Innanlandsstarf
Vanlíðan spyr ekki hvað klukkan sé
25. mars 2025
Brýnt er að renna fleiri stoðum undir rekstur Hjálparsímans 1717 svo halda megi þeirri lífsbjargandi þjónustu sem þar er veitt áfram allan sólarhringinn – allt árið um kring.
„Samtölin eru að þyngjast og fleiri þeirra taka lengri tíma en áður,“ segir Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsímans 1717 sem Rauði krossinn rekur. Hjá 1717, bæði í síma og í gegnum netspjall, bjóða sjálfboðaliðar og starfsfólk öllum þeim sem hafa samband virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði – allan sólarhringinn.
„Þetta er í raun hluti af geðheilbrigðisþjónustu landsins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, teymisstjóri geðheilbrigðis og sálfræðilegs stuðnings hjá Rauða krossinum, um mikilvægi Hjálparsímans. Það hafi sýnt sig svo ekki verði um villst að sá mikilvægi stuðningur sem 1717 veitir létti verulega á öðrum stöðum innan kerfisins.
Haft er samband út af öllu mögulegu, m.a. vegna kvíða, vanlíðunar, einmanaleika, ofbeldis og samskiptaörðugleika. „Fólk á öllum aldri hefur samband, allt frá níu ára upp í hundrað ára,“ segir Sandra. „Þegar síminn hringir eða netspjall opnast er aldrei að vita hvert erindið er.“ En þau sem standi vaktirnar séu flest þrautreynd og fljót að átta sig á eðlinu. Alvarleikanum. „Mörgu því fólki sem hefur samband líður virkilega illa. Það veit ekki endilega af hverju og það þarf tíma til að ræða sín mál,“ útskýrir Elfa. „Og það er einmitt okkar helsta hlutverk, að vera til staðar fyrir fólk á erfiðum stundum í lífi þess. Jafnvel á þeim allra erfiðustu.“

Hanna Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Hjálparsímanum, segir mjög mikilvægt að þegar fólki líður sem verst geti það sótt sér ráðgjöf og aðstoð undir nafnleynd og án þess að þurfa að panta tíma eða skrá sig sérstaklega. „Að fjarlægja þann þröskuld skiptir sköpum,“ segir hún. „Það verður til þess að margt fólk leitar sér hjálpar fyrr en ella.“ Fólk treysti 1717 og sé þakklátt fyrir þá aðstoð sem það fái og það viðmót sem því sé sýnt.
Fleiri alvarleg samtöl
Um 20 þúsund samtöl bárust til 1717 árið 2024. Þar af voru sjálfsvígssamtöl 1.036. Í 154 tilvikum var haft samband við Neyðarlínuna og óskað eftir sjúkrabíl vegna alvarleika slíkra samtala.
Það sem af er ári eru sjálfsvígssamtölin orðin um 350. Á fyrstu þremur vikum marsmánaðar höfðu sjálfboðaliðar og starfsmenn 1717 að minnsta kosti tuttugu sinnum samband við Neyðarlínuna vegna sjálfsvígssamtala. Þá er staðan metin þannig að viðkomandi sé í bráðri hættu. „Þetta er óvenjulega mikið,“ segir Hanna. Samtöl sem þessi geti staðið í langan tíma, oft í klukkutíma eða meira. Tölur um fjölda samtala milli ára segja því ekki alla söguna um það aukna álag sem er hjá Hjálparsímanum. Þetta vaxandi álag krefst orðið fleiri bakvakta og aukinnar þjálfunar og fræðslu til sjálfboðaliða.
Tveir starfsmenn eru í fullu starfi hjá 1717 og átta í hlutastarfi. Um sjötíu sérþjálfaðir sjálfboðaliðar taka einnig vaktir, oftast um tvær í mánuði. Nauðsynlegt er að fjölga í þeim hópi. „Ef vel ætti að vera þyrftum við um þrjátíu sjálfboðaliða til viðbótar,“ segir Elfa. Næsta námskeið fyrir áhugasama verður í vor og vonast Elfa eftir góðri þátttöku.
En hvað þarf sjálfboðaliði hjá Hjálparsímanum 1717 að hafa til að bera?
Fyrst ber að nefna að sjálfboðaliðar þurfa að vera orðnir 23 ára. Þær segja mikilvægt að sjálfboðaliðahópurinn sé fjölbreyttur, með ýmsan bakgrunn, hvort sem kemur að menntun eða starfi. „Númer eitt, tvö og þrjú er að vera góður hlustandi,“ segir Elfa og Sandra bætir við: „Já, og þolinmæði. Fólk þarf að eiga nóg af henni.“

