Undirstefnur, regluverk og áætlanir
Hér má finna helstu núgildandi regluverk (e. policy) sem eru í gildi hjá Rauða krossinum á Íslandi.
Jafnlaunastefna
Rauði krossinn á Íslandi hefur hlotið jafnlaunavottun til ársins 2023. Vottun kerfisins er til þriggja ára í senn en vottunaraðili (iCert) mun fylgja vottun eftir árlega með viðhaldsúttektum. Rauði krossinn stóðst úttekt án frávika og athugasemda.
Með vottun hefur Rauði krossinn fengið staðfestingu á að jafnlaunakerfi félagsins sé í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Jafnlaunakerfi félagsins nær til alls starfsfólks félagsins og er megin tilgangur þess að tryggja að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Persónuverndarstefna og upplýsingaöryggisstefna
Persónuverndarfulltrúi Rauða krossins er Kristjana Fenger, kristjana@redcross.is
Persónuvernd er eitt af lykilatriðum í starfsemi Rauða krossins. Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa hvaða persónuupplýsingum félagið safnar og með hvaða hætti félagið nýtir slíkar persónuupplýsingar. Persónuverndarstefna þessi nær til persónuupplýsinga um einstaklinga sem tilheyra eftirfarandi hópum sem þjónusta Rauða krossinn eða sækja þjónustu til félagsins: starfsfólk, sjálfboðaliðar, félagar, skjólstæðingar, velunnarar, kaupendur þjónustu, námskeiðsþátttakendur og leiðbeinendur á námskeiðum. Stefnan var samþykkt af stjórn Rauða krossins á Íslandi 20. júní 2018.
Lesa meira um persónuverndarstefnu
Tilgangur upplýsingaöryggisstefnu er að setja fram áherslur félagsins í upplýsingaöryggi og persónuvernd. Grundvöllur stefnunnar eru fagviðmið um gæði og ábyrgð í mannúðarstörfum svo og grunngildi hreyfingarinnar. Rauði krossinn á Íslandi fer eftir öllum viðeigandi lögum sem gilda um stofnunina og önnur lög og reglur sem kunna að gilda. Dæmi um slík lög eru lög Rauða krossins á Íslandi, Persónuverndarlög og reglur Persónuverndar.
Gæðastefna
Tilgangur gæðastefnu Rauða krossins á Íslandi er að setja fram áherslur félagsins í gæðamálum og tryggja að gæði og þjónusta sé í samræmi við væntingar notenda, sjálfboðaliða og almennings. Með öflugu gæðakerfi vill Rauði krossinn vera leiðandi á sviði mannúðarmála á Íslandi og veita fyrsta flokks þjónustu til notenda og annarra sem á þjónustu þurfa að halda. Markmiðið er einnig að koma á auknu gagnsæi í störfum félagsins sem tryggja á öllum sama rétt til þjónustu og að notendur með sömu þarfir fái sömu þjónustu.
Umhverfisstefna
Í starfi Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru loftslags-, umhverfis- og mannúðarmál samtvinnuð. Rauða kross hreyfingin á að vera fyrirmynd í umhverfisvænni hugsun, háttum og starfi, sem aftur leiðir af sér aukin lífsgæði fyrir þá sem höllum fæti standa. Rauði krossinn mun beita sér fyrir því að alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans móti umhverfisstefnu sem væri hugsuð sem grunnur fyrir landsfélögin. Fyrir utan ávinning náttúrunnar sjálfrar og umhverfisins, fylgir umhverfisstarfinu m.a. beinn rekstrarsparnaður. Þess utan sýnir Rauði krossinn með góðu orðspori í umhverfismálum samfélagslega ábyrgð og eflir með því enn meir ímynd félagsins.