Alþjóðastarf

Sex mánuðir frá sprengingu í Beirút

04. febrúar 2021

Rauði krossinn í Líbanon heldur áfram að styðja við samfélagið m.a. með aukinni fjárhagslegri aðstoð til íbúa. 

Sex mánuðir eru liðnir frá gríðarlegri sprengingu við höfnina í Beirút í Líbanon. Alls létust um 200 manns, um 6.000 slösuðust og um 300.000 misstu heimili sín.

Aðstæður í Líbanon eru erfiðar. Gríðarleg fjölgun hefur verið í Covid19 smitum á sl. vikum og í Líbanon er flest fóttafólk miðað við höfðatölu, fyrst og fremst frá nágrannaríkjunum Palestínu og Sýrlandi.

Rauði krossinn í Líbanon hefur dreift hjálpargögnum á svæðinu, safnað blóði og sinnt sjúkraflutningum til meira en 250.000 einstaklinga auk fjölda annarra verkefna.

...


Rauði krossinn í Líbanon heldur áfram að styðja við samfélagið m.a. með aukinni fjárhagslegri aðstoð til íbúa en um 45% íbúa Líbanon búa undir fátækramörkum. Forgangsverkefni Rauða krossins í Líbanon er að finna leiðir til þess að halda áfram að bjóða upp á ókeypis nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og sporna við Covid19.

Almenningur og utanríkisráðuneytið studdu myndarlega við neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í ágúst sl. en alls söfnuðust rúmlega 16 milljónir króna sem runnu til Rauða krossins í Líbanon. Ljóst er að enn er mikið verk fyrir höndum og heimsfaraldur gerir uppbygginguna ekki auðveldari.