Ákveðinnar tölvukunnáttu er einnig krafist og eiginleikar á borð við samskiptahæfni eru sömuleiðis lykilatriði. „Starfið snýst um að vera til staðar fyrir fólk og setja sjálfan sig til hliðar á meðan,“ heldur Elfa áfram. Álag og óvissa sem óneitanlega fylgi því að svara samtölum hjá 1717 henti ekki öllum.
Nemar í ákveðnum greinum í háskólunum, m.a. í félagsráðgjöf, sálfræði og hjúkrunarfræði, geta fengið sjálfboðaliðastarf hjá 1717 metið til eininga. Þeir líkt og aðrir sjálfboðaliðar skuldbinda sig til að taka ákveðinn fjölda vakta yfir ákveðið tímabil.
Og af hverju vill fólk gerast sjálfboðaliðar hjá 1717?
„Það er þroskandi. Gefandi. Er einhvers konar gluggi út í samfélagið,“ segir Elfa. „Fólkið hjá 1717 hlustar á öll, hvert svo sem erindið er. Þetta eru oft náin samskipti þar sem sýna þarf fordómaleysi og hafa gildi Rauða krossins um mannúð og hlutleysi ávallt í huga.“

Þegar Sandra, Elfa og Hanna líta um öxl eru þær allar sammála um að þörfin fyrir 1717 hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum. Aukinn fjöldi alvarlegra, erfiðra og þungra samtala sé til marks um það.
En af hverju telja þær álagið á 1717 sérstaklega mikið núna?
„Því er erfitt og jafnvel ómögulegt að svara,“ segir Sandra. „Við vitum að ákveðinn árstími er viðkvæmari en aðrir og sömuleiðis að þegar alvarlegir atburðir verða í samfélaginu að þá á álagið á 1717 það til að aukast.“ Oft sé hins vegar alls ekki hægt að benda á eitthvað sérstakt, hvorki árstíma né atburði. Þá geti skerðing á þjónustu annars staðar haft áhrif.
Rekstur 1717 kostaði um 70 milljónir í fyrra og verður að minnsta kosti jafnmikill í ár. Styrkir sem fengust frá félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti nema um 10 prósentum af heildarkostnaðinum. Framlög Mannvina Rauða krossins, hinna dýrmætu styrktaraðila verkefna félagsins, skipta svo sköpum í því að halda þjónustu Hjálparsímans úti.
En betur má ef duga skal. Þar sem samtölin eru að þyngjast og álag á þjónustuna samhliða að aukast standa þær fjárhagslegu stoðir sem hingað til hefur verið treyst á ekki lengur undir rekstrinum. Tugi milljóna vantar nú til að rétta af yfirvofandi hallarekstur 1717. Og ef ekki næst að brúa bilið gæti þurft að grípa til þess ráðs að draga úr þjónustu, jafnvel á nóttunni. Elfa, Sandra og Hanna mega vart til þess hugsa. Á nóttunni standi fólki í vanda og vanlíðan fá önnur úrræði til boða. „Það myndi ekki aðeins valda auknu álagi á aðra sem sinna geðheilbrigðisþjónustu og sálrænum stuðningi heldur fyrst og fremst koma niður á þeim sem þurfa á okkar þjónustu að halda,“ segir Elfa. „Vanlíðan spyr ekki hvað klukkan sé.“
Bjargar 1717 mannslífum?
„Já,“ svara þær í einum kór. Um það séu mörg dæmi. „Það er alveg á hreinu að fólkið sem svarar hjá 1717 bjargar mannslífum,“ segir Elfa. „Það hlustar án þess að dæma, sýnir skilning og vekur von. Því það er alltaf von.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 29. mars 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
Almennar fréttir 28. mars 2025Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.

Efla seiglu með fræðslu og stuðningi
Innanlandsstarf 28. mars 2025Styrkur frá Rio Tinto hefur gert Rauða krossinum kleift að veita Grindvíkingum margvíslegan félagslegan stuðning á erfiðum tímum. Áfram verður haldið að styðja við þá og aðra íbúa á Suðurnesjum.