Fjölskyldusameiningar
Rauði krossinn á Íslandi veitir aðstoð í formi upplýsinga um ferli fjölskyldusameininga, meðal annars um þau skjöl sem umsækjandi þarf að leggja inn til Útlendingastofnunar, en þar er sótt um fjölskyldusameiningu. Til þess að bóka tíma má senda tölvupóst á tracing@redcross.is
Bóka tíma
Til að geta sótt um fjölskyldusameiningu verður viðkomandi að hafa fengið jákvætt svar við umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Þá er mögulegt að sækja um fyrir maka og börn yngri en 18 ára. Ef foreldrar viðkomandi eru eldri en 67 ára er mögulegt, undir vissum skilyrðum, að sækja um fjölskyldusameiningu við þá. Ef viðkomandi er undir 18 ára aldri er hægt undir ákveðnum skilyrðum að sækja um fjölskyldusameiningu við foreldra og systkini sem eru undir 18 ára aldri.
Leitarþjónusta
Hefur þú misst samband við fjölskylduna þína í kjölfar stríðsátaka, náttúruhamfara eða flótta? Einstaklingar geta leitað til leitarþjónustu Rauða krossins til þess að komast í samband við fjölskyldur sínar eða til að komast að því hvað varð um nána ættingja sem saknað er.
Rauði krossinn á Íslandi er hluti af leitarþjónustu alheimshreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Ef leita þarf á átakasvæðum er unnið í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). Við störfum í öllum löndum og getum leitað þvert á landamæri.
Leitarþjónusta Rauða krossins hefur verið starfsrækt í yfir 150 ár. Fjölskyldur sem hafa orðið viðskila vegna átaka búa oft árum, jafnvel áratugum, saman við óttann sem fylgir óvissunni um að vita ekki um afdrif ástvina. Í þeirri ringulreið sem ríkir á vígvöllum og hamfarasvæðum verður fólk oft viðskila við sína nánustu, og eyða jafnvel það sem eftir er ævinnar við leit að þeim. Af öllum þeim þjáningum sem átök og náttúruhamfarir valda er óvissan um afdrif ættingja ef til vill með þeim verstu.
Komi fram beiðni um leitarþjónustu fær viðkomandi fund með starfsmanni þar sem farið er ítarlega í ástæður viðskilnaðarins og skoðaðir allir möguleikar á að koma á sambandi á nýjan leik. Leitarbeiðni er send til leitarþjónustu Rauða krossins eða Rauða hálfmánans í viðkomandi landi og í fleiri löndum ef ferðast hefur verið milli margra landa eins og oft er með fólk á flótta. Annar hluti leitarþjónustu felst í að koma á sambandi í gegnum síma, þá getur umsækjandi sem er hér á landi hringt í ættingja sína eftir langt og erfitt ferðalag til þess að láta vita af því að viðkomandi sé heill á húfi. Þessi möguleiki er ekki síst mikilvægur fyrir börn sem ferðast án fylgdar fullorðinna.
Það getur tekið langan tíma að koma á samskiptum milli ættingja en þó ekkert öruggt í þeim efnum. Það er afar mikilvægt fyrir þá sem orðið hafa viðskila við ástvini sína að eiga þess kost að fá aðstoð við leit að sínum nánustu og eiga von um að mögulega komist samband á að nýju. Það veitir ró að vita til þess að allt hafi verið gert til að leita að ástvinum. Starfsmenn leitarþjónustu leggja áherslu á að skapa ekki falsvonir um árangur án þess að útiloka að samband muni komast á að nýju.
Nánari upplýsingar má nálgast á tracing@redcross.is