Innanlandsstarf
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
07. apríl 2025
Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.
Kraftur höfuðborgardeildar Rauða krossins liggur í fjölbreyttum hópi sjálfboðaliða sem báru líkt og áður hitann og þungann af starfi deildarinnar á síðasta ári. Sjálfboðaliðar starfa í öllum verkefnum deildarinnar, alla daga ársins, allt árið um kring. Verkefnin eru ólík og innan verkefnanna finnast fjölbreytt hlutverk fyrir þá sem vilja gefa tíma sinn til góðra verka. Um 630 sjálfboðaliðar sinna verkefnum hjá höfuðborgardeildinni. Um 90 þeirra taka vaktir í Frú Ragnheiði og um 200 sinna félagsverkefnum af ýmsum toga, fyrir ýmsa hópa fólks, svo dæmi séu tekin. Þá eru hópar kvenna sem hittast reglulega, prjóna saman og gefa hlýjan afraksturinn til skjólstæðinga Frú Ragnheiðar.
„Sjálfboðaliðar eru algjörlega ómissandi,“ segir Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri höfuðborgardeildar. „Við gætum ekki haldið öllum þessum mikilvægu verkefnum úti án þeirra.“ Þeir leiða gönguhópa, eru síma- og heimsóknarvinir, mæta sumir með hundana sína í heimsóknir, kenna tungumál og jóga. Og margt, margt fleira. Allt í þeim tilgangi að efla og bæta líf annarra.

Mannúðin leiðarljósið
Markmið verkefna sjálfboðaliða er að vinna að stefnu Rauða krossins á Íslandi með grunngildi hreyfingarinnar, m.a. mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni, að leiðarljósi. Jafnframt er lögð áhersla á að finna sjálfboðaliðum viðeigandi hlutverk þar sem þau geta nýtt sína þekkingu og reynslu til góða.
Það er óhætt að segja að konurnar þrjár sem valdar voru sjálfboðaliðar síðasta árs hjá höfuðborgardeildinni, og fjallað er um í nýútkominni ársskýrslu deildarinnar, hafi sinnt sínum störfum af kostgæfni í anda grunngildanna og að reynsla þeirra hafi nýst einstaklega vel.
Útsjónarsamur og þrautreyndur kennari
Auður Guðjónsdóttir kennir umsækjendum um alþjóðlega vernd íslensku. Auður hefur nýtt mikla reynslu og þekkingu sína sem kennari við uppbyggingu faglegs sjálfboðaliðastarfs og sýnt framtakssemi, útsjónarsemi og mikla tryggð við verkefnið. Hún kom inn í starfið eftir lægð í fyrstu bylgjum Covid, og leiddi mótun og uppbyggingu á íslenskuþjálfun fyrir fólk á flótta. Starfið er þannig sett upp nú að búnir eru til nemendahópar sem starfa saman í fimm vikur í senn og hittast tvisvar í viku. Hverjum hópi fylgir hópstjóri með kennarabakgrunn sem ber ábyrgð á framsetningu námsefnis og svo aðstoðarsjálfboðaliðar sem sitja með fólki og fara yfir verkefni með þeim og æfa samtöl. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og átti Auður lykilþátt í að byggja þetta kerfi upp, ásamt því að sinna reglulega hlutverki hópstjóra. Hóparnir eru sjálfbærir og þeim fylgir aldrei starfsmaður.
Með hvetjandi nærveru
María Birna Jónsdóttir hefur verið sjálfboðaliði frá árinu 2014. Þá fór hún í einstaklingsheimsókn með hundinn sinn, hann Krumma. Þau voru í því verkefni í tvö ár en þá féll Krummi frá. Frá 2016 hefur hún farið í fyrstu heimsóknir með hund fyrir hönd félagsverkefnisins. „Við höfum ekki tölu á hversu margar heimsóknir hún hefur farið í en þær hlaupa á tugum á hverju ári,“ segir í umfjöllun um Maríu í ársskýrslu höfuðborgardeildarinnar.
María er alltaf jákvæð og til í að fara í heimsóknir hvort sem þær eru á morgnana, um miðjan dag eða seinnipart dags. Hún er sveigjanleg, fagmannleg og lífsglöð og hvetur sjálfboðaliðana áfram með nærveru sinni. Henni finnst verkefnið gefandi og tekur virkan þátt í þeim námskeiðum sem verkefnið og Rauði krossinn bjóða upp á.
Lítur á alla sem jafningja
Ólöf Ásdís Baldvinsdóttir kennir umsækjendum um vernd og öðru fólki á flótta ensku. Hún byrjaði í miðjum Covid-faraldri árið 2020 að kenna ensku fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólki á Suðurnesjum. Þegar hún byrjaði gekk á ýmsu eins og gefur að skilja. Iðulega þurfti að takmarka fjölda og jafnvel vísa þátttakendum frá vegna takmarkanna. Stundum kenndi hún í gegnum Zoom og bauð öllum, jafnt flóttafólki sem umsækjendum um vernd, hvar sem fólk var búsett á landinu. „Margur hefði eflaust gefist upp á sjálfboðastarfinu við þessar aðstæður. En ekki Ólöf,“ segir í ársskýrslunni. „Hún var og er alltaf tilbúin að finna lausnir og gera það sem skjólstæðingum hentar best. Alltaf með jákvæðnina að vopni.“
Ólöf leggur sig fram við að kenna nemendum hvernig og hvar þeir geti líka sjálfir nálgast kennsluefni á netinu. Því hún veit að flestir koma til með að vera vísað frá landinu en hafa þá tól til að halda áfram að læra hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Henni er mjög svo umhugað um alla sem hún kennir, þekkir nöfn allra og lítur á alla sem jafningja. Þá er Ólöf alltaf tilbúin að hlaupa í skarðið fyrir aðra sjálfboðaliða ef þarf. „Ólöf er einstök og fyrirmyndarsjálfboðaliði.“
Lestu ársskýrslu höfuðborgardeildar hér.
Kynntu þér sjálfboðaliðastörf hjá Rauða krossinum hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.

Mikil neyð í Mjanmar
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar eru að störfum við erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum eftir jarðskjálftana miklu.