Rauði krossinn á Íslandi
Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924 og bar þá nafnið Rauði kross Íslands. Nafninu var breytt í Rauði krossinn á Íslandi á aðalfundi 2012 og gengur félagið undir því nafni nú.
Kapp var lagt á að flytja starfsemi Rauða krossins til Íslands, ekki síst til þess að efla hjúkrun og styðja við heilbrigðiskerfið á landsvísu. Voru Steingrímur Matthíasson, læknir og Þorbjörg Ásmundsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur þar fremst í flokki, ásamt Gunnlaugi Claessen og Sveini Björnssyni, en sá síðastnefndi gegndi einnig stöðu fyrsta formanns félagsins og síðar hlutverki fyrsta forseta lýðveldisins Íslands. Félagið hefur ávallt verið brautryðjandi á sviði heilbrigðis-, félags- og fræðslumála og fjölmörg fyrri verkefni Rauða krossins eru nú starfrækt af íslenska ríkinu, sveitarfélögum og öðrum aðilum. Frá upphafi hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins haldið starfi félagsins gangandi og eru rúmlega 3000 sjálfboðaliðar að störfum í nærsamfélaginu um land allt.
Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins á Íslandi nær á hverju ári til þúsunda þolenda hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim. Rauði krossinn á Íslandi gegnir stoðhlutverki við stjórnvöld á sviði mannúðarmála, líkt og önnur landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans gera hvert í sínu landi. Samtakamáttur, stuðningur, sjálfboðið starf og gagnkvæmur skilningur er leiðarstef fyrir farsælt starf félagsins.
Innanlandsstarf Rauða krossins er fjölbreytt, allt frá neyðarvörnum, skaðaminnkun og sálfélags stuðnings til skyndihjálpar, sölu á endurnýttum fatnaði og aðstoð við flóttafólk. Verkefnin eru framkvæmd af sjálfboðaliðum sem gera starf Rauða krossins um land allt mögulegt.
Þann 5. desember 2014 tóku í gildi landslög um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins (115/2014) en þau má lesa hér.
Sýnin
Við erum leiðandi á sviði mannúðarmála á Íslandi og grundvöllum starfið á sjálfboðinni þjónustu. Samfélagið allt treystir á Rauða krossinn á erfiðum tímum. Við virkjum fólk til að vera hreyfiafl jákvæðra breytinga til að stuðla að bættri framtíð fyrir okkur öll.
Nálgunin
Við stöndum vörð um rétt og ákvarðanir fólks til að ná fram jákvæðum breytingum fyrir sig, samfélög sín og heiminn allan. Við leggjum okkur fram um að sýna þeim sérstaklega stuðning sem búa við erfiða stöðu og jaðarsetningu í samfélaginu. Við byggjum allt okkar starf á grundvallarhugsjónum Rauða krossins og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Stefnan
Stefnan okkar er hvatning og leiðarvísir fyrir allt félagið svo við höfum raunveruleg áhrif og náum árangri í störfum okkar.
Alheimshreyfing
Útbreiddasta og fjölmennasta mannúðarhreyfing heims
Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er útbreiddasta og fjölmennasta mannúðarhreyfing heims með starfsemi í flestum ríkjum. Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans veita aðstoð og dreifa hjálpargögnum í hverju landi fyrir sig. Þannig tryggir Rauðakrosshreyfingin að hjálpin komist beint til skila til þeirra hópa sem mest þurfa á aðstoð að halda. Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru um 190 en einungis eitt Rauða kross félag má starfa í hverju landi. Saman mynda Alþjóðaráð Rauða krossins, Alþjóðasambandið og landsfélögin, alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
Upphafið
Ein mesta orrusta í styrjöldinni milli Austurríkismanna og Frakka um miðbik 19. aldar átti sér stað á völlunum við Solferino á Norður-Ítalíu árið 1859. Þar börðust liðlega 300 þúsund manns og undir lokin lágu um 40 þúsund í valnum fallnir eða særðir. Ungur svissneskur kaupsýslumaður, Henry Dunant að nafni, átti leið um héraðið á sama tíma og það sem hann sá fékk mikið á hann. Hann tókst á hendur að skipuleggja hjálparstarf á vígvellinum með aðstoð kvenna úr nærliggjandi þorpum en hjúkrunarsveitir hersins voru óskipulagðar og réðu engan veginn við verkefnið. Hjálparstarfið fór fram undir kjörorðinu "Tutti fratelli" eða „allir eru bræður." Þetta þýddi að hjálparliðið kom öllum særðum hermönnum á vígvellinum til hjálpar án tillits til þess hvaða liði þeir tilheyrðu. Þarna birtist í hnotskurn það hlutleysi sem alla tíð síðan hefur einkennt starfsemi Rauða krossins.
Þremur árum eftir þessa atburði kom út bók eftir Dunant sem hann nefndi „Minningar frá Solferino." Þar lýsir hann framgangi orrustunnar og stingur upp á því í kjölfarið að reynt verði að stemma stigu við hörmulegum afleiðingum styrjalda með því annars vegar að þjálfaðar yrðu hjálparsveitir sem hægt yrði að send á vettvang komi til styrjaldar og hins vegar að ríki heims skuldbindi sig til þess að veita sveitunum friðhelgi á vígvellinum gegn því að þær starfi fullkomlega hlutlaust og liðsmenn þeirra beri ekki vopn.
Árið 1919 mynduðu félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans með sér samtök, Alþjóðasamband félaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem í daglegu máli eru oftast kölluð Alþjóðasamband Rauðakrossfélaga. Nú eru landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans orðin 192. Landsfélögin mynda saman Alþjóðaráðið og Alþjóðasamband Rauða krossins. Fjórða hvert ár koma aðilar hreyfingarinnar saman ásamt fulltrúum ríkisstjórna sem hafa undirritað Genfarsamningana á alþjóðlegri ráðstefnu þar sem fjallað er um alþjóðleg mannúðarmál og þróun mannúðarlaga.
Munurinn á starfsemi Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambandsins er sá að Alþjóðaráðið er sjálfstæð stofnun sem einbeitir sér að hjálparstarfi á stríðssvæðum, auk þess sem það vinnur öflugt starf við útbreiðslu á þekkingu um Genfarsamninganna, en Alþjóðasambandið er samband aðildarfélaganna og vinnur að hjálparstarfi utan vígvalla, einkum í kjölfar náttúruhamfara. Þá hefur það ákveðnu hlutverki að gegna við þróun og uppbyggingu landsfélaga.
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) var stofnað 20. október 1863 og Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans var stofnað árið 1919. Stofnandi Rauða krossins var Svisslendingurinn Henry Dunant. Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924.
Alþjóðastarf Rauða krossins á Íslandi byggist á víðtæku samstarfi við önnur landsfélög hreyfingarinnar og snýr að jafnrétti, öryggi og vernd sem og styrkingu innviða og loftslagsmálum.