Alþjóðastarf
Samfélagsleg trjárækt í Sierra Leone til að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga og auka fæðuöryggi
07. október 2021
Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, mun í samstarfi við Rauða krossinn í Sierra Leone og Landgræðsluskólann hefja trjáræktarverkefni í nokkrum héruðum í Sierra Leone á komandi vikum og mánuðum
Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, mun í samstarfi við Rauða krossinn í Sierra Leone og Landgræðsluskólann hefja trjáræktarverkefni í nokkrum héruðum í Sierra Leone á komandi vikum og mánuðum. Verkefnið byggir á þátttöku samfélaga á áherslusvæðum í verkefninu og hefur margþættan tilgang segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. „Verkefnið hefur ekki eingöngu þann tilgang að binda gróðurhúsalofttegundir með endurheimt skóglendis og stuðla þannig m.a. að endurheimt lífríkis, heldur munu trén einnig binda vatn í jarðveginn og þannig koma í veg fyrir flóð og með tímanum auka fæðuöryggi fólks á svæðinu. Þetta er mjög þarft verkefni með hliðsjón af loftslagsbreytingum og aukinni tíðni hamfara, svo sem flóða og þurrka sem oft valda miklu tjóni og fæðuskorti. Við erum utanríkisráðuneytinu mjög þakklát fyrir þeirra stuðning og sömuleiðis Landgræðsluskólanum sem mun hafa mikilvægu hlutverki að gegna við þjálfun sjálfboðaliða og starfsfólks hjá Rauða krossinum í Sierra Leone sem koma til með að innleiða verkefnið.“
„Fyrir hönd þeirra sem munu njóta góðs af verkefninu vil ég þakka utanríkisráðuneytinu, Landgræðsluskólanum og Rauða krossinum á Íslandi fyrir þennan mikilvæga stuðning“, segir Kpawuru Sandy framkvæmdastjóri Rauða krossins í Sierra Leone. “Skógarhögg og eyðing skóga er mjög mikið vandamál hér í Sierra Leone og það þarf að bregðast við þeim vanda strax. Það hefur ekki aðeins í för með sér bætt lífsgæði fyrir þá sem eru hvað fátækastir heldur bindur aukin trjárækt einnig gróðurhúsalofttegunir sem gagnast ekki aðeins íbúum Sierra Leone. Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni, bæði starfsfólk og sjálfboðaliðar sem munu koma til með að innleiða stærstan hluta af verkefninu með stuðningi frá kollegum okkar í Alþjóðasambandi Rauða krossins, Rauða kross félögunum á Íslandi og í Finnlandi og Landgræðsluskólanum á Íslandi.”
Að auki styrkir utanríkisráðuneytið samfélagslegt heilbrigðisverkefni Rauða krossins í Sierra Leone þar sem markmiðið er að styrkja samfélög á svæðinu og styðja í átt að auknu heilbrigði, ofbeldisforvörnum og auknu kynjajafnrétti auk þess sem veitt eru smálán til að koma á sjálfbærum smáiðnaði í þeim samfélögum sem verkefnið nær til.
Sierra Leone er lítið land í Vestur Afríku með rúmlega sjö milljón íbúum. Landið er eitt það fátækasta í heimi og rúmur helmingur þjóðarinnar dregur fram lífið á minna en 1,25 dollara á dag. Sierra Leone er jafnframt það land þar sem barna- og mæðradauði er hvað hæstur. „Aðstæður almennings í Sierra Leone eru nánast eins ólíkar íslenskum aðstæðum og hugsast getur“ segir Atli Viðar. „Fátækt er gífurlega útbreidd og hún bitnar meira á konum og stúlkum og með okkar aðkomu viljum við spyrna gegn fátækt og vinna að auknu kynjajafnrétti. Það er forsenda þróunar, bæði í Sierra Leone og annars staðar.
Við vonumst eftir því að fá bæði almenning og fyrirtæki í landinu í lið með okkur í þessu mikilvæga verkefni. Loftslagsbreytingar eru fyrirbæri sem varða okkur öll og trjárækt í fjarlægu landi eins og Sierra Leone þar sem gróður vex hraðar en víðast hvar annars staðar er mikilvæg, skilvirk og hagkvæm mótvægisaðgerð sem ekki sé minnst á aukin lífsgæði þeirra sem njóta verkefnisins.“
Rauði krossinn á Íslandi leggur ríka áherslu á samstarf við fyrirtæki á Íslandi. Fyrr á þessu ári hleypti félagið af stokkunum nýjum sjóði, Sjálfbærnissjóði Rauða krossins Íslandi, sem er hugsaður til að færa fyrirtækjum nýja leið til efla samfélagslega ábyrgð sína. Hugmyndafræði sjóðsins er að tengja markmið fyrirtækja um sjálfbærni og samfélagsábyrgð við framlög til verkefna Rauða krossins, með því að beita alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og mælikvörðum, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og ESG (umhverfi, samfélag, stjórnhættir).
Nánari upplýsingar um sjálfbærnisjóðinn veitir Björg Kjartansdóttir sviðsstjóri Rauða krossins bjorgk@redcross.is / GSM 821 2514.
Mannvinir Rauða krossins styðja líka við sjálfbærniverkefni Rauða krossins og hægt er að gerast Mannvinur hér .
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.