Alþjóðastarf
Hungur í Sómalíu og framlag Rauða krossins
15. júlí 2022
Rauði krossinn á Íslandi hefur með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina veitt rúmlega 28 milljónum íslenskra króna til mannúðaraðgerða í Sómalíu á árinu. Þessi fjárstuðningur kemur til viðbótar við sömu fjárhæð sem veitt var í aðgerðirnar í Sómalíu í lok árs 2021. Í þessum heimshluta, hið svokallaða horn Afríku ríkir nú mikil neyð og í Sómalíu einni eru yfir 4 milljónir íbúa í brýnni þörf fyrir fæðu, auk vatns og heilbrigðisaðstoðar.
Loftslagsbreytingar og miklir þurrkar hafa eyðilagt uppskeru og drepið búfé víða og neytt næstum 700 þúsund íbúa til þess að yfirgefa heimili sín í leit að fæðu, vatni, atvinnu eða bithaga fyrir búfénað. Þrjú ár í röð hefur regntímabilið brugðist í Sómalíu og á sumum svæðum er þetta fjórða árið. Auk þurrkanna hafa aðstæður lengi verið erfiðar í Sómalíu vegna áratugalangra átaka, endurtekinna loftslagsáfalla, engisprettu- og sjúkdómafaraldra. Áhrif heimsfaraldsins COVID-19 hafa einnig haft áhrif í landinu. Ofan á þetta bætast áhrifin af átökum í Úkraínu. Hækkun eldsneytisverðs hefur áhrif um alla Afríku og þannig hefur hærra eldsneytisverðs hækkað verð á öllum matvörum.
Flutningskostnaður hefur aukist mikið á stuttum tíma. Á sama tíma og mikið hungur vofir yfir víða í Afríku beinist athygli heimsins að átökunum í Úkraínu. Það er brýnt að athyglinni sé einnig beint að fæðuöryggi íbúa víða í Afríku til að koma í veg fyrir hungursneyð sem yfirvofandi er í þessum heimshluta.
Óttast er að neyðin í tengslum við þurrkana í ár verði ein sú versta í 40 ár. Talið er að yfir 20 milljón íbúar horns Afríku muni þurfa á brýnni fæðutengdri aðstoð á næstu 12 mánuðum. Að ógleymdum þeim íbúum sem þurfa fæðuaðstoð annars staðar í álfunni. Þetta er áminning um hversu illa hefur tekist að bregðast við loftslagsbreytingum og vernda viðkvæmustu íbúa jarðar fyrir áhrifum aukinna öfga í veðurfari sem eru að raungerast víða um heim. Undanfarin 10 ár hafa 85% náttúruhamfara orsakast af atburðum tengdum öfgafullu veðri.
Sómalski Rauði hálfmáninn hefur langa reynslu af því að bregðast við neyð sem þessari. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða hálfmánans eru hluti af samfélaginu og veita dýrmæta þjónustu allt árið um kring. Rauði hálfmáninn þekkir aðstæður og þær lausnirnar sem henta svæðinu best. Þau hafa til að mynda hjálpað þúsundum fjölskyldna að endurbæta hefðbundin vatnsforðakerfi. Undanfarið ár hefur Rauði hálfmáninn með aðstoð Rauða kross hreyfingarinnar veitt yfir 650 þúsund íbúum aðstoð í Sómalíu.
Yfir 468 þúsund hafa notið góðs af bættu aðgengi að vatni og hreinlæti, 165 þúsund íbúa notið góðs af heilbrigðisþjónustu meðal annars hjá færanlegum heilsugæslum og yfir 18 þúsund íbúar hafa fengið beina fjárhagsaðstoð. Hugað er að vernd, jafnrétti og þátttöku viðkvæmra hópa í aðgerðunum, brugðist er við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem reynslan sýnir að getur aukist í slíkum neyðaraðstæðum sem nú ríkja á svæðinu. Sómalski Rauði hálfmáninn mun halda áfram að bregðast við þessari neyð íbúa á komandi mánuðum og árum.
Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við störf Sómalska Rauða hálfmánans í meira en áratug. Til fjölda ára hefur það falið í sér stuðning við færanlega heilsugæslu þar sem boðið er upp á grunnheilsugæslu og ungbarnaeftirlit fyrir börn undir fimm ára aldri, auk dreifingu orkuríkra fæðubótaefna til vannærðra. Rauði krossinn á Íslandi, í samvinnu við Kanadíska Rauða krossinn, hefur einnig unnið með Sómalska Rauða hálfmánanum að því að styrkja getu landsfélagsins í að greina mismunandi þarfir fólks í neyðarástandi og bregðast við þörfum þeirra viðkvæmust sem og að veita þeim hópum vernd og tækifæri til þátttöku í samfélaginu.
Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka öllum Mannvinum Rauða krossins fyrir stuðninginn. Stuðningur Mannvina gerir starf okkar mögulegt fyrir þolendur hungurs eða stríðsátaka.
Hægt er að gerast Mannvinur hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.