Alþjóðastarf
Mitt hlutverk er að koma fólki heilu í höfn
12. desember 2022
Hjúkrunarfræðingurinn Hrönn Håkansson fer í dag til starfa á björgunarskipinu Ocean Viking, sem sinnir björgun bátaflóttafólks á Miðjarðarhafi. Hrönn er spennt fyrir verkefninu og líst ekki illa á að vera í vinnunni úti á Miðjarðarhafi yfir jólin.
Hrönn verður úti í 4-5 vikur og er annar sendifulltrúinn sem fer út á vegum Rauða krossins á Íslandi til starfa á skipinu, en hjúkrunarfræðingurinn Jóhanna Elísabet Jónsdóttir var þar í haust.
Hrönn hefur verið á Veraldarvakt Rauða krossins síðan hún fór á sendifulltrúanámskeið árið 2012 og hefur starfað sem sendifulltrúa á vettvangssjúkrahúsum í kjölfar náttúruhamfara á Filippseyjum og í Bangladess, í flóttamannabúðum við landamæri Mjanmar og á færanlegri heilsugæslu í Írak á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins. Auk þess hefur hún verið sjálfboðaliði í verkefnum Rauða krossins á Íslandi frá því um 2004.
Ekkert mál að vera í vinnunni á jólunum
Hrönn segist ekki alveg geta svarað því hvers vegna hún hefur verið svo tilbúin að fara erlendis á vegum Rauða krossins. „En þessi hugmynd hefur einhvern veginn alltaf verið til staðar. Kannski ekki síst vegna þess að pabbi flaug í Bíafra-stríðinu fyrir Rauða krossinn,“ segir hún. „Svo er það kannski líka bara vegna þess að ég er vön því frá unga aldri að heimilisfólkið þvælist um allan heim í ýmsum verkefnum.“
Hrönn sá þetta verkefni auglýst og var hvött til að sækja um, svo hún ákvað að slá til.
„Það er kannski ekki sérlega vinsælt að fara út á jólunum, en mér líst bara vel á það. Mér finnst það ekkert stórmál. Ég hef áður verið úti á jólunum og oft unnið á jólunum á spítalanum. Það er stundum bara mjög jólalegt að vera í vinnunni á jólunum,“ segir hún. „Sérstaklega þegar maður er að hjálpa fólki og vinna í teymi með fólki í góðum gír. Það myndast oft góð stemmning í hópnum.“
Hefur ekki áhyggjur af aðstæðunum
„Aðalmunurinn á þessu verkefni núna og þeim fyrri sem ég hef tekið þátt í er að þetta er á hafi. En vinnan við heilbrigðisþjónustu er ekki ósvipuð í sjálfri sér, þó að heilsufarsvandamálin séu kannski aðeins annars eðlis. Ég veit ekki alveg hvernig það á eftir að fara með mig að vera á skipi, ég er ekki vön því, en það eru til sjóveikistöflur svo ég hef engar sérstakar áhyggjur. Ég reikna bara með að þola þetta. Það er að minnsta kosti planið,“ segir Hrönn létt.
Hún hefur heldur ekki áhyggjur af aðstæðunum sem eru úti, en Ocean Viking hefur nýlega lent í vandræðum með að komast í höfn vegna þess að flóttafólkið um borð var ekki velkomið í ítalskar hafnir.
„Ég er fyrst og fremst að hugsa um mitt hlutverk í þessum aðstæðum,“ útskýrir Hrönn. „Að starfa með heilbrigðisteyminu við að aðstoða flóttafólkið sem er þarna úti, veita þeim nauðsynlega aðhlynningu og heilbrigðisþjónustu og koma þeim heilum í höfn. Annað starfsfólk sér um samningaviðræður varðandi hvar hægt er að taka á móti flóttafólki í landi.“
Hrönn er að lokum með einföld skilaboð sem hún vill koma á framfæri: „Ég vil hvetja alla sem hafa svigrúm í heimilisbókhaldinu til að gerast Mannvinir og styrkja starfið hjá Rauða krossinum,“ segir hún.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.