Genfarsamningar
Fyrsti Genfarsamningurinn markar upphaf reglna um alþjóðlegan mannúðarrétt eins og við þekkjum hann í dag. Með samningnum var í fyrsta sinn gerður alþjóðasamningur þar sem sett var fram sú einfalda og ótvíræða regla að þeir sem taka þátt í styrjöld verði að hjálpa öllum særðum hermönnum - líka andstæðingum sínum. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar eiga að vernda almenn mannréttindi og frelsi borgaranna. Jafnframt vernda þeir pólitísk og félagsleg réttindi þeirra. Einnig hafa verið gerðir alþjóðlegir samningar sem eiga að takmarka þau vopn sem leyfilegt er að nota í styrjöldum. Þessir síðarnefndu samningar um takmörkun vígbúnaðar eru í þágu mannréttinda þó að þeir séu ekki eiginlegir mannréttindasamningar.
Genfarsamningarnir eiga að tryggja mönnum lágmarks mannréttindi á ófriðartímum. Þeim er sérstaklega ætlað að vernda réttindi þeirra sem ekki taka þátt í átökunum - óbreyttra borgara, hermanna sem hafa særst eða gefist upp og einnig lækna og hjúkrunarfólks sem sinnir líknarstarfi á átakasvæðum. Samkvæmt samningunum mega hermenn ekki ráðast á þá sem hér voru nefndir eða beita þá andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Alls eru Genfarsamningarnir fjórir talsins. Hinn fyrsti var samþykktur árið 1864 og veitir þeim vernd sem taka ekki lengur þátt í vopnuðum átökum. Aðildarríkin skuldbinda sig til að vernda sjúka og særða hermenn og veita þeim aðhlynningu. Bannað er að lífláta andstæðing sem hefur gefist upp.
Annar samningurinn er frá 1899. Samkvæmt honum skulu skipbrotsmenn sem falla í hendur andstæðinga teljast stríðsfangar og njóta sömu verndar. Deiluaðilar eiga að leita að skipbrotsmönnum og veita þeim aðstoð.
Þeir hermenn sem lagt hafa niður vopn eða verið teknir til fanga eiga rétt á vernd og mannúðlegri meðferð samkvæmt þriðja samningnum sem er frá árinu 1929. Stríðsfangar eru einungis skyldugir til að skýra frá nafni, stöðu í her, fæðingardegi og skráningarnúmeri. Þeir eiga rétt á mat, fatnaði og læknisþjónustu. Þeir eiga að geta haft samband við fjölskyldur sínar og eiga að njóta verndar gegn hvers kyns kúgun. Fjórði og síðasti samningurinn var samþykktur árið 1949 þegar allir fyrri samningarnir voru teknir til endurskoðunar. Þessi samningur verndar almenning gagnvart hörmungum stríðsins. Óbreyttir borgarar sem teknir eru til fanga eiga að njóta sérstakrar verndar gegn hvers konar kúgun og ofbeldi. Þeir eiga að fá að hafa samband við ættingja sína. Enginn á að svara til saka fyrir það sem hann hefur ekki gert. Engan má pynda.
Vaxandi innanlandsófriður í mörgum ríkjum heims dró fram í dagsljósið að nauðsynlegt væri að samningarnir næðu líka til innanlandsátaka. Árið 1977 voru því gerðar viðbótarsamþykktir við Genfarsamningana sem gilda einkum um borgarastyrjaldir og innanlandsófrið. Fyrri viðbótarsamþykktin bætir réttarstöðu óbreyttra borgara, meðal annars með því að bann er lagt við því að eyðileggja opinber mannvirki sem ekki hafa hernaðarlegt gildi.
Seinni viðbótarsamþykktin áréttar að sú vernd sem almennt gildir í átökum milli landa gildir einnig í innanlandsófriði.
Grundvallaratriðin
Lykilorðin í sáttmálunum eru „virðing" og „vernd" gagnvart þeim sem ekki taka beinan þátt í stríðsátökum. Virðing merkir að hvorki megi gera mönnum miska, ógna þeim né taka líf þeirra og alltaf beri að koma réttlátlega fram við þá og virða sem manneskju. Vernd þýðir að hlífa mönnum fyrir hættu eða þjáningum sem gætu ógnað þeim og að koma þeim til verndar, hjálpar og stuðnings.
Grundvallaratriði Genfarsáttmálanna, sem aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að fylgja, eru þessi:
Allir sem hafa lagt niður vopn eiga rétt á vernd:
Annað er að ráðast á andstæðing sem hefur gefist upp. Særðir og sjúkir eiga að njóta verndar og fá umönnun án tillits til hvaða deiluaðila þeir fylgja að málum. Skylt er að leita að særðum hermönnum á vígvellinum, safna þeim saman og koma til hjálpar.
Þeir sem ekki taka þátt í vopnuðum átökum eiga rétt á vernd
Að sjálfsögðu er bannað að taka óbreytta borgara af lífi. Það er heldur ekki leyfilegt að beita þá ofbeldi eða niðurlægja þá. Sáttmálarnir segja einmitt að vernda beri alla þá sem eru vopnlausir og að þeim beri að sýna mannúð. Hersveitir verða alltaf að gera greinarmun á óbreyttum borgurum og hermönnum. Þess vegna eiga hersveitir að vera auðkenndar, til dæmis með því að klæðast einkennisbúningi.
Fangar njóta verndar
Allir stríðsfangar njóta verndar. Þá má ekki beita andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Pyndingar eru að sjálfsögðu bannaðar undir öllum kringumstæðum. Fanga má ekki beita líkamlegum refsingum né niðurlægja þá á annan hátt. Ef stríðsfangar eru sakaðir um brot á að dæma í máli þeirra við réttarhöld.
Stríðsfangar eiga rétt á að skiptast á bréfum við fjölskyldu sína og þeir mega fá sendingar frá öðru fólki. Það sama á við um óbreytta borgara sem hafðir eru í haldi af andstæðingnum.
Þeir sem hjálpa njóta verndar
Læknar og hjúkrunarfræðingar og aðrir þeir sem hjálpa fórnarlömbum stríðsins verða að geta unnið starf sitt. Ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað. Rauður kross eða rauður hálfmáni á hvítum grunni eru tákn fyrir þá vernd sem fólk, tæki og byggingar njóta sem eru til hjálpar fórnarlömbunum. Einkennistákn Rauða krossins og Rauða hálfmánans má ekki misnota.
Ekki má ráðast á eignir óbreyttra borgara
Hersveitir mega ekki ráðast á eigur almennings heldur einungis þá hluti og byggingar sem hafa hernaðarlega þýðingu. Ef vafi leikur á því hvort mannvirki sé í þágu hernaðar eða almennings á að líta svo að það sé í almenningsþágu.
Ekki má valda þarflausri eyðileggingu eða þjáningum
Bannað er að beita vopnum eða hernaðaraðferðum sem hafa í för með sér þarflausa eyðileggingu eða þjáningar. Mannvirki og eignir sem eru nauðsynlegar til matvælaframleiðslu njóta sérstakrar verndar. Menningarverðmæti njóta einnig verndar, ekki má eyðileggja þjóðminjar, listaverk eða sögulega staði.