Alþjóðastarf
Rauði krossinn styður við verkefni alþjóða Rauða krossins við Miðjarðarhaf
15. nóvember 2021
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að styðja mannúðar- og lífsbjargandi verkefni alþjóða Rauða krossins fyrir flóttamenn á landi og sjó við Miðjarðarhaf með fjárframlagi og mannafla.
Ocean Viking bjargaði alls 314 konum, körlum og börnum í yfirstandandi leiðangri og er nú í höfn í Augusta á Sikiley. Þar komst fólkið loks í land í dag, sumir eftir tíu daga um borð í skipinu.
Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að styðja mannúðar- og lífsbjargandi verkefni alþjóða Rauða krossins fyrir flóttamenn á landi og sjó við Miðjarðarhaf með fjárframlagi og mannafla.
Framlag Rauða krossins nemur rúmlega 14 milljónum króna. Þar af nýtir félagið 12 milljónir af rammasamningi sínum við utanríkisráðuneytið og tvær milljónir er framlag Mannvina Rauða krossins sem eru mánaðarlegir styrktaraðilar félagsins.
Björgunarskipið Ocean Viking, sem alþjóða Rauði krossinn og samtökin SOS Mediterranee halda úti, er hluti af þeirri mannúðaraðstoð sem veitt er flóttafólki við Miðjarðarhaf og samvinnuverkefni fjölmargra landsfélaga Rauða krossins sem aðstoða fólk á flótta víðsvegar í löndum Afríku, Mið-Austurlöndum og Evrópu.
Um borð í skipinu eru læknar og hjúkrunarfólk. Í bakvarðarsveit björgunarskipsins er Þórir Guðmundsson sem starfar með upplýsingateymi svæðaskrifstofu Rauða krossins í Evrópu og með aðsetur í Búdapest.
Björgunarskipið hefur þegar bjargað hundruðum kvenna, karla og barna sem freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið á illa búnum tré- eða gúmmíbátum. Aðstæður fólks í þessum bátskænum eru oftar en ekki mjög erfiðar. Fólk hefur verið á reki í marga daga í yfirfullum bátum þar sem matur og drykkjarvatn er af skornum skammti. Í hópi flóttamanna eru jafnvel ung börn ein á ferð án foreldra eða fylgdarmanna.
Fyrr í mánuðinum aðstoðaði Ocean Viking annað björgunarskip, sem þá var með 800 manns um borð, með því að útvega matvæli og og önnur hjálpargögn. Það var gott dæmi um samstarf í hjálparstarfi – og reyndar tók flóttafólkið í Ocean Viking fullan þátt í að ferja hjálpargögnin yfir til fólksins í hinu skipinu.
Ocean Viking bjargaði alls 314 konum, körlum og börnum í yfirstandandi leiðangri og er nú í höfn í Augusta á Sikiley. Þar komst fólkið loks í land í dag, sumir eftir tíu daga um borð í skipinu. Síðustu dagana var mikill öldugangur og grenjandi rigning þannig að flóttafólkið var orðið mjög hrakið þegar skipið lagði loks að bryggju. Þar tók ítalski Rauði krossinn á móti þeim.
Í kvöldfréttum Rúv þann 6. nóvember síðastliðinn var fjallað um þetta mál og var tekið viðtal við Þóri Guðmundsson, sendifulltrúa Rauða krossins á Íslandi.
Fréttina má sjá hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/30762/95bqeo/314-mannslifum-bjargad
Séstakar þakkir fá Mannvinir Rauða krossins sem gera okkur kleift að bregðast við og halda uppi hjálparstarfi um allan heim á neyðarstundu. Hægt er að gerast mannvinur Rauða krossins inn á www.mannvinur.is.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.