Persónuverndarstefna Rauða krossins á Íslandi
Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa hvaða persónuupplýsingum félagið safnar og með hvaða hætti félagið nýtir slíkar persónuupplýsingar.
Persónuverndarstefna þessi nær til persónuupplýsinga um einstaklinga sem tilheyra eftirfarandi hópum sem þjónusta Rauða krossinn eða sækja þjónustu til félagsins: starfsfólk, sjálfboðaliðar, félagar, skjólstæðingar, velunnarar, kaupendur þjónustu, námskeiðsþátttakendur og leiðbeinendur á námskeiðum.
Tilgangur og markmið
Hjá Rauða krossinum á Íslandi, kt. 530269-2649, Efstaleiti 9, 103 Reykjavík (einnig vísað til „Rauða krossins“, „félagsins“ og „okkar“) er lögð rík áhersla á að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem félagið vinnur.
Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa þig um vinnslu Rauða krossins á persónuupplýsingum, þ.á.m. hvaða persónuupplýsingum félagið safnar, með hvaða hætti félagið nýtir slíkar persónuupplýsingar og til hvaða þriðju aðila Rauði krossinn kann að miðla upplýsingum.
Umfang
Persónuverndarstefna þessi á eingöngu við þegar Rauði krossinn vinnur persónuupplýsingar sem ábyrgðaraðili í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, t.d. þegar félagið vinnur persónuupplýsingar sjálfboðaliða, skjólstæðinga, velunnara, þátttakenda á námskeiðum, umsækjenda um störf hjá félaginu eða annarra sem tengjast Rauða krossinum á einn eða annan hátt. Í stefnu þessari er vísað sameiginlegra til þeirra aðila sem Rauði krossinn kann að vinna persónuupplýsingar um sem „skráðra aðila“ eða til „þín“.
Vinsamlegast hafðu samband við okkur ef þú ert í vafa um það hvernig persónuverndarstefnan varðar þig. Samskiptaupplýsingar okkar koma fram í lok stefnunnar.
Innihald
Hvaða persónuupplýsingar vinnur Rauði krossinn?
Vinnsla Rauða krossins á persónuupplýsingum fer eftir sambandi félagsins við þá einstaklinga sem upplýsingarnar tilheyra. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað um einstaklinga eftir því hvort viðkomandi á í viðskiptum við félagið, er sjálfboðaliði eða sækir þjónustu á vegum Rauða krossins.
Í köflunum hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar Rauði krossinn á Íslandi vinnur í ólíkum tilvikum, lýsingu á því í hvaða tilgangi vinnslan fer fram og á hvaða grundvelli vinnslan byggir. Smelltu á það sem á við um þig.
Umsækjendur um störf
Rauði krossinn vinnur eftirfarandi persónuupplýsingar um umsækjendur um störf, eftir því sem við á:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, netfang og símanúmer
- kennitala
- upplýsingar sem fram koma í ferilskrá og kynningarbréfi
- upplýsingar á umsóknareyðublaði, þ. m. t. um starfsferil og menntun
- aðrar upplýsingar sem umsækjandi kýs að veita í ráðningarferlinu
Þá vinnur félagið með eftirfarandi upplýsingar um þá umsækjendur sem komast áfram í ráðningarferli:
- upplýsingar frá meðmælendum
- upplýsingar sem koma fram í starfsviðtali
Upplýsingum um umsækjendur er aflað frá umsækjandanum sjálfum, meðmælendum og eftir atvikum ráðningarskrifstofum og eru þær notaðar til að meta hæfni umsækjanda til að sinna viðkomandi starfi. Byggir slík vinnsla á beiðni umsækjanda um gerð ráðningarsamnings.
Rauði krossinn á Íslandi geymir persónuupplýsingar umsækjenda í allt að 6 mánuði eftir að umsókn berst félaginu, en að þeim tíma liðnum er umsóknum eytt með öruggum hætti. Rauði krossinn kann að óska eftir því að geyma umsóknir lengur vegna frekari starfstækifæra hjá félaginu. Í þeim tilvikum mun Rauði krossinn hafa samband við umsækjanda og óska eftir samþykki fyrir lengri varðveislu.
