Alþjóðastarf
Plantaði trjám og hugmyndum í Síerra Leóne
08. ágúst 2023
Karl Benediktsson lauk nýlega sendifulltrúaför til Síerra Leóne, þar sem hann vann að trjáræktarverkefni á vegum alþjóðasambands Rauða krossins. Hann segir mikilvægt að ráðast í aðgerðir vegna loftslagsbreytinga og að verkefnið hafa veitt honum dýrmæta reynslu.
„Ég hef alltaf haft áhuga á því hvernig þróun samfélaga og umhverfisbreytingar tvinnast saman og þegar ég var í doktorsnámi gerði ég rannsóknir á Papúa Nýju-Gíneu sem tengdust þessu efni að hluta til,“ segir dr. Karl Benediktsson, sem er prófessor í landfræði við Háskóla Íslands. „Það hafði lengi blundað í mér löngun til að vinna meira á sviði þróunarmála svo ég stökk á tækifærið til að fara út sem sendifulltrúi þegar það bauðst og tók leyfi frá háskólanum.“
Vinna Karls snerist um að móta og samhæfa stórt trjáræktarátak alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Staðan var styrkt til eins árs af utanríkisráðuneytinu og Mannvinum Rauða krossins, en Rauði krossinn á Íslandi hefur nú samið við IFRC um að fjármagna stöðu samhæfingarstjóra trjáræktarátaksins áfram.
Mjög líflegt í Freetown
Karl varði tæpu ári í Síerra Leóne og líkaði vel við landið og fólkið.
„Ég var með starfsstöð í Síerra Leóne því Rauði krossinn á Íslandi setti á fót verkefni þar í samstarfi við IFRC sem gengur út á að planta trjám til að bæta afkomu fólks, vernda jarðveg og milda loftslagsbreytingar,“ segir Karl. „Auðvitað var gríðarlega margt sem var öðruvísi þarna en hér heima. Þetta er mjög fátækt land og borgin sem ég dvaldi í, Freetown, ber þess skýr merki. Allir innviðir eru mjög fátæklegir eða hreinlega varla til. En ég var undirbúinn fyrir það og það kom ekki mikið á óvart.
Ég vissi eiginlega ekkert um landið áður en ég fór og var aðeins tvístígandi varðandi Freetown þegar ég flutti þangað, en staðurinn kom mér skemmtilega á óvart og mér fór að líka ágætlega við hann og lætin þar. Það er mjög líflegt í Freetown á ýmsan hátt,“ segir Karl og brosir.
Þríþætt verkefni
Verkefni Karls snerist um að hjálpa landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríkuríkjum við að setja upp sín eigin trjáræktarverkefni. „Verkefnið náði til allra landa sunnan Sahara, en þau heyra undir Afríkuskrifstofu IFRC,“ segir hann. „Mitt starf fólst að miklu leyti í að mynda tengsl við landsfélög og hjálpa þeim að koma sínum verkefnum í gang. Ég var eiginlega meira að planta hugmyndum en trjám.
Trjáræktarátak IFRC snýst alls ekki um hefðbundna skógrækt, heldur felur það þrennt í sér,“ segir Karl. „Í fyrsta lagi er það hugsað sem framlag til þess að draga úr hlýnun jarðar með því að planta trjám sem binda kolefni. Í öðru lagi getur trjáplöntun gert samfélögum kleift að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga, sem hafa birst í minna fæðuöryggi og aukinni hættu á veðurtengdum hamförum.
Aðlögun er eiginlega aðaláherslan hjá mörgum landsfélögum í Afríku og þar er verið að reyna að beita margvíslegum náttúrulausnum. Í Freetown og nágrenni eru til dæmis mjög brattar hlíðar og við stækkun borgarinnar hefur fólk höggvið skóginn þar, svo þær eru nú mjög berskjaldaðar fyrir stórrigningum. Þarna varð gríðarleg skriða árið 2017, þar sem yfir þúsund manns létu lífið. Trjágróður getur hjálpað við að fyrirbyggja þessar hamfarir,“ segir Karl. „Það sem snýr að fæðuöryggi felst til dæmis í að planta trjám sem bera ávexti eða er hægt að nýta á annan hátt til lífsviðurværis. Það eykur viðnámsþrótt samfélaga að hafa úr meiru að moða. Í þriðja lagi felur átakið í sér ýmis önnur umhverfistengd verkefni, meðal annars fræðslu um umhverfismál.
