Innanlandsstarf
„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
03. apríl 2025
Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafa fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.
Mannréttindaviðurkenning Akureyrarbæjar, samningar um fatasöfnun og metfjöldi sjálfboðaliða er meðal þess sem stendur upp úr hjá Eyjafjarðardeild Rauða krossins að mati deildarstjórans, Ingibjargar Halldórsdóttur. Af nægu öðru er að taka, líkt og sjá má í nýrri ársskýrslu deildarinnar, enda starfssvæðið stórt, nær allt frá Siglufirði til Grenivíkur og yfir sjö sveitarfélög. Og um allt svæðið starfa sjálfboðaliðar með íbúum að margvíslegum mannúðarverkefnum.
Í fyrra fékk Eyjafjarðardeild Rauða krossins Mannréttindaviðurkenningu Akureyrarbæjar. „Um var að ræða viðurkenningu samfélagsins á því mikilvæga og þarfa framlagi sem sjálfboðaliðar og starfsfólk deildarinnar vinnur af alúð, hlýju og metnaði í þágu mannúðar,“ segir Ingibjörg. „Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning.“

Deildin náði jafnframt mikilvægum samningum við Akureyrarbæ varðandi textílmál á síðasta ári. Um var að ræða fyrsta álíka samkomulagið á landinu, þar sem sveitarfélag semur við hjálparsamtök um að sinna textílsöfnun. „Báðir aðilar hafa hag af þessu samkomulagi sem og auðvitað samfélagið allt,“ segir Ingibjörg. Verkefnið er ekki aðeins mannúðarverkefni í sjálfu sér, þar sem úr því er einstaklingum og fjölskyldum veitt neyðaraðstoð í formi fatnaðar, heldur líka mikilvægt fjáröflunarverkefni sem geri deildinni kleift að ráðast í fjölbreytt mannúðarverkefni. „Auk þess er þetta öflugt umhverfisverkefni sem stuðlar að sjálfbærri auðlindanýtingu með áherslu á endurnýtingu og endurvinnslu,“ segir Ingibjörg.
„Starfið í deildinni er á fleygiferð og mikið um að vera,“ heldur hún áfram. „Aldrei hafa fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.“
Nýjum verkefnum var hleypt úr vör, InterAct og Wellbeing4U, og hafa gengið vonum framar. „Talsverður fjöldi sjálfboðaliða og þjónustuþega hefur sótt í verkefnin og oft verið mikil stemmning og gleði á viðburðum.
Þessi verkefni hafa aukið enn frekar við það mikla líf sem fyrir var í húsnæðinu okkar í Viðjulundi á Akureyri sem er afar ánægjulegt og sýnir okkur bæði að þörfin fyrir verkefnin er til staðar sem og að viljinn til að starfa með okkur í Rauða krossinum er mikill.“

Á síðasta ári störfuðu 379 sjálfboðaliðar á starfssvæði Eyjafjarðardeildarinnar. „Það er í raun ótrúlegur fjöldi sjálfboðaliða og sýnir okkur að íbúar láta sig mannúðarmál varða og hafa mikinn vilja til að leggja sitt af mörkum við að bæta líf og samfélög,“ segir Ingibjörg. „Sjálfboðaliðar eru hjarta og lungu starfseminnar og vinna að því alla daga að gera samfélagið okkar betra.“
Hún segir það í raun „algjör forréttindi“ að fá að sinna starfi deildarstjóra Eyjafjarðardeildarinnar – að fá að sjá umfang alls þess sem sjálfboðaliðar vinna að í nafni Rauða krossins. „Flestir þekkja eflaust aðeins til lítils brots af þessu mikilvæga starfi,“ bendir Ingibjörg á, „en að hafa þessa heildaryfirsýn fyllir mann bjartsýni, hlýju og í raun von, ekki síst á tímum þar sem mikil átök geisa víðs vegar um heiminn. Þá er þakkarvert að verða vitni að manngæsku jafn risastórs hóps sjálfboðaliða og raun ber vitni.“
Lestu ársskýrslu Eyjafjarðardeildar hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.

Mikil neyð í Mjanmar
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar eru að störfum við erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum eftir jarðskjálftana miklu.

Bráðaliðar drepnir við störf sín
Alþjóðastarf 31. mars 2025Alþjóðaráð Rauða krossins segir svívirðilegt að átta bráðaliðar á vegum palestínska Rauða hálfmánans, auk starfsmanna almannavarna á Gaza og Sameinuðu þjóðanna, hafi verið drepnir við störf sín á svæðinu.