Alþjóðastarf
Sendifulltrúi til starfa á Haítí
31. ágúst 2021
Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins, heldur í dag af stað til Haítí þar sem hún mun starfa í neyðarteymi alþjóðaráðs Rauða krossins í kjölfar jarðskjálftans sem reið þar yfir fyrr í mánuðinum. Þetta er þriðja sendiför Ágústu Hjördísar.
Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins, heldur í dag af stað til Haítí þar sem hún mun starfa í neyðarteymi alþjóðaráðs Rauða krossins (IFRC Rapid Response Team) í kjölfar jarðskjálftans sem reið þar yfir fyrr í mánuðinum. Starf Ágústu Hjördísar mun felast í að huga að heilsu og öryggi þess starfsfólks sem sinnir hjálparstörfum á Haíti en gert er ráð fyrir að dvöl hennar standi í að minnsta kosti einn mánuð.
Ágústa Hjördís lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og hlaut sérþjálfun í bráðahjúkrun á Landspítalanum. Þá er hún með meistaragráðu í bráðahjúkrun frá University of California í San Francisco og hefur lokið diplómanámi í þróunarfræðum frá Háskóla Íslands. Ágústa Hjördís lauk IMPACT sendifulltrúanámskeiði Rauða krossins árið 2012 og hefur síðan þá farið í tvær sendiferðir. Fyrri ferðin var til Nepal árið 2015 þar sem hún starfaði á vettvangssjúkrahúsi og tveimur árum síðar starfaði hún svo í tjaldsjúkrahúsi í Cox Bazar í Bangladess.
„Ferðin leggst vel í mig og þótt fyrirvarinn sé skammur hefur undirbúningurinn gengið hratt og vel. Verkefni sendifulltrúa eru spennandi og gefandi en auðvitað ekki síst krefjandi enda aðstæður oft erfiðar,“ segir Ágústa Hjördís og bætir við: „En svo eru auðvitað engar tvær sendiferðir eins og erfitt að spá fyrir um það sem koma skal svo þetta er svolítið spurning um að taka því sem að höndum ber og gera sitt besta hverju sinni.“
Rauði krossinn óskar Ágústu Hjördísi góðrar ferðar og góðs gengis í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru.
Ágústa Hjördís í Nepal árið 2015.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.