Alþjóðastarf

Málsmeðferð barna á flótta

03. febrúar 2020

Rauði krossinn fagnar þeim skrefum sem tekin voru í máli pakistanskrar fjölskyldu í gær, þar sem brottflutningi þeirra til Pakistan var frestað. 

Málsmeðferð barna á flótta

 

Rauði krossinn fagnar þeim skrefum sem tekin voru í máli pakistanskrar fjölskyldu í gær, þar sem brottflutningi þeirra til Pakistan var frestað. Dómsmálaráðuneytið birti í gær tilkynningu þess efnis að fyrirhugaðar væru breytingar á reglugerð um útlendinga þar sem hámarkstími málsmeðferðar væri styttur úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þegar börn ættu í hlut. Mál fjölskyldunnar sem um ræðir fellur innan þeirra breytinga og var brottflutningi því frestað.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur einnig fram að vonir standi til þess að þetta verði aðeins fyrsta skrefið í að stytta meðferð slíkra mála. Af þessu tilefni vill Rauði krossinn benda á að brýnt tilefni er til þess að skilgreina málsmeðferð á heildstæðan hátt, allt frá því að fólk leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd og þangað til það yfirgefur landið.

Markmið laga um útlendinga er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda og þar verður sérstaklega að tryggja að bestu hagsmunir barna séu ávallt hafðir að leiðarljósi. Rauði krossinn fagnar yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins um að nú fari í gang vinna sem miði að því að stytta málsmeðferð þegar börn eiga í hlut en samhliða verður að tryggja að slíkar umsóknir fái sanngjarna og réttláta meðferð, sem felur m.a. í sér ítarlega rannsókn og einstaklingsbundið mat út frá bestu hagsmunum barnsins.

Hvað verður um fjölskylduna, hvað þýðir að brottvísun sé frestað?

Margir velta því fyrir sér hvað yfirlýsing dómsmálaráðuneytisins þýði fyrir pakistönsku fjölskylduna og aðra í sömu stöðu. Rauði krossinn mun óska eftir því við kærunefnd útlendingamála að mál fjölskyldunnar verði tekið til meðferðar á ný og að henni verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Þá munu talsmenn Rauða krossins fara yfir og skoða hvort mál annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd falli undir framangreindar breytingar og gera eftir atvikum kröfur í samræmi við þær.

Hvað þarf að breytast varðandi málsmeðferð og tímafresti að mati Rauða krossins?

Rauði krossinn leggur áherslu á mikilvægi þess að litið sé til heildardvalartíma umsækjenda, þ.e. frá því umsókn er lögð fram og þar til viðkomandi yfirgefur landið, en ekki aðeins þann tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála líkt og nú er gert.

Hér á landi eru einstaklingar og fjölskyldur sem fengið hafa niðurstöðu í máli sínu um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum innan eðlilegra tímamarka en bíða brottflutnings. Undirbúningur og framkvæmd brottflutnings getur tekið langan tíma og eru dæmi um einstaklinga hér á landi sem hafa beðið á annað ár. Einstaklingar í þessari stöðu hafa mjög takmörkuð réttindi. Þau hafa t.a.m. ekki kenntölu, almennt ekki leyfi til að vinna og takmarkað aðgengi að heilbrigðiskerfinu.

Sérstaða barna

Hafa verður í huga viðkvæma stöðu barna við mat á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd. Börn skjóta rótum og aðlagast hratt oftast nær og þess vegna er þessi breyting skref í rétta átt og ánægjulegt að sjá yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins um að forgangsraðað skuli í þágu barna.