Innanlandsstarf
Yfir 33 milljónir til Grindvíkinga
16. febrúar 2024
Nú hefur yfir 33 milljónum króna verið úthlutað til Grindvíkinga úr neyðarsöfnun Rauða krossins. Alls hafa yfir 45 milljónir safnast og úthlutun er enn í fullum gangi.
Úthlutunarnefnd hefur nú úthlutað samtals 33.006.230 krónum í fjárhagsaðstoð til Grindvíkinga, en þetta fé kemur úr neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi. Alls hafa safnast yfir 45 milljónir króna og úthlutun heldur áfram þar til öllu fé úr söfnuninni hefur verið komið í hendur Grindvíkinga í vanda.
Samtals hafa 350 úthlutanir farið fram til 958 einstaklinga. Úthlutunarnefnd samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík.
Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð í Þjónustumiðstöðinni fyrir Grindvíkinga í Tollhúsinu á Tryggvagötu 19 í Reykjavík og á Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ.
Neyðarsöfnun Rauða krossins er enn í fullum gangi og hér má finna upplýsingar um hvernig má styðja hana. Krónan hefur stutt söfnunina með því að bjóða viðskiptavinum sínum að leggja henni lið þegar þeir borga fyrir vörur sínar og það verður áfram í boði alla helgina.
Neyðarsöfnun Rauða krossins hefur gengið afar vel og fengið mikinn stuðning þjóðarinnar, en auk þess hefur fjöldi erlendra aðila lagt henni lið. Þar á meðal Rauði krossinn í Færeyjum, sem safnaði 10 milljónum króna sem runnu til söfnunarinnar.
Kostnaður við kynningu söfnunarinnar og úthlutun er innan við 1% af upphæðinni sem hefur safnast, svo yfir 99% af hverju framlagi fer beint í vasa Grindvíkinga í fjárhagsvanda.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.