Sjálfboðaliðar
Umsækjendur um störf sjálfboðaliða
Rauði krossinn safnar og varðveitir ýmsar persónuupplýsingar um umsækjendur um störf sjálfboðaliða. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað eftir því hvernig sjálfboðaliðastarf er um að ræða, en almennt er unnið með eftirfarandi persónuupplýsingar umsækjenda:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, sími og netfang
- kennitala
- upplýsingar sem fram koma í ferilskrá og kynningarbréfi
- sakavottorð
Eftir að sakavottorð hefur verið skoðað er því eytt en staðfesting á að umsækjandi sé ekki á sakaskrá er vistuð. Þessa vinnslu byggir Rauði krossinn á samþykki, en óskað er eftir því að umsækjendur undirriti samþykkiseyðublað áður en sakavottorðs er aflað. Í þeim tilfellum þar sem sjálfboðaliði mun koma til með að starfa með börnum óskar Rauði krossinn eftir sakavottorði beint frá ríkissaksóknara, en þó aldrei án samþykkis umsækjanda.
Framangreindar upplýsingar eru notaðar til að meta hæfni umsækjanda til að sinna viðkomandi sjálfboðastarfi. Byggir slík vinnsla á beiðni umsækjanda um gerð samnings um sjálfboðaliðastöðu.
Starfandi sjálfboðaliðar
Ólíkum persónuupplýsingum er safnað eftir eðli sjálfboðaliðastarfsins sem um ræðir hverju sinni. Rauði krossinn vinnur þó alltaf eftirfarandi persónuupplýsingar um sjálfboðaliða sína:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, sími og netfang
- kennitala
- upplýsingar um áhugasvið og verkefni sem sjálfboðaliði sinnir
- upplýsingar um mætingu á fundi og aðra viðburði
- upplýsingar sem fram koma í ferilskrá og kynningarbréfi
- upplýsingar um hvar sjálfboðaliði er við störf og á hvaða tíma
- upplýsingar um þjálfun og fræðslu sem sjálfboðaliði hefur sótt á vegum Rauða krossins
Upplýsingum um sjálfboðaliða er aflað frá sjálfboðaliðunum sjálfum eða samstarfsaðila Rauða krossins, s.s. ESC. Upplýsingarnar eru notaðar til að meta hæfni umsækjanda til að sinna viðkomandi sjálfboðastarfi og til að halda utan um þátttöku sjálfboðaliða í starfinu. Byggir slík vinnsla á samningi við sjálfboðaliða. Rauði krossinn kann í einhverjum tilvikum að miðla persónuupplýsingum sjálfboðaliða til þriðja aðila, til að mynda til ESC, Alþjóðlegra ungmennaskipta eða Rannís, eftir því sem við á.
Á fundum og viðburðum sem sjálfboðaliðar sækja kunna að vera teknar ljósmyndir sem birtar eru á vefsíðu Rauða krossins, eftir atvikum á grundvelli lögmætra hagsmuna Rauða krossins eða samþykkis sjálfboðaliða. Meðalhófs er þó ávallt gætt við slíka myndbirtingu.
Skjólstæðingar
Ólíkum persónuupplýsingum er safnað eftir því hvernig aðstoð Rauði krossinn veitir viðkomandi skjólstæðingi.
Aðeins er unnið með þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar hverju sinni, en eftirfarandi eru dæmi um þær persónuupplýsingar sem Rauði krossinn vinnur um nánast alla skjólstæðinga félagsins:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang
- kennitala
- upplýsingar um aðstæður skjólstæðings og þá þjónustu sem veitt er
Í undantekningartilvikum er unnið með eftirfarandi upplýsingar, en eingöngu þegar slík vinnsla er nauðsynleg til að veita skjólstæðingi þá þjónustu sem óskað er eftir:
- upplýsinga um trú, kynhneigð, upprunaland, þjóðerni o.fl.
- upplýsingar um fjölskylduhagi
- upplýsingar um heilsufar
Upplýsingum um skjólstæðinga er ýmist aflað frá einstaklingnum sjálfum, aðstandendum, sveitarfélögum, stjórnvöldum eða öðrum, eftir því sem við á. Upplýsingarnar eru notaðar í þeim tilgangi að veita skjólstæðingum þá aðstoð sem þeir þurfa og byggir vinnsla þeirra ýmist á lagaskyldu, samningi, samþykki, brýnum hagsmunum skjólstæðings eða lögmætum hagsmunum Rauða krossins.
Rauði krossinn kann í einhverjum tilvikum að miðla persónuupplýsingum skjólstæðinga til þriðju aðila sem veita skjólstæðingi þjónustu eða koma að verkefnum á vegum Rauða krossins, s.s. til sveitarfélaga, Útlendingastofnunar eða kirkjunnar. Slík miðlun byggir almennt á samþykki skjólstæðings eða beiðni viðkomandi um þjónustu.
