Innanlandsstarf

Með Sigrúnu er ég ekki lengur ósýnileg

05. september 2023

Í maí árið 2013 var Kolbrún í endurhæfingu á Grensás en leið ekki vel, því hún var einmana og einangruð. Mamma hennar sótti þá um heimsóknarvin fyrir hana hjá Vinaverkefnum Rauða krossins og Sigrún, sem var nýbúin að sækja um sem sjálfboðaliði, fékk það verkefni að verða heimsóknarvinur hennar. Tíu árum síðar eru þær enn góðar vinkonur.

Þær Kolbrún og Sigrún hafa verið heimsóknarvinir í 10 ár og fengu viðurkenningarskjal og fallegan blómvönd frá Espiflöt í tilefni afmælisins frá verkefnastjórum Vinaverkefnisins.

Þær muna báðar vel eftir deginum þegar Sigrún kom fyrst í heimsókn til Kolbrúnar, en það reyndist gæfudagur fyrir þær báðar. Eftir það hlakkaði Kolbrúnu alltaf rosalega til þess að fá Sigrúnu í heimsókn. „Mér finnst að allir ættu að fá svona, sérstaklega svona skemmtilega manneskju,“ segir hún og brosir.

Sjálf segir Sigrún að hún hafi ákveðið að gerast sjálfboðaliði vegna þess að henni hafi ekki fundist hún á nógu góðum stað á þessum tíma. „Mig vantaði að gera eitthvað fallegt fyrir einhvern annan og láta eitthvað gott af mér leiða,“ útskýrir hún. „Þetta verkefni hefur gefið mér gott í hjartað.“

Ýmislegt hefur gerst á áratug

Í tilefni af 10 ára afmælinu kíktu verkefnastjórar Vinaverkefna Rauða krossins í heimsókn til að færa þeim fallegan blómvönd og heyra reynslu þeirra af verkefninu.

Þær segja að til að byrja með hafi heimsóknirnar verið formfastari, þær hittust á fyrirfram ákveðnum degi og voru alltaf búnar að ákveða hvað þær ætluðu að gera. Þær fóru til dæmis í bíó og í Kringluna eða á aðra staði sem voru nálægt búsetu Kolbrúnar. En í dag hefur mikið breyst. Þær eru miklar vinkonur og hittast einfaldlega þegar þeim hentar.

„Við hittumst til dæmis í jóla- og afmælisboðum og erum ekkert fastar á því að hittast einu sinni í viku,“ segir Sigrún.

Vinkonurnar segjast hafa lent í mörgu skrítnu og skemmtilegu saman á þessu áratug.

„Það fyndnasta er líklega atvik sem átti sér stað á 17. júní fyrir nokkrum árum,“ segir Kolbrún, sem notar göngugrind í dag en notaði hjólastól á þessum tíma. „Við fórum niður í bæ með vini mínum, sem er líka hreyfihamlaður. Við höfðum stoppað til að fylgjast með einhverju en Sigrún gleymdi að setja stólinn minn í bremsu. Vinur minn datt og þá fór Sigrún að hjálpa honum en á meðan hún var að því þá rúlla ég bara í burtu!“

„Þegar ég sé Kollu rúlla af stað sleppi ég vini hennar, sem þá dettur aftur niður, og ég hleyp á fleygiferð á eftir Kollu. Það störðu auðvitað allir á okkur!“ segir Sigrún og þær skellihlæja báðar.

Geta verið þær sjálfar saman

Bæði Kolbrún og Sigrún eru mjög ánægðar með upplifanir sínar af Vinaverkefninu og mæla með því fyrir alla, hvort sem fólk vill fá heimsókn eða fara í heimsókn. Þær leggja líka báðar áherslu á að í verkefninu fái þær rými til að vera þær sjálfar og Kolbrún bætir við að í gegnum verkefnið hafi hún meðal annars öðlast betra sjálfsálit.

„Ég fór að taka mig meira til, bara til þess að líkjast Sigrúnu meira. Speglaði mig á rosalega jákvæðan hátt, sem síðan þróaðist bara út í það að ég átti auðveldara með að vera ég sjálf þegar við vorum saman,“ segir hún. „Með Sigrúnu þarf ég ekki að vera í neinu hlutverki eða setja á mig neina grímu. Ég fæ að vera nákvæmlega eins og ég er og segja nákvæmlega það sem ég vil. Ég er ekki lengur ósýnileg með Sigrúnu, því hún sér mig. Heimsóknirnar hafa líka hjálpað mér að upplifa mig ekki jafn eina og sýnt mér að ég get gert eitthvað annað í lífinu en bara að vera á spítalanum eða á Grensás.“

„Kolla leyfir mér bara að vera nákvæmlega eins og ég er. Sjálfboðaliðastarfið þroskar mann svo mikið og breikkar sjóndeildarhringinn. Lærdómurinn er mjög mikill að það er mikil gjöf,“ segir Sigrún. „Það vantar svo oft skilning á reynsla annarra í þessu þjóðfélagi og í þessu verkefni gefst gullið tækifæri til að fá hann. Það gefur manni svo mikið í samskiptum við aðra að geta sýnt þeim og aðstöðu þeirra skilning.“

-------------

Vilt þú veita öðrum félagsskap, nærveru og hlýju? Vilt þú kannski vera tengd/ur við sjálfboðaliða á vegum Vinaverkefna Rauða krossins? Endilega kynntu þér verkefnin hér:
https://www.raudikrossinn.is/verkefni/innanlandsverkefni/heilbrigdi-og-velferd/vinaverkefni/