Innanlandsstarf

Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta 

03. september 2024

Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum. 

Frá málþinginu sem haldið var á fimmtudag í Norræna húsinu. Myndir/Laufey

Rauði krossinn á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa héldu málþing í Norræna húsinu á fimmtudag  um börn á flótta og stuðning þeirra í íslensku skólakerfi. Málþingið var vel sótt og var einnig aðgengilegt í gegnum streymi, en það var haldið í tilefni af útkoma fræðsluefnis um börn á flótta sem þessir aðilar unnu í samstarfi við Kennarasamband Íslands, með styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu. 

Markmið fræðsluefnisins er að bæta skilning á lífi barna á flótta og kanna hvað kennarar geta gert til þess að styðja við nám og vellíðan þeirra. Þar er meðal annars fjallað um helstu hugtök sem tengjast börnum á flótta, réttindi þeirra, áföll, algeng viðbrögð við áföllum og ný lög um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Fræðsluefnið er aðgengilegt á vefsíðu BOFS skólans. 

Menntakerfið olli svipuðum áföllum og átök 

Á málþinginu flutti Fida Abu Libdeh, framkvæmdarstjóra GeoSilica, erindi þar sem hún fór yfir reynslu sína af íslensku menntakerfi, en hún kom til Íslands frá Palestínu 16 ára gömul. Hún sagði að móttakan skipti sköpum fyrir líf barna og ef þeim er ekki tekið opnum örmum þá geti það valdið frekari áföllum í lífi þeirra. Hún sagði að upplifun sín af íslenska menntakerfinu hafi valdið svipuðum áföllum fyrir hana eins og átökin í Palestínu. Hún upplifði sig einangraða og utanveltu og skorti stuðning, sérstaklega í framhaldsskóla, en það tók hana hátt í tíu ár að ljúka framhaldsskólanámi. 

Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Saga Stephensen, verkefnastjórar fjölmenningar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, sögðu svo frá skóla- og fjölskyldumiðstöð, nýju verkefni Reykjavíkurborgar sem sett var á laggarnar árið 2022. Verkefnið miðar að því að skapa ljúfa og örugga byrjun fyrir barnafjölskyldur í nýju samfélagi, en það fór af stað eftir að stór hópur úkraínskra fjölskyldna kom til landsins og hefur líka nýst hópi palestínskra fjölskyldna sem komu til Íslands með fjölskyldusameiningum.  

Mikill árangur en margt eftir 

Í pallborðumræðum í lok Málþingsins kom meðal annars fram að þó að margt hafi áunnist í þessum efnum á síðustu árum séu enn margar áskoranir eftir. Enn virðist vera mismunum í kerfinu milli barna sem hafa íslenska kennitölu og þeirra sem hafa hana ekki og sérstaklega þarf að huga að þeim hópi sem hefur náð 18 ára aldri en þarf enn stuðning til þess að klára sitt framhaldsskólanám. 

Alda Áskelsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, minnti líka á mikilvægi þess að við byggjum traust og setjum okkur inn í hugarheim barnanna til að skilja hegðun þeirra. Hún sagði frá dreng sem hún kenndi sem flýði alltaf í undirgöng í  frímínútum því hann óttaðist sprengjuregn undir berum himni. 

Alda benti einnig á gagnlegan vef þar sem finna má verkfæri fyrir kennara og nálgast má hér.   

En það hefur líka náðst góður árangur. Í Tækniskólanum eru til dæmis kennitölulaus börn jafn velkomin og önnur, skólinn hefur þróað íslenskubraut og móttöku fyrir börn af erlendum uppruna sem aðrir framhaldsskólar eru að skoða að taka upp og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er að þróa heimasíðu fyrir kennara um börn með rofna skólagöngu. 

Hér má finna upptöku af málþinginu