Alþjóðastarf
Kynnist fólki og menningu alls staðar að
05. júlí 2023
Kolbrún Þorsteinsdóttir kom nýlega heim frá Suður-Súdan, þar sem hún var sendifulltrúi fyrir Rauða krossinn á Íslandi. Þetta er hennar þriðja ferð sem sendifulltrúi og hún segir að það sem standi upp úr eftir slíkar ferðir sé alltaf fólkið sem hún fær að kynnast.
„Ég fór til borgarinnar Juba og var þar í tvo mánuði, en ég hef áður farið til Bangladess og Jemen. Það sem var ólíkt í þessari ferð var hversu mikið frelsi ég hafði í Suður-Súdan, miðað við hina staðina,“ segir hún. „Bangladess bauð svo sem upp á frelsi, en ég var á tjaldsjúkrahúsi úti í sveit svo það var lítið hægt að gera og í Jemen var allt lokað, bæði vegna vopnaðra átaka og Covid. Í Súdan brutust reyndar út átök nokkrum dögum eftir að ég fór út, en það hafði sem betur fer engin áhrif á mín störf.“
Kolbrún segir að hugmyndin um að fara til annarra landa til að hjálpa hafi blundað í henni frá því að hún var barn og að hún hafi strax tíu ára lýst yfir áhuga á að vinna að vinna sem barnalæknir í Afríku. „Í dag er ég hjúkrunarfræðingur, en vinn reyndar ekki með börnum,“ segir hún.
Öflugur stuðningur við innviði
Í Suður-Súdan starfaði Kolbrún með Alþjóðaráði Rauða krossins, en það veitir sjúkrahúsunum í Suður-Súdan alhliða stuðning í formi fjármagns, tækja, lyfja og þjálfunar starfsfólks. Starfsfólk fær meðal annars þjálfun í skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum, barnalækningum, áfallahjálp, meðferðum fyrir þolendur nauðgana og meðferðum við HIV/alnæmi og berklum. Þetta er gert til að tryggja að læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sjúkrahúsanna get sinnt starfi sínu í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla.
„Ég vann á hersjúkrahúsinu í Juba, en sjúkrahúsið sérhæfir sig í að sinna fólki sem hefur særst af völdum vopna. Við vorum með sér deild og sjúklinga og fengum svo aðstoð frá almennu starfsfólki sjúkrahússins,“ útskýrir Kolbrún. „Það er spenna á ákveðnum svæðum í landinu og starf mitt snerist fyrst og fremst um að veita fólki sem særðist í átökum um nautgripi heilbrigðisþjónustu. En deilur um búfénað og takmarkaðar auðlindir eru viðvarandi víða í landinu og leiða oft til alvarlegra áverka, meðal annars vegna mikillar útbreiðslu vopna.
Í Suður-Súdan eru innviðir ekki fullþróaðir, enda er landið fátækt og mjög nýtt, en það hefur bara verið til síðan 2011. Alþjóðaráð Rauða krossins er því að styðja við helstu innviði af mannúðarástæðum,“ segir Kolbrún. „Lönd eru misjafnlega í stakk búin til að halda uppi öflugum innviðum og alls kyns áskoranir geta reynt svo á innviði að lönd sem alla jafna standa undir álaginu lenda í vandræðum. Í slíkum aðstæðum er gott að sendifulltrúar geti stokkið inn og brugðist við. Við á Íslandi gætum líka alveg lent í þeirri stöðu ef það yrðu alvarlegar náttúruhamfarir, þá gæti til dæmis vantað fleira fólk.“
Gefandi og hentar henni
„Það sem stendur upp úr eftir svona ferðir er alltaf fólkið. Vinnan er svo sem alltaf eins, en maður fær að kynnast fólki og menningu alls staðar að úr heiminum og vinna með alls konar mismunandi fólki, bæði innlendu starfsfólki og öðrum sendifulltrúum sem koma frá mjög mismunandi löndum,“ segir Kolbrún. „Það hafa líka ekki allir tækifæri til að fara út sem sendifulltrúi, en það er auðvelt fyrir mig. Það hentar mínu lífi og mér finnst þetta ekki mikið mál. Fyrst ég hef bæði getu og tækifæri til að gera þetta finnst mér mjög gott að nýta það. Einhver þarf að gera þetta og það liggur vel við mér. Ég er ekki að fara að bjarga heiminum, en það getur verið að ég geti haft jákvæð áhrif á nokkra og það er bara rosalega gott.“
Kolbrún segir að lokum að hún myndi glöð fara aftur út sem sendifulltrúi ef hún fær kallið á ný.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.