Alþjóðastarf

Sendifulltrúi að störfum í Belís

02. febrúar 2021

Áshildur Linnet er að störfum í Belís eftir að tveir fellibylir fóru yfir landið á síðasta ári.

Í byrjun janúar hélt Áshildur Linnet, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, til Belís og vinnur þar að hjálparstarfi á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) í samstarfi við Rauða krossinn í Belís og með stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Í nóvember sl. fóru fellibyljirnir Eta og Iota yfir Mið-Ameríku og ollu töluverðu tjóni í Níkaragúa, Hondúras, Gvatemala og Belís. Allt frá þeim tíma hefur verið unnið að hjálparstarfi vegna náttúruhamfaranna á sama tíma og glímt er við heimsfaraldur. Í Belís urðu gríðarleg flóð svo byggðir víða í landinu fóru á kaf. Í upphafi dvöldust íbúar flóðasvæðanna í neyðarskýlum en hafa nú flestir snúið aftur til síns heima. Mikið uppbyggingarstarf er fyrir höndum, víða hefur orðið mikið tjón á húsnæði og eigur fólks skoluðust í burtu með flóðvatninu. Belís er mikið ferðamannaland og hefur COVID-19 því valdið miklu og útbreiddu atvinnuleysi.

\"Ashildur-Belis-CEA\"

„Fólk sem áður hefði sjálft getað tekist á við eftirköst flóða stóð uppi allslaust og hefur þurft á aðstoð að halda“ segir Áshildur. „Mataraðstoð var veitt fyrir jól og þessa dagana er verið að dreifa hjálpargögnum til að hefja uppbyggingarstarf. Um er að ræða annars vegar fjárhagsaðstoð til viðgerða á húsnæði og kaupum á nýju útsæði fyrir matvælaræktun og hins vegar matarpakka, verkfæri og ýmiskonar búsáhöld. Dreifingin hefur gengið vel þó að miklar rigningar og útgöngubann á kvöldin og nóttunni hafi stundum sett strik í reikninginn. “ segir Áshildur. „Fólk er einstaklega kurteist og þolinmótt við úthlutanir og bíður rólegt eftir að röðin komi að þeim. Við höfum reynt að taka tillit til þarfa á hverju svæði og dreift debetkortum á þeim svæðum þar sem styttra er í hraðbanka en mat og varningi á afskekktari stöðum. Allt eftir óskum íbúanna. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að hlusta á fólk, skapa vettvang fyrir þau til að segja sitt álit og greina frá sínum raunverulegu þörfum og reyna að bregðast við eftir bestu getu. Þá höfum við þurft að kenna mörgum hvernig á að nota hraðbanka, einkum eldra fólkinu“.

Áætlað er að ljúka verkefninu í Belís um næstu mánaðarmót en viðbúið er að önnur eins flóð verði að ári, þar sem fellibyljir við Karíbahafið koma reglulega og þeim fylgja mikil flóð. Í Belís eru miklar byggðir bæði niðri við ströndina en einnig við ár og flóðahætta því töluverð. Lítið annað er hægt að gera en vera viðbúin, hafa til vistir og skilgreina rýmingarsvæði hátt uppi í landinu. 

\"Ashildur-Belis-RC\"