Alþjóðastarf

Yfirlýsing Alþjóðaráðs Rauða krossins vegna ofbeldis í Súdan

25. apríl 2023

Alþjóðaráð Rauða krossins gaf út þessu yfirlýsingu vegna átakanna í Súdan í gær. Í henni kemur meðal annars fram að átökin eru að dýpka fyrirliggjandi mannúðarkrísu þar í landi og að Súdanir hafi ekki efni á því að heimurinn líti undan, því mannslíf séu í húfi.

Reykjarmökkur yfir Khartoum, höfuðborg Súdans.

Laugardaginn 15. apríl brutust út átök í Afríkuríkinu Súdan milli stjórnarhers landsins og uppreisnarhersins RSF. Átökin snúast um stjórn yfir Khartoum, höfuðborg landsins, en þau hafa einnig borist til annarra svæða, þar á meðal Darfur-héraðs. Hundruð hafa látist og þúsundir hafa særst í átökunum og almennir borgarar á átakasvæðunum búa við rafmagnsleysi og hafa takmarkaðar matar- og vatnsbirgðir. Óttast er að þessi átök skapi verri mannúðarkrísu á þessu svæði, sem hefur þurft að þola ofbeldi, óstöðugleika og efnahagsþrengingar árum saman.

Alþjóðaráð Rauða krossins gaf út eftirfarandi yfirlýsingu vegna átakanna í gær. Síðan þá hefur verið samið um 72 klukkustunda vopnahlé sem vonast er til að haldi og verði til þess að hægt verði að veita bráðnauðsynlega mannúðaraðstoð og rýma almenna borgara af átakasvæðunum. En það sér ekki fyrir endann á þessum átökum.

