Innanlandsstarf

Styrktu sjálfstraust og sjálfsmynd ungmenna á Akureyri

09. nóvember 2023

Rauði krossinn við Eyjafjörð hélt nýverið sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir ungmenni með erlendan bakgrunn. Að námskeiðinu loknu var sjáanlegur munur á sjálfstrausti og samskiptum ungmennanna. 

Reiðtúr var eitt af því sem ungmennin völdu að hafa sem hluta af námskeiðinu.

Námskeiðið, sem gekk undir heitinu Seigla, var ætlað ungmennum með erlendan bakgrunn á aldrinum 16-25 ára og  fór fram á fjögurra vikna tímabili í haust. Þar var boðið upp á ýmis konar virkni og vinnustofur sem ætlað var að efla félagshæfni og samskiptafærni ungmennanna í vernduðu og hvetjandi umhverfi.  Markmiðið var að auka sjálfstraust og bæta sjálfsmynd þátttakenda, sem myndi stuðla að auknum tækifærum til inngildingar í íslenskt samfélag. 

Kveikjan að verkefninu voru áhyggjur af því að rannsóknir benda til að þessi þjóðfélagshópur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu og eigi á hættu að vera bæði án atvinnu og utan skóla, sem eykur hættuna á jaðarsetningu og fækkar tækifærum til þátttöku í samfélaginu. 

Þróað í samstarfi við ungmennin 

Námskeiðið stóð öllum ungmennum með erlendan bakgrunn til boða, en lögð var sérstök áhersla á að hvetja ungmenni með flóttabakgrunn til að taka þátt. Þróun námskeiðsins fór einnig fram í samstarfi við þessi ungmenni, en haldinn var undirbúningsfundur með þeim þar sem rætt var um þá virkni og afþreyingu sem var í boði á Norðurlandi. Þau völdu svo það sem þau vildu að væri hluti af námskeiðinu. Reiðtúr, paintball, zipline, skautar og fjallahjólaferð urðu fyrir valinu og það gekk vel að verða við þessum óskum, en fjallahjólaferð varð ekki að raunveruleika svo gokart-kappakstur kom í staðinn. 

Samið var við Dale Carnegie um að aðlaga námskeið sem nefnist „Lyklar að lífinu“ að þessum hópi, og hélt þjálfari á þeirra vegum vinnustofur með þátttakendum. Sóley Ómarsdóttir, sérfræðingur í sálfélagslegum stuðningi hjá Rauða krossinum, hélt einnig vinnustofu fyrir ungmennin og Miriam Petra Ómarsdóttir Awar, sérfræðingur hjá Rannís, ræddi við hópinn um sína vegferð, þá tilfinningu að upplifa sig utangarðs og hvað fælist í því að vera Íslendingur og tilheyra samfélaginu. 

Vinnustofur námskeiðsins voru vel heppnaðar. Ungmennin tóku virkan þátt, voru áhugasöm og sögðust hafa gagn af því sem þau voru að læra. 

Gekk vel og þörfin er skýr 

Námskeiðið gekk vel og greinilega mátti sjá mun á sjálfstrausti ungmennanna og samskiptum þeirra innbyrðis að því loknu. Verkefnið hefur styrkt þá trú að mikilvægt sé að huga sérstaklega að ungmennum með erlendan bakgrunn á Eyjafjarðarsvæðinu. Vísbendingar eru um að þessi hópur sé svolítið út af fyrir sig og njóti ekki sama aðgengis að samfélaginu og jafnaldrar af íslenskum uppruna.  

Vonandi verður þetta verkefni stökkpallur fyrir frekari þátttöku og inngildingu þessara ungmenna í félagsstarf á svæðinu. Rauða krossinn hefur mikinn áhuga á að vinna áfram að því markmiði.