Alþjóðastarf
Lokaákall til ríkisstjórna ESB um að setja mannúð í fyrsta sæti í löggjöf ESB um fólksflutninga og framkvæmd hennar
20. desember 2022
Evrópuskrifstofa Rauða krossins skorar á ríkisstjórnir ESB að leggja áherslu á mannúð og gildi sambandsins á lokastigi viðræðna þess um sáttmála um fólksflutninga og hælisveitingar.
Í tilefni af alþjóðadegi farenda, sem var þann 18. desember, sendi Evrópuskrifstofa Rauða krossins eftirfarandi ákall til Evrópusambandsins og ríkisstjórna aðildarríkja þess.
Evrópuskrifstofa Rauða krossins er fulltrúi landsfélaga þeirra 27 landa sem eru innan ESB, Rauða krossins á Íslandi, Rauða krossins í Noregi og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans og hefur það hlutverk að samhæfa samskipti þessara aðila við ráðamenn og hagsmunaaðila Evrópusambandsins.
---
Í tilefni af alþjóðadegi farenda þann 18. desember minnir Evrópuskrifstofa Rauða krossins Evrópusambandið og aðildarríki þess á rétt sérhvers einstaklings, óháð þjóðerni eða stöðu hans, á mannlegri reisn og að virðing sé borin fyrir grundvallarmannréttindum hans, bæði á ferðalagi hans og þegar komið er til Evrópu. Skorar Evrópuskrifstofa Rauða krossins á ríkisstjórnir ESB að leggja áherslu á mannúð og gildi sambandsins á lokastigi viðræðna þess um sáttmála um fólksflutninga og hælisveitingar.
Ríkisstjórnir ESB og Evrópuþingið eru á lokastigi viðræðna um sáttmála um fólksflutninga og hælisveitingar en þetta er umfangsmesta tilraunin til endurbóta á löggjöf ESB um hælisveitingar frá árinu 2016. Þetta á sér stað samhliða vaxandi pólitískri ókyrrð og þeirri viðleitni að flokka fólksflutninga sem öryggisógn. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að tryggja að niðurstöðurnar og þær ráðstafanir sem gripið verður til séu byggðar á staðreyndum og réttum gögnum og taki nægilegt tillit til þeirra áhrifa sem þær hafa á líf fólks, frelsi þeirra, heilsu og vellíðan.
Niðurstöður þessara lagaumbóta eru mikilvægar. Þær munu ákvarða hvernig farið er með fólk þegar það kemur inn á yfirráðasvæði ESB og hvaða hjálp mannúðarsamtök munu geta veitt farendum. Þær munu einnig að miklu leyti móta ímynd ESB gagnvart heiminum þegar kemur að virðingu fyrir mannréttindum.
Atburðir við ytri landamæri ESB og stefna sáttmálans varðandi lög um landamærastjórn valda sérstökum áhyggjum. Ekki hefur verið brugðist við fregnum af ofbeldi og illri meðferð á farendum sem farið hafa yfir fjölda landamæra ESB með áherslu á þá misnotkun sem þar á sér stað. Þess í stað hafa verið kynnt lagafrumvörp sem gætu grafið undan mannréttindum farenda við landamæri, aukið berskjöldun þeirra og dregið úr möguleikum þeirra á að komast í öruggt skjól innan ESB. Nýleg krísa, þar sem hundruðum einstaklinga var bjargað frá lífsháska á Miðjarðarhafi í nóvember en voru svo fastir í pólitískri deilu í 15 daga, sýnir hvernig líf farenda og starf mannúðarsamtaka er í síauknum mæli gert að pólitísku bitbeini.
Fólksflutningar eru flókið mannlegt fyrirbæri sem krefst flókinna lausna og ómögulegt er að kveikja og slökkva á að vild með endurskoðun á löggjöf, fjölgun landamæravarða eða auknu eftirliti á ytri landamærum ESB. Aðildarríki ESB og stofnanir þess eru bundin af alþjóðalögum, núverandi lagaramma ESB og þeim grundvallarréttindum sem í honum felast – einkum grundvallarreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (e. non-refoulement) og hætta er á að það sæti pyndingum og illri meðferð. Með þeim tillögum sem lagðar eru fram í sáttmálanum reynir í auknum mæli á framangreindan lagaramma og einblína þær óhóflega mikið á að efla landamæraeftirlit og aukningu á endursendingum og beitingu varðhalds, meðal annars á börnum. Þess í stað ætti kjarninn í stefnu ESB varðandi fólksflutninga og hælisveitingar að vera sanngjörn, ábyrg og vönduð málsmeðferð og rausnarleg móttökuaðstaða alls staðar innan sambandsins.
Umbæturnar verða að vera í anda samstöðu og mannúðar, tryggja ábyrga landamæravörslu og sjá til þess að stefnur og venjur í landamærasvörslu virði réttindi og reisn allra farenda, óháð réttarstöðu þeirra. Mannúðarsamtök og almenningur verða að hafa svigrúm til að starfa sjálfstætt. Í núverandi samhengi, þar sem stjórnmálavæðing og mótlæti eru áberandi, hefur getan til að ná til farenda í neyð, hvort sem er við landamæri á landi eða sjó, og veita þeim lífsbjargandi aðstoð, aldrei verið mikilvægari.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitHéldu tombólu fyrir fátæk börn
Almennar fréttir 24. október 2024Fjórar vinkonur úr Hafnarfirði héldu nýlega tombólu til að styrkja fátæk börn í Afríku.
Vilt þú verða leiðbeinandi í skyndihjálp?
Almennar fréttir 14. október 2024Rauði krossinn á Íslandi stendur fyrir leiðbeinendanámskeiði í Skyndihjálp dagana 5. - 8. mars 2025.
Opnuðu litlu Melabúðina til styrktar börnum á Gaza
Almennar fréttir 11. október 2024Vinkonurnar Matthildur Atladóttir, Laufey Hrefna Theodórsdóttir, Halldóra Guðrún Johnson og Anna Jakobína Hjaltadóttir stofnuðu litla búð fyrir utan Melabúðina og seldu alls kyns hluti til styrktar börnum á Gaza.