Alþjóðastarf
Starf Rauða krossins kynnt fyrir öllum landsfélögum heims
08. mars 2023
Rauði krossinn á Íslandi kynnti í dag vinnu sína í þágu verndar, jafnréttis og þátttöku án aðgreiningar fyrir landsfélögum Rauða krossins um allan heim.
Í dag, 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, kynnti Rauði krossinn á Íslandi vinnu sína í þágu verndar, jafnréttis og þátttöku án aðgreiningar á stórum netfundi sem Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans hélt fyrir landsfélög Rauða krossins um allan heim.
Fundurinn var haldinn til að kynna nýja matsaðferð til að meta getu, samsetningu og skuldbindingu Rauða kross stofnana, félaga og deilda til að takast á við hvers kyns ofbeldi, mismunun og útilokun. Með því að fylgja niðurstöðum úttekta eftir verður hægt að tryggja að Rauða kross hreyfingin sé örugg hreyfing og opin öllum, þar sem reisn, aðgengi, þátttaka og öryggi er þungamiðja í allri starfsemi.
Rauði krossinn á Íslandi hefur öðlast dýrmæta reynslu og náð góðum árangri í þessari vinnu og því var félaginu boðið að deila reynslu sinni með alþjóðasambandinu öllu. Félagið hefur á undanförnum mánuðum nýtt matsaðferð alþjóðasambandsins til að framkvæma mat á því hvernig vernd, jafnrétti og þátttöku án aðgreiningar er sinnt í starfi félagsins, bæði gagnvart starfsfólki og skjólstæðingum, en matið tekur einnig á vörnum félagsins gegn kynferðislegri misneytingu, misnotkun og áreitni. Samhliða matinu fer einnig fram fræðsla fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða. Á sama tíma hefur félagið stutt helstu alþjóðlegu samstarfsaðila okkar; félög Rauða krossins í Malaví, Sierra Leóne og Sómalíu, við að framkvæma sams konar mat á eigin starfi.
Á fundinum var einnig fjallað um mikilvægi þess að framkvæma mat á þessum þáttum, sem og mikilvægi þess að nýta reynslu annarra landsfélaga sem eru á sömu vegferð. Þessi vegferð Rauða krossins á Íslandi hefur aðeins verið möguleg með dyggum og öflugum stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, bæði hvað varðar úttektina á starfinu hér heima og stuðninginn við alþjóðlega samstarfsaðila okkar.
„Það er mjög mikilvægt að tileinka sér fjölbreytileika og inngildingu sem gildi til að bæði stýra og bæta starf okkar,” segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri á alþjóðasviði Rauða krossins, sem sá um kynninguna. „ Að skilja hvar við stöndum og hvert við viljum stefna sem félag til að tryggja að við séum örugg og að öll geti tekið jafnan þátt er grundvöllur að því að sýna að við skiptum máli og höfum áhrif, ásamt því að heiðra þá arfleið sem Rauði krossinn á Íslandi hefur byggt upp í áratugi, um leið og við lítum til framtíðar.”
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.