Alþjóðastarf
Lærði að ýmislegt sem hún taldi í lagi var það ekki
05. júní 2023
Yeimama Kallon frá Síerra Leóne útskrifaðist nýlega úr GEST, jafnréttisskóla GRÓ. Hún segir að námið hafa verið krefjandi og upplýsandi og muni hjálpa henni mikið við að styðja við jafnréttisverkefni í heimalandi sínu.
Yeimama Kallon er frá Síerra Leóne og vinnur sem deildarstjóri héraðsdeildar Rauða krossins þar í landi. Í byrjun árs kom hún hingað til lands til að ganga í Jafnréttisskóla GRÓ, sem ber heitið GEST, en það stendur fyrir Gender Equality Studies & Training Programme og skólinn hefur það hlutverk að stuðla að kynjajafnrétti, valdeflingu kvenna og félagslegu réttlæti.
GRÓ býður upp þetta nám þar sem það hefur það hlutverk að efla getu einstaklinga, samtaka og stofnana í þróunarlöndum og löndum þar sem átök standa yfir eða eru nýlega afstaðin til að ná þeim niðurstöðum á sviði þróunarsamvinnu sem sett eru fram í heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun.
Yeimama segir að það séu aðallega tvær ástæður fyrir því að yfirmenn hennar og hún ákvaðu að sækja um að fara í þetta nám, en það er í raun Rauði krossinn í Síerra Leóne sem sótti um og skuldbindur sig til að veita Yeimama leyfi og styðja störf hennar í framhaldinu.
„Annars vegar til að valdefla starfsfólk Rauða krossins í Síerra Leóne og hins vegar til að efla vinnu þeirra í þágu jafnréttis þar í landi,“ segir hún. „Í Síerra Leóne voru nýlega sett lög sem fyrirskipa að 30% af starfsfólki og sjálfboðaliðum eigi að vera konur og samkvæmt SÞ er heimaland mitt sérlega aftarlega á merinni þegar kemur að kynjajafnrétti. En við erum að vinna að því að bæta þetta og því sendi Rauði krossinn í Síerra Leóne mig hingað í þetta nám.“
Yeimama segir að námið hafi reynt á en að hún hafi lært mikið og haft gaman af því.
„Það var gagnlegt að vinna með fulltrúum frá 16 ólíkum löndum og læra um hvernig þeir gera hlutina,“ segir hún. „Það var líka mjög upplýsandi að læra hvers vegna ýmislegt sem maður taldi áður vera í lagi er það í raun ekki.“
Mikil þörf á að styrkja stöðu kvenna
Í náminu vann Yeimama að verkefnatillögu að verkefni til að auka þátttöku kvenna í ákvarðanatöku í heimalandi sínu.
„Í Síerra Leóne búa 8 milljónir og konur eru 51% íbúa, en þær eru samt í minnihluta þegar kemur að stjórnunarstöðum, hvort sem um er að ræða í grasrótinni eða á æðstu stigum stjórnvalda,“ segir hún. „Verkefnið er að nýta ýmsar ólíkar leiðir til að fá konur til að taka þátt, byggja upp hæfni, sigrast á takmarkaðri menntun, skorti á úrræðum og fyrirmyndum. Það þarf líka að vekja athygli á því að konur geti haft ýmsa hæfni þrátt fyrir að hafa ekki formlega menntun og skapa aðstæður og sinna málsvarastarfi til að gera þeim kleift að stíga inn í þessi rými. Þetta starf mun meðal annars fara fram í gegnum ungmennastarf og skólaklúbba og verður bæði beint að strákum og stelpum, enda þurfum við karlmenn sem bandamenn.
Námið í jafnréttisskólanum mun hjálpa mér í framhaldinu. Sem kona, í þeirri stöðu sem ég er, veit ég hvað þurfti til til þess að komast á þennan stað. Í þessari vinnu verð ég sjálf fyrirmynd og mun styrkja þau jafnréttisverkefni sem eru þegar til staðar. Ég mun einnig deila minni þekkingu og reynslu með öðrum samtökum sem og Rauða krossinum í Síerra Leóne í heild, svo hægt sé að nýta þessa þekkingu og reynslu sem mest og sinna jafnréttismálum með sem bestum hætti.“
Verkefni skila augljósum árangri
Rauði krossinn á Íslandi styður nokkur verkefni Rauða krossins í Síerra Leóne.
„Við erum að gera brunna til að bæta aðgengi fólks að hreinu vatni og styðja við hópa sem standa að sameiginlegum sparnaðar og lánasjóðum, en þeim er líka fylgt eftir til að ganga úr skugga um að þeir hafi hlotið næga þjálfun. Við bjóðum einnig fræðslu og aðstoð við tíðablæðingar og hreinlæti og erum að þjálfa stúlkur í að sækja sér heilbrigðisþjónustu ef eitthvað kemur fyrir þær eða börn þeirra í stað þess að nota hefðbundnar aðferðir,“ útskýrir Yeimama. „Við erum líka að kenna stúlkum hvernig þær sjá um sig sjálfar og gefa þeim fjármagn til að reka örfyrirtæki og auka hæfni sína. Auk þess hjálpum við þeim að halda utan um sjóði fyrir neyðarfæðingarhjálp fyrir barnshafandi konur sem þurfa fjárhagsaðstoð til að sækja sér heilbrigðisþjónustu.
Ég kann að meta að það sé ekki verið að einblína á einn þátt í verkefnum okkar, heldur reynt að leysa ýmis ólík vandamál á sama tíma. Samfélögin kunna líka að meta þetta og breytingarnar eru augljósar,“ segir Yeimama. „Hreinlætið er meira og fólk er til dæmis hætt að þurrka föt á jörðinni, sem getur valdið húðvandamálum og hætt að þurrka diska á jörðinni þar sem moskítóflugur geta fjölgað sér í litlum pollum.“
Að lokum vill Yeimama segja að Rauði krossinn sé fjölskylda sem allir séu velkomnir í og enn sé mikið verk fyrir höndum í þágu mannúðar.
„Við getum þetta ekki án hjálpar og allir geta orðið sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðar njóta þeirra forréttinda að fá að styðja við og skapa breytingar í samfélögum sínum og þannig fá þeir að fylgjast með hvernig Rauði krossinn gerir meira og meira með degi hverjum,“ segir hún að lokum.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.