  • Vopnuð átök sem eru að eiga sér stað í fjölmennu þéttbýli ógna lífi almennra borgara. Almennir borgarar hafa þegar verið drepnir og særðir og við óttumst að þeim muni fjölga á meðan viðbragðsaðilar geta ekki náð til þeirra sem eru í neyð. Sprengjubrot og byssukúlur eru á flugi í íbúðahverfum og hafa hitt skrifstofur og heimili starfsmanna Rauða krossins í Súdan.
  • Stríðandi fylkingar verða að virða skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegum mannúðarlögum. Það felur meðal annars í sér að gera allar mögulegar varúðarráðstafanir til að forðast að slasa eða kosta almenna borgara lífið og að tryggja að innviðir séu verndaðir. Koma þarf fram við stríðsfanga af mannúð og skapa aðstæður svo að viðbragðsaðilar geti sinnt særðum og sótt hina látnu á sómasamlegan hátt.
  • Alþjóðaráð Rauða krossins heldur áfram að kalla eftir því með öllum ráðum að allir hlutaðeigandi skapi bráðnauðsynlegt rými til mannúðaraðgerða. Með hverri klukkustund sem líður þar sem hinir særðu og veiku geta ekki fengið áríðandi aðstoð heldur mannfall áfram að aukast.
  • Sjúkrahús í Khartoum og öðrum landshlutum sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna ofbeldisins eru að verða uppiskroppa með lækningarbúnað og mat. Alþjóðaráðið hefur verið að fá símtöl frá sjúkrahúsum sem hefur skort rafmagn og vatn dögum saman og geta ekki lengur veitt grundvallarþjónustu. Það þarf að vernda sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og tryggja að starfsfólk og farartæki þeirra geti ferðast á öruggan hátt. Það er áríðandi forgangsatriði fyrir okkur að ná til þessara staða og að viðhaldsteymi komist að stöðum sem framleiða rafmagn og vatn.
  • Athyglin hefur beinst að Khartoum, höfuðborg Súdans, en ofbeldið hefur einnig teygt sig til annarra landshluta. Í Darfur-héraði hefur til að mynda verið tilkynnt um mannfall meðal almennra borgara og það hefur verið afar mikil spenna í loftinu. Á sumum svæðum höfum við ekki getað metið mannúðarþarfir að fullu vegna þess að teymin okkar hafa ekki getað ferðast um á öruggan hátt. Alþjóðaráðið gaf Al-Fashir Southern-sjúkrahúsinu og Zalingei-sjúkrahúsinu lækningarbúnað þann 17. apríl. Það þarf að gera meira, en til þess þarf fyrst að tryggja öryggi starfsfólks.
  • Starfsfólk alþjóðaráðs Rauða krossins hefur séð áhrif átakanna á innviði fyrir almenning, eins raf- og vatnsveitur. Marga almenna borgara skortir nú þessa grundvallarþjónustu. Auk þess er fólk skelfingu lostið og að verða uppiskroppa með mat. Teymin okkar hafa fengið neyðarköll frá fólki sem er fast á ýmsum stöðum, eins og flugvöllum, mörkuðum og háskólum. Þetta fólk skortir mat og vatn og kemst ekki heim til sín.
  • Þessi nýjustu átök fylgja í kjölfar áralangra átaka, óstöðugleika og efnahagsþrenginga sem hafa gert það ómögulegt fyrir milljónir Súdana að mæta grunnþörfum sínum. Þessar þarfir munu því miður bara aukast vegna þessa ofbeldis.
  • Bara í Darfur-héraði einu saman eru þrjár milljónir manna á vergangi, en í heild eru 3,7 milljónir á vergangi í landinu öllu. Við gerum ráð fyrir að þessi tala hækki enn frekar ef átökin halda áfram að dreifast og harðna. Auk þess býr meira en milljón flóttafólks í Súdan, en þar einhver fjölmennasti hópur flóttafólks í allri Afríku.
  • Fæðuóöryggi og vannæring er nú þegar risastórt vandamál í Súdan. Við höfum séð verð á grunnmatvælum hækka gríðarlega – yfir 150% við lok síðasta árs – sem gerir mat og nauðsynjar óaðgengilegar fyrir fátækasta og viðkvæmasta hópinn. Á sama tíma hafa bændur tapað uppskeru vegna loftslagsáfalla um leið og ofbeldi og óstöðugleiki hafa neytt fólk til að flýja heimili sín endurtekið, en fyrir vikið er ómögulegt fyrir þau að sjá fjölskyldum sínum fyrir mat.
  • Þetta er flókið neyðarástand í mannúðarmálum og öll viðvörunarmerki eru blikkandi rauð. Þetta nýjasta ofbeldi mun bara auka enn á mikinn skort sem er til staðar. Fólk mun þurfa stuðning í dag og á næstu vikum og mánuðum. Þau hafa ekki efni á því að heimurinn líti undan – mannslíf eru í húfi.
  • Alþjóðaráð Rauða krossins hefur haft viðveru í Súdan síðan árið 1978 til að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á átökunum í Darfur-héraði, Bláu Níl og Suður-Kordofan, ásamt því að stuðla að því að alþjóðleg mannúðarlög séu virt. Í dag vinnum við, bæði sjálfstætt og í samstarfi við Rauða hálfmánann í Súdan, meðal annars að því að styðja sjúkrahús og heilsugæslustöðvar með búnaði og vistum, ásamt því að vinna með yfirmönnum vatnsveitna að því að bæta aðgengi fólks að hreinu vatni og að styðja yfirvöld sem bjóða upp á endurhæfingu fyrir fólk með fötlun. Við sjáum fólki sem er á vergangi á átakasvæðum fyrir neyðaraðstoð, dreifum fræjum og verkfærum til bænda og bólusetjum búfénað gegn sjúkdómum. Við erum að hjálpa fjölskyldum sem hafa orðið aðskildar að halda sambandi og greiðum fyrir frelsun fanga þegar við fáum beiðni um það. Annað mikilvægt hlutverk okkar er að fylgjast með því hvernig alþjóðlegum mannréttindalögum er fylgt og að leitast eftir því að stofna til tvíhliða samræðna við þá aðila sem bera ábyrgð á því að bæta vernd þeirra sem eiga ekki aðild að átökunum.