjöldahjálparstöðvarinnar til móttöku-/skráningarfólks eða hringja í 1717 og halda til þess dvalarstaðar sem ákveðinn hefur verið. Fólk er hvatt til þess að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Jarðhræringar á Reykjanesi
Gagnlegir hlekkir vegna jarðhræringa á Reykjanesi
Líðan og bjargráð í náttúruvá
Í ástandi eins og Grindvíkingar búa við núna þegar rýming er afstaðin og neyðarástand ríkir á svæðinu er viðbúið að fólk finni fyrir alls konar tilfinningum. Það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti sínum gagnvart náttúrunni. Að búa við þá óvissu sem nú ríkir tekur á og þá er sérstaklega mikilvægt að huga að líðan sinni.
Þegar þú upplifir náttúruhamfarir gætirðu:
- fundist þú líkamlega og andlega örmagna
- átt erfitt með að taka ákvarðanir eða einbeita þér
- orðið auðveldlega pirruð/pirraður eða uppstökk/uppstökkur
- fundið fyrir þreytu, sorg, dofa, einmanaleika eða haft áhyggjur
- fundið fyrir breytingum á matarlyst eða svefnmynstri
- Mörg sveiflast í tilfinningum og líður mismunandi eftir atvikum
Það sem þú getur gert:
Reyndu að einbeita þér að því að hafa stjórn á því sem möguleiki í aðstæðunum.
Hugaðu að næringu, hvíld og hreyfingu, þannig söfnum við orku.
Vertu í sambandi við fjölskyldu og vini. Að veita og fá stuðning er það mikilvægasta sem þú getur gert.
Vertu þolinmóð/ur við sjálfa/n þig og þau sem eru í kringum þig. Jarðhræringar sem þessar hafa mismikil áhrif á fólk en mörg gætu þurft smá tíma til að koma tilfinningum sínum í orð og ná tökum á hugsunum sínum.
Sýndu þér mildi, það er eðlilegt að finna fyrir allskonar tilfinningum við þessari aðstæður.
Reyndu að forgangsraða því sem þarf að gera og takast á við þau verkefni í litlum skrefum.
Ef þú finnur að streita og vanlíðan eru yfirþyrmandi og óviðráðanleg yfir lengri tíma þá geturðu leitað frekari aðstoðar í heilbrigðiskerfið.
BÖRN OG NÁTTÚRUVÁ
Börn upplifa erfið atvik á annan hátt en fullorðnir. Að upplifa náttúruvá getur orðið til þess að börn verða hrædd, ringluð og óörugg, sérstaklega ef þessi reynsla er ekki þeirra fyrsta.
Börn geta ekki alltaf talað um áhyggjur sínar og birtast þær því stundum í hegðun barns. Sum bregðast strax við; önnur geta sýnt áhyggjur vikum eða mánuðum síðar. Það getur hjálpað foreldrum að þekkja merkin og bregðast við í samræmi við það.
- Þau geta verið æstari eða sýnt aðra breytingu á hegðun
- Þau geta verið hændari að okkur, verið viðkvæm eða grátið oft
- Þau gætu þurft meiri athygli eða hughreystingu frá fullorðnum sem þau treysta, mikilvægt er að fullorðnir reyni að sýna stillingu, börn fylgjast með viðbrögðum þeirra og álykta hættu út frá því.
Hér eru nokkur ráð varðandi hvernig hægt er að tala við börn:
- Veitið börnum tækifæri til að tala
- Leyfðu börnunum að ræða ótta sinn og áhyggjur
- Spurðu þau hvað þau vilja vita
- Ekki vera hrædd/ur við að viðurkenna að þú hafir ekki öll svörin
- Svaraðu spurningum sem henta aldri þeirra og af heiðarleika
- Minnum okkur og þau á að landið okkar býr yfir þessum mikla krafti og kerfin okkar vinna að því að vernda okkur og finna leiðir. Við lærum inn á viðbrögð og bjargir og tökumst á við þetta saman.
Sálrænn stuðningur
Hér má finna bæklinga og upplýsingar sem tengjast sálrænum stuðningi og viðbrögðum við erfiðum aðstæðum.