Innanlandsstarf
Rio Tinto styrkir Rauða krossinn um 208 milljónir vegna jarðhræringa við Grindavík
18. apríl 2024
Rio Tinto hefur veitt Rauða krossinum á Íslandi styrk að upphæð 208 milljónir króna, eða jafnvirði 1,5 milljónum dollara, til stuðnings samfélagsins sem hefur orðið fyrir áhrifum jarðskjálfta og eldgosa í og við Grindavík. Um er að ræða hæsta styrk sem fyrirtæki hefur veitt Rauða krossinum á Íslandi til verkefna innanlands.
Styrkurinn kemur úr Hamfarasjóði Rio Tinto en sjóðnum er sérstaklega ætlað að styðja við samfélög á starfssvæðum fyrirtækisins sem hafa orðið fyrir barðinu á hvers kyns hamförum. Rio Tinto á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík, hefur síðustu mánuði unnið að því að greiða fyrir styrkveitingunni vegna jarðhræringanna á Reykjanesi og áhrifa þeirra á samfélagið í Grindavík og víðar.
Á næstu vikum verður gerð frekari grein fyrir hvernig styrkurinn verður nýttur en áhersla verður lögð á að styrkja samfélagið sem hefur orðið fyrir mestum áhrifum af þessum náttúruhamförum. Markmiðið er að bæta viðnámsþrótt þeirra sem búa á svæðinu og verður verkefnið unnið í nánu samstarfi við þá sem eiga mestra hagsmuna að gæta.
„Rauða krossinum er það mikil ánægja að fá tækifæri til að koma þessum veglega styrk í mikilvægan farveg,“ segir Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Styrkveiting af þessu tagi er án fordæma fyrir verkefni á Íslandi, dæmi um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvað það getur skipt miklu máli fyrir samfélagið. Rauði krossinn og Grindavíkurbær hafa staðið þétt saman i gegnum þessa erfiðu tíma og munu halda því áfram. Ýmislegt bendir til þess að eldvirkni muni áfram hafa mótandi áhrif á líf fólks á Reykjanesskaganum. Íbúar þurfa að læra að lifa með og sættast við þennan nýja veruleika. Með framlaginu er hægt að styðja betur við samfélagið og efla viðnámsþrótt.”
„Við Grindvíkingar þökkum Rio Tinto kærlega fyrir þetta frábæra framtak og þennan veglega styrk,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. „Starfsfólkið í Straumsvík sýnir okkur mikinn hlýhug og stuðning með því að hugsa til okkar og vinna að því að fá styrk af þessu tagi okkur til handa. Við Grindvíkingar erum að máta okkur við þann veruleika sem blasir nú við okkur og vinna úr því mikla áfalli sem á okkur hefur dunið. Eins og við þekkjum öll stjórnum við ekki gangi náttúruaflanna en fjárhæð af þessu tagi hjálpar okkur að takast á við afleiðingar þeirra og þau brýnu málefni sem að okkar samfélagi snúa um þessar mundir.“
„Álverið í Straumsvík hefur verið mikilvægur þátttakandi í íslensku samfélagi í 55 ár. Við höfum mikla samkennd með þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesi síðustu misseri,” segir Rannveig Rist, segir forstjóri Rio Tinto á Íslandi. „Af þeim sökum settum við af stað styrkumsókn í Hamfarasjóð Rio Tinto. Framlag úr sjóðnum endurspeglar kosti þess að vera hluti af samsteypu Rio Tinto. Hluti af starfsfólki okkar í Straumsvík eru Grindvíkingar og enn fleiri búa á Reykjanesi. Áhrifin sem eldgos og jarðhræringar hafa haft á samfélagið í Grindavík og fleiri svæði á Reykjanesi eru mjög mikil. Við erum stolt og ánægð að geta stutt við samfélag Grindvíkinga og lagt okkar lóð á vogarskálarnar í þeim flóknu og krefjandi verkefnum sem blasa við.”
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.