Innanlandsstarf
Rauði krossinn hefur neyðarsöfnun fyrir Grindavík
14. janúar 2024
Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna eldgossins við Grindavík. Afrakstur hennar verður nýttur til að styðja Grindvíkinga fjárhagslega.

Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna eldgossins sem hófst við Grindavík nú í morgun. Henni er ætlað að styðja íbúa bæjarins.
Það hryggir okkur að eldgosið valdi skemmdum á heimilum fólks og innviðum bæjarins. Hugur okkar er hjá Grindvíkingum og við munum standa með þeim í gegnum þetta erfiða tímabil og vera til staðar eins lengi og þörf krefur.
Öllu fé sem safnast í þessari söfnun verður úthlutað til Grindvíkinga í gegnum úthlutunarnefnd, að undanskildum kostnaði við úthlutunina sjálfa. Úthlutunarnefndin samanstendur af fulltrúum Rauða krossins, félagsþjónustu Grindavíkurbæjar og kirkjunnar í Grindavík. Hægt er að sækja um fjárstuðning í þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu við Tryggvagötu.
Við vitum að fjölmargir aðilar, bæði innlendir og erlendir, hafa mikla samúð með þeim hamförum sem Grindvíkingar standa nú frammi fyrir og vilja leggja sitt af mörkum til að styðja bæjarbúa og hjálpa þeim að komast í gegnum þessar hremmingar. Þessari söfnun er ætlað að koma til móts við öll þau sem vilja leggja sitt af mörkum og veita bæjarbúum stuðning.
Svona getur þú styrkt söfnunina:
👉https://www.raudikrossinn.is/styrkja/stakur-styrkur/
👉SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
👉Hringja í 904-2500 til að styrkja um 2.500 kr.
👉Aur/Kass: @raudikrossinn
👉Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.