Alþjóðastarf
Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn opna meðferðardeild í Jemen til að bregðast við heimsfaraldri Covid19
23. september 2020
Í vikunni var opnuð gjaldfrjáls meðferðardeild í Aden í Jemen fyrir einstaklinga sem veikjast af Covid19
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) auk norska Rauða krossins, finnska Rauða krossins og jemenska Rauða hálfmánans opnuðu í vikunni gjaldfrjálsa meðferðardeild í borginni Aden í suðurhluta Jemen fyrir einstaklinga sem veikjast af Covid19. Heilbrigðiskerfið í Jemen er í molum eftir stríðið og hvergi hafa fleiri látist hlutfallslega af völdum veirunnar eftir afar erfiða fyrstu bylgju sjúkdómsins þar í landi.
Meðferðardeildin er m.a. útbúin 60 rúmum, röntgen herbergi, legudeildum, hágæslu, aðstöðu fyrir forgangsröðun sjúklinga og rannsóknarstofu. Nokkur tonn af sjúkragögnum og búnaði voru flutt á staðinn í umsjón alþjóðlegs læknateymis.
Meira en helmingur meðferðardeilda í Jemen eru lokaðar eftir áralöng átök og er aðgengi að heilbrigðisþjónustu mjög skert fyrir marga íbúa. Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafa 585 einstaklingar látist af völdum Covid19 en staðfest smit eru 2.026, sem er hæsta hlutfall dauðsfalla í heimi af hverju greindu tilfelli.
Heilbrigðisyfirvöld í Jemen greina frá nýjum smitum í suðurhluta landsins og áframhaldandi útbreiðsla veirunnar ??er mjög líkleg. Hlífðarbúnaður er takmarkaður, íbúar útbúa einfaldar andlitsgrímur fyrir ástvini sína og andlitshlífar fyrir heilbrigðisstarfsmenn til þess að reyna að sporna gegn útbreiðslu veirunnar.
„Það eru of fáar heilbrigðisstofnanir sem geta meðhöndlað Covid19 í suðurhluta Jemen. Ef smitum fjölgar getur þessi nýja meðferðardeild aðstoðað“ sagði Alexandre Equey, yfirmaður sendinefndar Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) í Jemen. „Þegar Covid19 skall á Aden fyrir nokkrum mánuðum hættu mörg sjúkrahús að taka við sjúklingum. Fólk hafði ekki efni á lyfjum og aðrir smitsjúkdómar skutu aftur upp kollinum. Þegar fólk fær Covid19 verður það að geta leitað sér læknisaðstoðar.“
„Samstaða og seigla eru lykilatriði. Pólitískt samkomulag um að binda enda á þjáningar milljóna er nauðsynlegt. Jemenar vilja byggja upp líf sín að nýju“ bætti Alexandre við.
„Sjálfboðaliðarnir okkar eru í kappi við tímann að bregðast við heimsfaraldrinum. Við dreifum matvælum, hreinlætisvörum, hlífðarbúnaði og öðrum nauðsynlegum vörum til fólks í tjaldbúðum og heilsugæslustöðvum til að efla fyrirbyggjandi aðgerðir“sagði Fouad Al Makhithy, framkvæmdastjóri jemenska Rauða hálfmánans.
Vegna viðvarandi átaka og skorts á sjúkragögnum hafa margar heilbrigðisstofnanir neyðst til að loka í Jemen. Heilbrigðiskerfið á í erfiðleikum með að veita hundruðum þúsunda einstaklinga grunnþjónustu og lífi þeirra er ógnað vegna læknanlegra sjúkdóma, vannæringar og stríðstengdra áverka. Skortur á rafmagni og eldsneyti og mikil verðbólga gerir það að verkum að matur, lyf og aðrar nauðsynjavörur eru of dýrar fyrir flesta og gerir lífið afar erfitt.
„Kórónaveiran hefur áhrif á okkur öll, en hún kemur mun meira niður á sumum en öðrum. Íbúar Jemen standa frammi fyrir mjög alvarlegum afleiðingum heimsfaraldursins samhliða áframhaldandi eftirköstum átakanna. Við erum ánægð að geta lagt okkar af mörkum til að draga úr margþættum þjáningum fólks með stuðningi okkar við meðferðardeild fyrir sjúklinga með Covid19“ sagði Bernt G. Apeland, framkvæmdastjóri norska Rauða krossins.
„Það er erfitt að ímynda sér einhvern í verri aðstöðu en Jemena. Milljónir þjást vegna átaka, fæðuóöryggis og brothætts heilbrigðiskerfis. Við vonum að þessi meðferðardeild hjálpi þeim að lifa þennan heimsfaraldur af með sem minnstum skaða“ sagði Kristiina Kumpula, framkvæmdastjóri finnska Rauða krossins.
Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við hjálparstarf í Jemen síðastliðin ár bæði með störfum íslenskra sendifulltrúa en einnig með beinum fjárframlögum. Frá árinu 2017 hefur Rauði krossinn á Íslandi stutt við mannúðaraðgerðir Alþjóðaráðs Rauða krossins og jemenska Rauða hálfmánans á vettvangi átaka í Jemen um tæplega 97 milljónir króna með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins.
Upplýsingar um Covid19 meðferðardeildina:
- Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur sett upp tilvísanakerfi fyrir sjúklinga sem búa í dreifbýli í samvinnu við aðra heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisyfirvöld og jemenska Rauða hálfmánann.
- Meðferðardeildin mun veita þjónustu sína að kostnaðarlausu. Sjúklingar geta haft samskipti við fjölskyldumeðlimi meðan þeir liggja inni.
- Meira en 100 Jemenar frá svæðinu starfa á meðferðardeildinni og 20 alþjóðlegir læknar og tæknimenn munu einnig starfa við deildina.
Myndir: ICRC
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.