Velunnarar
Um velunnara Rauða krossins, t.d. mannvini og þá sem greiða frjáls framlög til félagsins, eru eftirfarandi persónuupplýsingar unnar:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang
- kennitala
- korta- og greiðsluupplýsingar
Þá kunna myndir af tilteknum velunnurum einnig að vera birtar á vegum Rauða krossins, en slík birting byggir á samþykki viðkomandi velunnara eða forráðamanni hans.
Upplýsingum um velunnara er aflað frá einstaklingnum sjálfum og eru notaðar í þeim tilgangi að hafa samband við velunnara Rauða krossins og senda þeim greiðslukröfur. Byggir sú vinnsla á samningi félagsins við viðkomandi velunnara. Þá er óskað eftir kennitölu velunnara í þeim tilgangi að miðla nauðsynlegum upplýsingum um framlag þeirra til Skattsins, í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga, enda koma slík framlög til frádráttar tekjuskatti.
Í þeim tilfellum sem velunnari er barn og kýs að styrkja Rauða krossinn, t.d. með því að halda tombólu, koma upplýsingar um velunnara frá forráðamönnum og eru upplýsingarnar veittar með samþykki þeirra.
Rauði krossinn kann í einhverjum tilvikum að miðla persónuupplýsingum velunnara til þriðja aðila, til að mynda til banka eða greiðsluhirða.
Fjáröflun
Rauði krossinn kann að hafa samband við einstaklinga í fjáröflunartilgangi, bæði símleiðis og í tölvupósti. Þetta geta bæði verið einstaklingar sem hafa verið í samskiptum við félagið áður, en líka einstaklingar sem skráðir eru á lista sem Rauði krossinn fær frá þriðja aðila sem þjónustar félagið í markaðs- og kynningarmálum. Ávallt er gengið úr skugga um að ekki sé haft samband við aðila sem eru bannmerktir í símaskrá eða Þjóðskrá og að markpóstar séu ekki sendir nema í samræmi við ákvæði fjarskipta- og persónuverndarlaga. Vinnsla þessi byggir á lögmætum viðskiptahagsmunum Rauða krossins.
Námskeið á vegum Rauða krossins
Þegar þú skráir þig á viðburð eða námskeið á vegum Rauða krossins óskum við eftir persónuupplýsingum þínum til að halda utan um skráningu þína og greiðslu, eftir því sem við á. Mismunandi upplýsingum kann að vera aflað eftir því hvers konar viðburð eða námskeið er um að ræða, en almennt er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum, sem eru nauðsynlegar fyrir okkur til að verða við beiðni þinni um þátttöku:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, sími og netfang
- kennitala (vegna útgáfu skírteina og námsárangurs)
- upplýsingar um hvaða námskeið er sótt
- greiðsluupplýsingar
Rauði krossinn safnar og varðveitir eftirfarandi persónuupplýsingar um leiðbeinendur sem leiðbeina á námskeiðum á vegum félagsins:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, sími og netfang
- upplýsingar um leiðbeinendaréttindi
- upplýsingar um kennd námskeið og þátttöku á námskeiðum
Upplýsingarnar eru notaðar til að meta hæfni viðkomandi til að leiðbeina á námskeiði og byggir sú vinnsla á samningi okkar við leiðbeinandann.
Á námskeiðum kunna einnig að vera teknar ljósmyndir sem birtar eru á vefsíðu Rauða krossins, eftir atvikum á grundvelli lögmætra hagsmuna Rauða krossins eða samþykkis. Meðalhófs er þó ávallt gætt við slíka myndbirtingu.
Vefverslun Rauða krossins
Rauði krossinn heldur úti netverslun þar sem hægt er að styðja félagið með kaupum á ýmsum gjöfum til góðra verka, varningi og öðru. Til að geta afgreitt kaup einstaklinga á vörum til styrktar Rauða krossinum vinnur félagið almennt eftirfarandi persónuupplýsingar um viðskiptavini:
- samskiptaupplýsingar, þ.e. nafn, netfang, heimilisfang og sími
- kennitala
- greiðsluupplýsingar
Óskað er eftir netfangi svo hægt sé að senda viðskiptavini rafræna kvittun og heimilisfangi til að senda vöruna til viðskiptavinar. Þá er óskað eftir kennitölu í þeim tilgangi að miðla nauðsynlegum upplýsingum um framlag til Skattsins, í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga, enda koma slík framlög til frádráttar tekjuskatti.