Mjög víða hefur náttúran lotið í lægra haldi fyrir sístækkandi mannfjölda og alls kyns auknum umsvifum og iðnaði. Flest samfélög sunnan Sahara eru að miklu leyti sveitasamfélög og þegar fólki fjölgar leiðir það til aukinnar nýtingar á landi, sem er nú víða þaulnýtt. Þetta kemur verulega niður á landgæðum,“ segir Karl. „Jarðvegseyðing er verulegt vandamál víða og loftslagsbreytingar hafa gert það að verkum að úrkoma er mjög óáreiðanleg í mörgum löndum, ekki síst á austurhorni Afríku. Það er full þörf á lausnum til að mæta þessu. Ég held að frjósemi jarðvegs hafi ekki verið veitt nógu mikil athygli, en hún skiptir gríðarlega miklu máli.“
Samstarf við önnur verkefni í álfunni
„Þetta átaksverkefni er eitt af nokkrum sem eru í gangi um alla Afríku. Eitt þeirra kallast „Ekkert hungur“ eða „Zero Hunger“ og ég vann mikið með samhæfingarstjóra þess verkefnis. Við fléttuðum þessi tvö verkefni eiginlega saman í nýtt verkefni fyrir alla Afríku sunnan Sahara,“ segir Karl. „Þau sjá um það sem lýtur beint að landbúnaði og fæðuframleiðslu, en trjáræktarverkefnið kemur inn með umhverfisþáttinn, með áherslu á trjárækt og jarðvegsvernd. Það er komin í gang heilmikil og metnaðarfull áætlanagerð fyrir austurhorn Afríku og það er verið að móta heildarstefnu sem gerir ráð fyrir að flétta umhverfismál inn í beinar aðgerðir gegn hungri í auknum mæli.
Í Sahel-beltinu, rétt sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, hefur líka verið verkefni í gangi að frumkvæði Afríkusambandsins sem nefnist „Græni múrinn“, eða „The Great Green Wall“. Það snýst um að planta trjám svo þau myndi hálfgert belti þvert yfir Afríku,“ útskýrir Karl. „Þetta hefur verið í gangi árum saman og leitt af sér mikla gerjun. Nú stendur til að tvinna það saman við trjáræktarverkefni IFRC og svo á að útfæra svipað verkefni fyrir sunnanverða Afríku.“
Hættulegt að alhæfa um Afríku
Karl segir að dvölin í Síerra Leóne hafi verið afar lærdómsrík.
„Ég vissi í raun ekki mikið um Afríku áður en ég fór, en nú finnst mér ég hafa mun betri skilning á því hversu gríðarlega stór og fjölbreytt þessi álfa er og hve hættulegt er að alhæfa um hana. Fólk er oft með einfaldar og einsleitar staðalhugmyndir um Afríku, en þetta eru mjög mismunandi samfélög og margs konar umhverfi,“ segir hann. „Þetta kenndi mér líka hvað það er mikið af vel menntuðu og vel hugsandi fólki vítt og breitt um Afríku sem ætti að mínu mati að leiða þessi átaksverkefni. Mér fannst pínu hjákátlegt að vera „sérfræðingurinn að norðan“. En starfið og dvölin víkkaði sjóndeildarhringinn sannarlega og ég tek þessa dýrmætu reynslu með mér í kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands.“
Að lokum segir Karl að hann gæti alveg hugsað sér að fara aftur út, en kannski ekki í jafn langan tíma.
„Mér finnst erfitt að sleppa íslenska sumrinu. En ég ætla að halda tengslum þarna úti og sjá hvort ég geti lagt meira til, hvort sem það er við þetta verkefni eða annað.“
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitFjöldahjálparstöð opin í Egilsbúð í dag
Almennar fréttir 20. janúar 2025Fjöldahjálparstöðin í Egilsbúð, Neskaupsstað, verður opin í dag, frá kl. 10:00 til 16:00, vegna rýmingarinnar. Allir sem þurfa aðstoð eru hvattir til að koma í Egilsbúð. Hjálparsíminn 1717 hefur verið virkjaður.
Fjöldahjálpastöðvar opnaðar á Austfjörðum
Almennar fréttir 19. janúar 2025Búið er að opna fjöldahjálparstöð í Egilsbúð í Neskaupstað og í Herðubreið á Seyðisfirði. Hjálparsíminn 1717 hefur verið virkjaður.
100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.