Alþjóðastarf
Íslenskur skurðhjúkrunarfræðingur snýr aftur frá Gaza
30. janúar 2024
Skurðhjúkrunarfræðingurinn Elín Jakobína Oddsdóttir hefur starfað fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins á European Gaza Hospital síðustu sex vikurnar, en er nú komin aftur til Íslands.
Um miðbik desember hóf skurðhjúkrunarfræðingurinn Elín Jakobína Oddsdóttir störf á European Gaza Hospital í Rafah. Elín starfaði með skurðlækningateymi Alþjóðaráðs Rauða krossins á Gaza í sex vikur.
Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sinnt mikilvægu mannúðarstarfi á Gaza í samvinnu við palestínska Rauða hálfmánann síðan árið 1967. Alþjóðaráðið reynir eftir fremsta megni að veita íbúum Gaza mannúðaraðstoð í yfirstandandi átökum, meðal annars með aðgangi að vatni, rafmagni og hreinlætisvörum, en sérstök áhersla er lögð á heilbrigðisþjónustu.
Sinnti lífsnauðsynlegum skurðaðgerðum
Starf Elínar á vegum Alþjóðaráðsins var að sinna alvarlega særðum einstaklingum sem þurftu á lífsnauðsynlegum skurðaðgerðum að halda, þar á meðal börnum. Sjúkrahúsið er eitt af fáum sem enn eru starfhæf á Gaza, svo mikið hefur mætt á Elínu, en gífurlega margir hafa særst og látist í átökunum síðustu mánuði á Gaza.
Sjötta ferðin á vegum Rauða krossins
Þetta er ekki fyrsta vettvangsferð Elínar fyrir Rauða krossinn vegna vopnaðra átaka á Gaza, en árið 2014 starfaði hún einnig í skurðlækningateymi á svæðinu. Elín hefur verið á útkallslista Rauða krossins á Íslandi vegna alþjóðlegs hjálparstarfs síðan árið 2010 og hefur síðan þá starfað á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Suður-Súdan, Afganistan, Sýrlandi, Jemen og á Haítí, ásamt Gaza.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.