Rauði krossinn notar einnig vefkökur til að bæta upplifun viðskiptavina í netverslun sinni. Þá kann Rauði krossinn að nota tengiliðaupplýsingar til að senda viðskiptavinum sem verslað hafa hjá Rauða krossinum upplýsingar um fræðslu og viðburði á vegum félagsins. Vinnsla þessi byggir á lögmætum viðskiptahagsmunum Rauða krossins, en viðskiptavinir geta ávallt afþakkað slíka tölvupósta með því að smella á tengil sem birtist neðst í viðkomandi pósti.
Sjúkraflutningar
Rauði krossinn safnar og varðveitir ýmsar persónuupplýsingar um einstaklinga sem fluttir eru með sjúkraflutningi, þá sem sinna slíkum flutningi og greiðanda þjónustunnar.
Rauði krossinn kann að vinna eftirfarandi persónuupplýsingar um einstakling sem fluttur er með sjúkraflutningi:
- nafn, kennitala, heimilisfang og ríkisfang
- upplýsingar um að einstaklingur hafi verið fluttur með sjúkraflutningi
- upplýsingar um hvenær flutningur fór fram
- upplýsingar um hvaðan einstaklingur var fluttur og hvert
- upplýsingar um afgreiðslu flutnings
Rauði krossinn kann að vinna eftirfarandi persónuupplýsingar um ætlaðan greiðanda sjúkraflutnings:
- tengiliðaupplýsingar og kennitala
Þá vinnur Rauði krossinn upplýsingar um kallheiti sjúkrabifreiðar og fast númer sjúkrabifreiðar, sem kunna að vera rekjanlegar til þess einstaklings sem sinnti sjúkraflutningi.
Framangreindar upplýsingar eru nauðsynlegar til að sinna sjúkraflutningi og innheimta gjöld fyrir slíka þjónustu í sérstöku kerfi á vegum Neyðarlínunnar ohf. og er þeirra aflað á grundvelli lagaskyldu og á grundvelli þjónustusamnings við Sjúkratryggingar Íslands.
Rauði krossinn kann í einhverjum tilvikum að miðla persónuupplýsingum skráðra aðila til þriðja aðila, til að mynda til innheimtustofnana og greiðsluhirða.
Viðskiptavinir
Rauði krossinn safnar og varðveitir eftirfarandi persónuupplýsingar um viðskiptavini sína og tengiliði sem koma fram fyrir hönd lögaðila sem eru í viðskiptum við Rauða krossinn:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn og netfang
- samskiptasaga
Sért þú einstaklingur í viðskiptum við Rauða krossinn vinnum við einnig upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að geta sent þér greiðslukröfu.
Framangreindar upplýsingar eru nauðsynlegar svo hægt sé að veita viðskiptavinum þá þjónustu sem þeir sækjast eftir hverju sinni. Vinnsla þeirra byggir ýmist á lögmætum hagsmunum Rauða krossins að geta veitt umbeðna þjónustu eða á samningi.
Þá notast Rauði krossinn við myndavélaeftirlit í verslunum félagsins, en slíkt eftirlit er viðhaft í öryggis- og eignavörslutilgangi, og er merkt með tilhlýðilegum hætti. Upplýsingar sem safnast með rafrænu eftirliti eru almennt ekki varðveittar lengur en í 30 daga. Rauða krossinum kann að vera nauðsynlegt að miðla upplýsingum sem safnast með rafrænu eftirliti til lögreglu eða annars þriðja aðila, s.s. tryggingarfélags, til að gera kröfu eða verjast kröfu s.s. í tilviki þjófnaðar eða ef slys verður.
Verktakar og birgjar
Rauði krossinn safnar og varðveitir persónuupplýsingar verktaka sem ráðnir eru til að sinna ákveðnum verkefnum sem og birgja félagsins.
Rauði krossinn vinnur eftirfarandi upplýsingar um verktaka sem sinna verkefnum fyrir félagið og byggir sú vinnsla á samningi okkar við viðkomandi verktaka:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, netfang og sími
- samskiptasaga
- kennitala
- bankaupplýsingar
Sért þú tengiliður fyrir birgja kunna eftirfarandi upplýsingar að vera unnar um þig á grundvelli lögmætra hagsmuna Rauða krossins:
- samskiptaupplýsingar tengiliðar, svo sem nafn og netfang
- samskiptasaga
Stjórn og nefndir
Rauði krossinn vinnur eftirfarandi persónuupplýsingar um einstaklinga sem sitja í stjórn félagsins og/eða nefndum á vegum þess:
- samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, heimilisfang, netfang og símanúmer
- kennitala
- upplýsingar um menntun og hæfi
Upplýsingarnar eru notaðar til að skipa í stjórn og nefndir í samræmi við lög og byggir vinnsla þeirra annars vegar á lögum og hins vegar á samningi um nefndarsetu.
