Innanlandsstarf

Menningarhúsin í Kópavogi taka við verkefninu Æfingin skapar meistarann

30. nóvember 2020

Menningarhúsin í Kópavogi taka við verkefninu Æfingin skapar meistarann  frá og með áramótum.

Verkefnið Æfingin skapar meistarann er samstarfsverkefni Rauða krossins og Mímis og hefur verið virkt síðan vorið 2017. Vegna aðstæðna hefur Kópavogsdeild Rauða krossins ekki tök á að sinna verkefninu með sama hætti og áður. Menningarhúsin í Kópavogi verða frá og með áramótum fram að sumarfríi ábyrgðaraðili verkefnisins, munu sjá um utanumhald, framkvæmd og þróun verkefnisins. Framhaldið verður síðan skoðað í ljósi þess hvernig gengur þá önnina.

Sjálfboðaliðar verkefnisins eru enn sjálfboðaliðar Rauða krossins og mun aðkoma Rauða krossins vera í sjálfboðaliðamálum.

Markmiðið er að þjálfa talmál og auka orðaforða fólks sem hefur hagnýtt gildi í daglegu lífi. Æfingin skapar meistarann er líka góður vettvangur til þess að kynnast nýju fólki og mynda ný vináttubönd. Tilgangur verkefnisins er að gefa innflytjendum á Íslandi tækifæri til að æfa sig að tala íslensku eftir að þeir hafa lært grunnatriði í málinu.

Heiti verkefnisins verður nú Spjallið og mun að öllum líkindum fara fram annan hvern laugardag kl. 11-12:30 á bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6a. Frekari upplýsingar um starfið mun birtast á vefsíðu bókasafnsins í Kópavogi hér.

Bókasafnið í Spönginni mun einnig bjóða upp á sambærilegar samverur aðra hverja viku, vikuna á móti bókasafninu í Kópavogi.

Verkefnið Æfingin skapar meistarann hefur svo sannarlega vaxið og dafnað, þökk sé góðrar þátttöku á meðal sjálfboðaliða og notenda. Sjálfboðaliðar Rauða krossins bera starfið uppi og útkoman er skemmtilegt, vinalegt og sjálfseflandi umhverfi fyrir fólk af erlendum uppruna. Við teljum þetta vera gott skref fyrir verkefnið og tækifæri til þess að blómstra enn frekar.

 Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar Mími símenntun fyrir gott samstarf á síðastliðnum árum.

 Frekari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.