Innanlandsstarf

Haldið upp á 112-daginn um helgina

13. febrúar 2023

112-dagurinn var haldinn hátíðlegur á laugardag í Hörpu. Við það tækifæri var skyndihjálparmanneskja ársins 2022 útnefnd, en ungur drengur sem bjargaði lífi bróður síns varð fyrir valinu í þetta sinn.

Arnór Ingi Davíðsson var valinn skyndihjálparmanneskja ársins 2022, en hann bjargaði lífi yngri bróður síns þegar þeir lentu í snjóflóði fyrir tæpu ári, en þá voru þeir 14 og 10 ára. Arnór fékk viðurkenninguna vegna þess að hann brást rétt við þegar bróðir hans grófst í snjó. Hann hafði strax samband við neyðarlínuna og var svo hjá bróður sínum, fylgdi leiðbeiningum neyðarlínunnar í hvívetna og hélt Bjarka rólegum þar til hjálpin barst.

Arnór þakkaði sérstaklega þeim viðbragðsaðilum sem höfðu komið að björgun bróður hans og var þakklátur fyrir viðurkenninguna. Hann og bróðir hans Bjarki tóku við viðurkenningarskjali, gjafabréfi á skyndihjálparnámskeið, skyndihjálpartösku, Apple Airpods Pro frá Nova og fullum kassa af rauðum karamellum frá Góu, en það er uppáhalds sælgæti þeirra bræðra.

Miklu var tjaldað til á 112-deginum í Hörpu á laugardag, en þema dagsins í ár var „Hvað get ég gert?“ og var ætlunin að vekja fólk til vitundar um hvernig það getur brugðist við þegar neyðarástand skapast. Gestir gátu skoðað fjöldahjálpartjöld Rauða krossins, kynnst skyndihjálp og virt fyrir sér alls kyns tækjabúnað viðbragðsaðila, ásamt því að fá ýmsa fræðslu um þau mikilvægu störf sem þeir vinna.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri neyðarlínunnar, og Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, fluttu líka ávörp og hópi barna voru afhent verðlaun í Eldvarnargetraun Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Dagskrá dagsins lauk svo með frumflutningi á nýja 112-laginu.