Uppruni upplýsinga og varðveislutími
Persónuupplýsingar sem Rauði Krossinn vinnur koma að meginstefnu til beint frá þeim einstaklingi sem upplýsingarnar varða, nema annað sé tekið fram.
Rauði krossinn varðveitir persónuupplýsingar eins lengi og þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar, nema annað sé heimilt eða skylt samkvæmt lögum.
Rauði krossinn áskilur sér að auki rétt til að útbúa ópersónugreinanlegar tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar upplýsingar sem án alls vafa eru ópersónugreinanlegar og nota þær í starfi félagsins, til dæmis fyrir ársskýrslu félagsins, fréttabréf og á fundum á vegum Rauða krossins.
Miðlun persónuupplýsinga til þriðju aðila
Rauði krossinn kann að miðla persónuupplýsingum til þriðja aðila, svo sem í tengslum við samningssamband þriðja aðila við félagið eða vegna innheimtu.
Til viðbótar við þá þriðju aðila sem tilgreindir eru ofar í stefnunni kunna persónuupplýsingar jafnframt að vera afhentar þriðja aðila sem veitir Rauða krossinum upplýsingatækni- og fjarskiptaþjónustu eða aðra þjónustu sem tengist vinnslu og er hluti af rekstri félagsins. Miðlun persónuupplýsinga til slíkra aðila er byggð á lögmætum hagsmunum Rauða krossins af því að úthýsa tilteknum verkefnum til utanaðkomandi aðila.
Þriðju aðilar sem veita okkur þjónustu samkvæmt framansögðu gætu verið staðsettir utan Íslands. Rauði krossinn mun þó ekki miðla persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála, samþykkis einstaklinga eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.
Að lokum gætu persónuupplýsingar um þig verið afhentar að því marki sem heimilað er eða krafist er á grundvelli viðeigandi laga eða reglna. Einnig kann persónuupplýsingum þínum að vera miðlað til þriðja aðila til að bregðast við löglegum aðgerðum eins og húsleitum, stefnum eða dómsúrskurði.
Hvernig er öryggi persónuupplýsinga tryggt?
Rauði krossinn á Íslandi leitast við að grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar, með sértöku tilliti til eðlis þeirra. Dæmi um slíkar öryggisráðstafanir eru aðgangsstýringar að kerfum og öðrum geymslustöðum þar sem persónuupplýsingar eru vistaðar. Þessum ráðstöfunum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, afritun, notkun eða miðlun þeirra.
Réttindi þín varðandi þær upplýsingar sem Rauði krossinn vinnur
Persónuverndarlög tryggja einstaklingum ákveðin réttindi yfir persónuupplýsingum sínum. Þannig geta einstaklingar t.d. óskað eftir aðgangi að persónuupplýsingum sínum eða að þeim sé eytt. Rauði krossinn leitast við að tryggja að réttindi hins skráða séu tryggð hjá félaginu. Tekið skal fram að réttindi þín á grundvelli persónuverndarlaga eru ekki fortakslaus. Þannig kunna lög t.a.m. að skylda Rauða krossinn til að hafna ósk um eyðingu eða aðgang að gögnum. Þá getur félagið hafnað beiðni þinni vegna réttinda félagsins eða réttinda annarra aðila, s.s. til friðhelgi einkalífs, telji félagið þau réttindi vega þyngra.
Ef upp koma aðstæður þar sem að við getum ekki orðið við beiðni þinni munum við leitast við að útskýra hvers vegna beiðninni hefur verið hafnað, þó með tilliti til takmarkana á grundvelli lagaskyldu.
- Réttur til leiðréttingar: Það er mikilvægt að þær persónuupplýsingar sem Rauði krossinn vinnur með séu bæði réttar og viðeigandi. Því er mikilvægt að okkur sé tilkynnt um allar breytingar sem kunna að verða á persónuupplýsingum þínum.
- Þú átt rétt á því að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar um þig leiðréttar. Að teknu tilliti til tilgangs vinnslu persónuupplýsinga átt þú jafnframt rétt á að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar um þig, þ.m.t. með því að leggja fram frekari upplýsingar.
