Stefnur og lög
Traust og ábyrgð eru grundvöllur alls mannúðarstarfs og starf Rauða krossins á Íslandi byggir á trausti -samfélagsins og einstaklinganna sem við þjónustum, bakhjarlanna og samstarfsaðilanna, og innan félags- svo hægt sé að sinna þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem koma upp.
Til hliðar er að finna helstu stefnur, lög og regluverk er gilda um starfsemi Rauða krossins á Íslandi. Rauði krossinn fylgir einnig regluverkum alþjóðasambandsins og heitum sem lesa má hér.
Við erum fyrst og fremst ábyrg gagnvart:
- Samfélögunum og einstaklingunum sem við þjónustum
- Sjálfboðaliðum og starfsfólki
- Bakhjörlum og Mannvinum
Fagviðmið um gæði og ábyrgð í mannúðarstarfi
Hverju máttu búast við af félaginu þegar þú þiggur þjónustu?
Rauði krossinn á Íslandi starfar eftir níu fagviðmiðum um gæði og ábyrgð í mannúðarstarfi sem hafa verið þýdd og staðfærð frá CHS Alliance og heita á frummálinu Core Humanitarian Standards. Við heitum því að starfa eftir níu almennum viðmiðum þegar við vinnum með samfélögum og bregðumst við neyðarástandi. Hér er að finna útskýringu á þeim viðmiðum á einföldu máli, svo þú vitir hverju þú átt von á. Neyðarástandi fylgja einnig áskoranir fyrir okkur. Þrátt fyrir að við reynum ávallt að fylgja viðmiðunum gætu komið upp aðstæður þar sem það er ekki hægt. En við viljum læra og bæta okkur og þú getur hjálpað okkur að gera einmitt það með því að koma með athugasemdir og ábendingar.
En hvað þýðir það?
Þetta þýðir að við munum gera okkar besta til þess að:
- Skilja þarfir þínar og mæta þér þar sem þú ert.
- Veita þér stuðning þegar þú þarft á honum að halda.
- Veita þér stuðning sem gerir þér kleift að ná þér á strik og bregðast við álíka neyðaraðstæðum framtíðinni. Þjónusta okkar ætti ekki að valda þér skaða.
- Upplýsa þig um stuðninginn sem við bjóðum upp á og hvernig viðmóti þú átt að mæta. Við munum gera okkar besta til að þú fáir að segja þína skoðun um þjónustuna sem þér stendur til boða.
- Tryggja að þú getir tilkynnt vandamál ef þú ert ósátt/ur með þjónustuna sem þú hefur fengið eða viðmót af hálfu starfsfólks eða sjálfboðaliða. Þú átt ekki að verða fyrir skaða þó þú leggir inn kvörtun. Við munum grípa til aðgerða til að bregðast við kvörtunum.
- Vinna með öðrum stofnunum sem sinna sömu þjónustu. Við reynum að samnýta krafta okkar þekkingu og bjargir til þess að mæta þörfum þínum.
- Læra af reynslunni svo að við getum bætt þjónustu okkar í þinn garð.
- Tryggja að fólkið sem starfar hjá okkur hafi hæfnina og reynsluna til að styðja við þig.
- Stýra björgum okkar á skynsamlegan hátt og lágmarka sóun á björgum sem við notum til að styðja við fólk í hamförum