Alþjóðastarf
Öflugt hjálparstarf í Marokkó en framtíðin ótrygg
29. september 2023
Rauði hálfmáninn í Marokkó hefur náð miklum árangri í hjálparstarfi sínu vegna jarðskjálftans sem varð þar fyrir þremur vikum, en það er mikil þörf á langtíma stuðningi á svæðunum sem urðu verst úti.

Rauði hálfmáninn í Marokkó, í samstarfi við þarlend stjórnvöld, hefur unnið hörðum höndum að því að mæta neyð þolenda jarðskjálftans sem varð þar 8. september síðastliðinn og olli miklu mannfalli og gríðarlegri eyðileggingu. En nú, þremur vikum eftir skjálftann, er enn mikið verk fyrir höndum.
Um 50 þúsund fjölskyldur misstu heimili sín í jarðskjálftanum og þetta fólk skortir enn langtímalausnir á húsnæðisvanda sínum. Von er á rigningu á svæðinu sem varð verst úti í skjálftanum og hætta er á að hún valdi skriðuföllum. Á þessu fjöllótta svæði er mikið af stórum hnullungum sem óttast er að gætu farið af stað og valdið frekari eyðileggingu. Auk þess er enn hætta á eftirskjálftum.
Sem stendur eru mörg hundruð sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó að störfum í fjórum héruðum sem komu illa út úr skjálftanum; Taroudant, Marrakech, Chichawa og Al Haouz. Bílalestir hafa ferðast til afskekktustu þorpanna og veitt heilbrigðisþjónustu, lyf og sálrænan stuðning og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans hafa gefið mikið af blóði.
Mikilvægt að tryggja langtíma stuðning
Alþjóðasamband Rauða krossins hefur óskað eftir 100 milljónum svissneskra franka (rúmlega 15 milljörðum íslenskra króna) til að hjálpa til við að fjármagna þetta neyðarviðbragð Rauða hálfmánans.
Þökk sé ótrúlegri samstöðu marokkósku þjóðarinnar hefur tekist að sinna grunnþörfum fólks á þeim svæðum sem komu illa út úr skjálftanum. En það er mikilvægt að tryggja að þessu verði sinnt til langframa, því svæðin sem urðu illa úti koma til með að þurfa stuðning næstu árin.
Nú er mest áríðandi að tryggja þeim sem hafa misst heimili sín hreint drykkjarvatn, hreinlætisaðstöðu, eldhúsáhöld, öruggt og hlýtt húsaskjól og aðrar nauðsynjar fyrir veturinn. Mikið af svæðinu sem varð illa úti er í 1500-2000 metra hæð yfir sjávarmáli og hitastigið er farið að lækka, sérstaklega á nóttunni.
Hægt er að styrkja neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu með eftirfarandi leiðum:
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
Hringja í númerið 904-2500 fyrir 2.500 kr. styrk
Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
Kass: raudikrossinn eða 7783609
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Aðalfundur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 12. febrúar 2025Aðalfundur höfuðborgardeildar Rauða krossins verður haldinn fimmtudaginn 13. mars kl. 17:00 í húsnæði Rauða krossins á Íslandi, Víkurhvarfi 1.

Skyndihjálparmanneskjur ársins verðlaunaðar
Almennar fréttir 11. febrúar 2025Í dag var haldið upp á 112-daginn í slökkvistöðinni í Skógarhlíð 14, en þemað í ár var börn og öryggi. Við þetta tækifæri veitti Rauði krossinn á Íslandi skyndihjálparmanneskjum ársins viðurkenningu. Skyndihjálparmanneskjur ársins 2024 eru þau Guðrún Narfadóttir, Hinrik Þráinn Örnólfsson og Elín Ragnarsdóttir, sem veittu Hrafnkeli Reynissyni lífsbjörg þegar hann hneig niður á bílastæði í Álftamýrinni og fór í hjartastopp.

Tímasetningar aðalfunda deilda 2025
Almennar fréttir 07. febrúar 2025Hér má sjá tímasetningar á þeim aðalfundum deilda Rauða krossins sem hafa verið ákveðnir.