Sendifulltrúar Rauða krossins
Á hverju ári sendir Rauði krossinn á Íslandi á milli 10 og 30 sendifulltrúa til hjálparstarfs erlendis. Verkefni sendifulltrúa, sem oft eru unnin við erfiðar aðstæður, taka mislangan tíma en eru oftast til sex til tólf mánaða. Reyndir sendifulltrúar starfa við neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara og á átakasvæðum í styttri tíma, þó að lágmarki til 3ja mánaða, og halda til starfa með mjög skömmum fyrirvara.
Sendifulltrúar Rauða krossins starfa sem hlutlausir aðilar á vettvangi átaka og hamfara við neyðaraðstoð. Sendifulltrúar hafa sumir það hlutverk að hafa eftirlit með því að fjármagn og hjálpargögn skili sér til þeirra sem búa við sárustu neyðina ásamt því að þjálfa starfsfólk Rauða kross félaga í löndunum þar sem þeir starfa og stuðla þannig að því að byggja upp starfsgetu viðkomandi landsfélags Rauða krossins eða Rauða hálfmánans.
Sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfa í langflestum tilvikum með Alþjóða Rauða krossinum. Um er að ræða störf með Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC) annars vegar og Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) hins vegar.
Sendifulltrúar Rauða krossins hafa menntun sem nýtist í alþjóðlegu hjálparstarfi, minnst 3 ára starfsreynslu eftir lok náms og hafa gott vald á enskri tungu, jafnt töluðu sem rituðu máli. Einnig er leitað að fólki sem hefur að auki gott vald á frönsku eða öðrum tungumálum svo sem rússnesku, arabísku, portúgölsku, spænsku o.fl. Starfsreynsla erlendis, sérstaklega í fátækari ríkjum, er kostur.
Sendifulltrúanámskeið
Rauði krossinn á Íslandi leitast við að senda vel þjálfað og hæfileikaríkt starfsfólk til hjálparstarfa erlendis. Forsenda þess að vera á Veraldarvakt félagsins og þar með að hafa möguleika á að starfa sem sendifulltrúi er að sækja sendifulltrúanámskeið Rauða krossins sem haldin eru annaðhvert ár.
Umsóknum fyrir sendifulltrúanámskeið 2025 skal skila hér:
Sendifulltrúanámskeið 2025
Aðalmarkmið námskeiðsins eru:
-
Að auka skilning þátttakenda á grundvallarmarkmiðum og skipulagi Rauða kross hreyfingarinnar
-
Að ræða málefni, vandamál og ögrandi viðfangsefni sem þátttakendur gætu þurft að takast á við í þróunarvinnu, neyðaraðstoð og á átakasvæðum
-
Að veita þátttakendum innsýn í og gefa þeim hagnýt ráð við að vinna á skilvirkan hátt innan sendinefndar
-
Að hjálpa þeim að þróa færni sína í þróunarvinnu og neyðaraðstoð
-
Að veita Rauða krossinum á Íslandi og þátttakendunum sjálfum tækifæri til að endurmeta hæfni þeirra til að vinna sem sendifulltrúar Rauða krossins.
Rauði krossinn á Íslandi fylgir alþjóðlegri námskrá við skipulagningu námskeiðsins sem er tvíþætt. Fyrri hlutinn sem er fræðilegur fer fram á netinu en seinni hlutinn, sá verklegi á námskeiðsstað utan höfuðborgarsvæðis. Leiðbeinendur og fyrirlesarar koma frá Rauða krossinum á Íslandi, Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) og Alþjóðaráði Rauða krossins (ICRC).
Námsefnið er tekið fyrir á fjölbreyttan hátt. Það er byggt á persónulegri reynslu, raunhæfum verkefnum, hópavinnu, umræðum, framsöguerindum og myndasýningum.
Gert er ráð fyrir að þátttakendur taki virkan þátt í námskeiðinu allan tímann og sérstök áhersla er lögð á hópavinnu og hlutverk hvers og eins innan hópsins. Námskeiðið er miðað við raunhæfar aðstæður sem sendifulltrúar geta lent í. Meginmarkmiðið er fyrst og fremst að byggja upp vitund og skilning á undirstöðuþáttunum en ekki að þjálfa þátttakendur í verklegri færni. Þess er vænst að þátttakendur hafi þá þegar öðlast færni á hinum ýmsu sviðum í gegnum nám og störf enda hafi þeir verið valdir á námskeiðið á þeim forsendum.
Námskeiðið fer fram á ensku og stendur í 6 daga. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur dvelji á námskeiðsstaðnum allan tímann.
Hvað þarf sendifulltrúi að hafa til að bera?
Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á að laða til sín áhugasamt, metnaðarfullt og traust starfsfólk til að framfylgja stefnumálum félagsins og veita þeim sem unnið er með og fyrir skjóta og góða þjónustu. Rauði krossinn leggur áherslu á jafnræði, mannvirðingu og tillitssemi í samskiptum. Störf sendifulltrúa eru launuð.
Starfsvettvangur sendifulltrúa er margvíslegur. Þar má nefna almenn stjórnunarstörf, fjármálastjórnun, upplýsingaveitu- og kynningarstörf, heilbrigðisstörf, störf við upplýsingatækni, flutning og dreifingu hjálpargagna, byggingastörf og störf við vatnsöflun og frárennslisveitur. Sendifulltrúar félagsins starfa einnig að vernd almennings á átakasvæðum í samræmi við Genfarsamningana.
Á þessari slóð má sjá algengustu störf sendifulltrúa á vettvangi vegna neyðaraðstoðar.
Nánari upplýsingar
Til að fá nánari upplýsingar, sendið fyrirspurn á impact@redcross.is
Sendifulltrúar á skrá
Hér er að finna sendifulltrúa sem hafa farið í ferðir frá og með árinu 2019.