- Réttur til aðgangs: Þú átt rétt á að fá staðfest hvort við vinnum persónuupplýsingar um þig eða ekki, og ef svo er getur þú óskað eftir aðgangi að upplýsingunum og hvernig vinnslunni er hagað. Þá kann einnig að vera að þú hafir rétt á að fá afrit af upplýsingunum.
- Réttur til gagnaflutnings: Við ákveðnar aðstæður getur þú farið fram á það við Rauða krossinn að við sendum upplýsingar, sem þú hefur sjálf/ur látið okkur í té eða stafa frá þér, beint til þín eða þriðja aðila. Þessi réttur á þó eingöngu við þegar vinnslan á viðkomandi persónuupplýsingum byggir annað hvort á samþykki þínu eða samningi þínum við Rauða krossinn.
- Réttur til eyðingar: Við ákveðnar aðstæður getur þú óskað eftir því að persónuupplýsingum um þig verði eytt án tafar, til að mynda þegar að varðveisla upplýsinganna er ekki lengur nauðsynleg miðað við tilgang vinnslunnar eða vegna þess að þú hefur afturkallað samþykki þitt fyrir vinnslu persónuupplýsinganna og engin önnur heimild liggur til grundvallar henni.
- Réttur til að afturkalla samþykki fyrir vinnslu: Sé vinnsla á persónuupplýsingum þínum byggð á samþykki er þér hvenær sem er heimilt að afturkalla samþykki þitt.
- Réttur til takmörkunar á vinnslu: Viljir þú ekki láta eyða upplýsingum þínum, t.d. vegna þess að þú þarft á þeim að halda til að verjast kröfu, en vilt samt sem áður að þær séu ekki unnar frekar af hálfu Rauða krossins getur þú óskað eftir því að vinnsla þeirra verði takmörkuð.
- Réttur til að andmæla vinnslu: Sé vinnsla á persónuupplýsingum þínum byggð á lögmætum hagsmunum Rauða krossins átt þú rétt á að mótmæla þeirri vinnslu.
Fyrirspurnir og beiðnir
Viljir þú nýta réttindi þín á grundvelli persónuverndarlaga sem lýst er hér að ofan eða ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi persónuverndarstefnuna eða það hvernig við vinnum með persónuupplýsingar þínar getur þú haft samband við persónuverndarfulltrúa Rauða krossins. Persónuverndarfulltrúinn mun leitast við að svara fyrirspurnum og leiðbeina þér varðandi réttindi þín samkvæmt persónuverndarstefnu þessari.
Rauði krossinn mun almennt ekki taka gjald fyrir við afgreiðslu beiðna sem berast frá einstaklingum. Rauði krossinn áskilur sér hins vegar rétt til að gjaldfæra fyrir beiðnir sem teljast augljóslega tilefnislausar, endurteknar og/eða óhóflegar. Auk þess kann Rauða krossinum að vera heimilt að neita að verða við beiðni í framangreindum tilfellum.
Rauði krossinn kann að hafa samband við einstaklinga og óska eftir frekari upplýsingum í tengslum við fyrirspurnir og beiðnir, ef það er talið nauðsynlegt. Rauði krossinn mun varðveita beiðni þína, allar upplýsingar tengdar beiðninni sem og samskipti í tengslum við beiðnina í 4 ár frá afgreiðslu hennar.
Persónuverndarfulltrúi Rauða krossins
Rauði krossinn hefur tilnefnt persónuverndarfulltrúa. Persónuverndarfulltrúi tekur á móti fyrirspurnum og beiðnum frá þeim einstaklingum sem Rauði krossinn vinnur með upplýsingar um, auk þess að ráðleggja Rauða krossinum um vinnslu persónuupplýsinga og gegna því hlutverki að vera tengiliður við Persónuvernd.
Allar fyrirspurnir vegna persónuverndar skulu berast persónuverndarfulltrúa á netfangið personuvernd@redcross.is.
Réttur til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd
Ef þú ert ekki sátt/sáttur við meðferð Rauða krossins á persónuupplýsingum þínum getur þú ávallt sent kvörtun á Persónuvernd.
Upplýsingar um Persónuvernd má finna á www.personuvernd.is.
Breytingar á stefnu þessari
Rauði krossinn getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndarstefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar.
Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt á heimasíðu félagsins.
Persónuverndarstefna þessi var uppfærð þann 30. júní 2023.
Ef þú vilt vita meira um vafrakökur getur þú kynnt þér vafrakökustefnu Rauða krossins hér.