Innanlandsstarf

Frábær árangur af fyrstu heimsókn Tónlistarvinar 

24. maí 2024

Fyrsta heimsóknin í nýju félagslegu verkefni Rauða krossins, Tónlistarvinum, fór fram fyrir skömmu. Heimsóknin gekk vonum framar og það var augljóst hvað tónlistin hafði jákvæð áhrif. 

Jónína Auður Hilmarsdóttir, sjálfboðaliði í Tónlistarvinum, ásamt gestgjafa sínum, Mustapha Jobi.

Í lok apríl fór Jónína Auður Hilmarsdóttir, sjálfboðaliði í Tónlistarvinum, í sína fyrstu heimsókn til gestgjafa síns, Mustapha Jobi. Þessi heimsókn var um leið fyrsta heimsóknin frá Tónlistarvini, en það var Jónína sjálf sem átti hugmyndina að verkefninu. Hún starfaði áður sem víóluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og sem tónlistarkennari en hefur í nokkur ár unnið hjá Ás styrktarfélagi og hefur notað tónlist sína til að gleðja skjólstæðinga. Henni fannst því tilvalið að útfæra hugmyndina með Rauða krossinum. 

Tónlistarvinir er verkefni þar sem sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins heimsækja  þátttakendur sem af einhverri ástæðu komast ekki eða eiga erfitt með að komast á tónleika. Samveran varir í um það bil klukkustund vikulega eða hálfsmánaðarlega og þá er spilað á hljóðfæri og spjallað. Það þarf ekki að hafa lokið háskólanámi í tónlist til að gerast tónlistarvinur og til dæmis er verkefnið tilvalið fyrir þau sem stunda framhaldsnám og vilja láta gott af sér leiða, þau sem hafa áður náð langt í tónlistarnámi eða vel spilandi/syngjandi áhugafólk.

Frábær tengsl á fyrsta fundi 

Fyrsta heimsóknin gekk vonum framar. Mustapha varð fyrir heilaskaða árið 2017 og hefur glímt við minnisleysi síðan, en það var einstaklega gaman að sjá hversu vel Jónína náði til hans. Þau spjölluðu saman, hún kynnti hann fyrir hljóðfærinu sínu og spilaði fyrir hann nokkur stutt lög. Þegar hún spilaði lifnaði yfir honum og það var eins og hann væri að raula með.  

Vinkona Mustapha var með í heimsókninni og bæði hún og Jónína voru mjög ánægðar með hvernig hún gekk. Vinkona Mustapha sagði að Jónína hefði náð ótrúlega góðu sambandi við Mustapha miðað við að þau væru að hittast í fyrsta skipti. „Ég fékk líka bara kusk í augað yfir því hvað þetta gladdi hann mikið,“ bætti hún við. 

Jónína sagði að það hefði verið dásamlegt að hitta Mustapha og að hún hlakkaði til framhaldsins. Dóttir hennar, Aðalheiður Kristín, er líka spennt, en hún spilar á þverflautu og mun koma með mömmu sinni og taka þátt í heimsóknum til Mustapha.

Tónlist hefur heilandi áhrif 

Einmanaleiki og skortur á félagsskap eða þeirri tilfinningu að tilheyra er algengt langvarandi vandamál. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að tónlist getur hjálpað einstaklingum að líða eins og þeir séu í félagsskap huggandi vinar og þannig fundið fyrir skilningi, tilfinningalegum stuðningi og upplifað sig minna einir. 

„Tónlist er meðferð. Tónlist hreyfir við fólki. Hún tengir fólk á annan hátt en nokkur annar miðill. Hún togar í hjartastrengi. Hún virkar sem lyf." – Macklemore 

--- 

Smelltu hér til að sækja um að gerast sjálfboðaliði og taka þátt í félagslegu verkefnum Rauða krossins: Vinaverkefni - Rauði krossinn á Íslandi (raudikrossinn.is)