Alþjóðastarf
Heitasta ósk allra að ástandið skáni
26. júlí 2024
Hólmfríður Garðarsdóttir kom nýlega heim eftir mjög krefjandi ferð sem sendifulltrúi til Gaza, þar sem hún starfaði á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins. Hólmfríður er þrautreyndur sendifulltrúi en upplifði einar verstu aðstæður ferils síns í ferðinni.
Hjúkrunarfræðingurinn og ljósmóðirin Hólmfríður Garðarsdóttir fór sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi til Gaza 1. júní síðastliðinn og starfaði í fimm vikur á neyðarsjúkrahúsi Alþjóðaráðs Rauða krossins í borginni Rafah. Sjúkrahúsið er rekið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið í Gaza og 12 landsfélög Rauða krossins, þar á meðal Rauða krossinn á Íslandi.
„Aðalstarf mitt var að vera ljósmóðir, sinna mæðravernd og aðstoða konur í fæðingu og eftir hana ásamt þarlendum ljósmæðrum og læknum,“ segir Hólmfríður, sem oftast er kölluð Hófí. „En ég fór í margt annað þegar þörf var á. Ef það kom til dæmis fjöldi slasaðra á sjúkrahúsið í einu, sem kom nokkuð oft fyrir, þá hjálpuðumst við öll að.“
Hófi segir að ferðin til Gaza hafa verið mjög krefjandi, en hún hefur mikla reynslu sem sendifulltrúi. Í nóvember á þessu ári verða liðin 30 ár frá fyrstu ferðinni hennar.
„Síðan þá hef ég farið í yfir 20 ferðir sem sendifulltrúi. Ég hef haft mjög breiðan starfsvettvang í þessum ferðum og hef starfað bæði sem hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir, verkefnastjóri, við þarfagreiningar og fleira,“ segir hún. „Ég byrjaði að fara út sem hjúkrunarfræðingur en fann svo þörf fyrir að verða ljósmóðir því það er svo oft sem konur og börn þurfa meiri athygli og mér fannst það hæfa mér.“
Heimsækir staði sem fáir fá að sjá
„Að starfa sem sendifulltrúi er krefjandi en ég fæ að kynnast ólíkum menningarheimum, sjá lönd sem ég myndi annars aldrei sjá, vinna við ólíkar aðstæður en ég þekki hérna heima, læra nýja hluti og sjá hvernig aðrir hafa það í raun og veru,“ segir Hófí. „Ég var til dæmis í tæpt ár í Norður-Kóreu, sem var mjög ólíkt því sem ég þekki.
Ég hef verið í þeirri lúxusaðstöðu að vera að vinna hér á landi og fá svo alltaf leyfi til að fara út. Það hefur alltaf verið mikill góðvilji milli Landspítalans og Rauða krossins og spítalinn hefur alltaf sleppt mér þegar á þarf að halda,“ segir Hófí. „Það er algjörlega frábært að fá að gera þetta og ég er rosalega þakklát að hafa getað tvinnað þetta saman.
Þessar ferðir hafa bæði boðið upp á krefjandi vinnuaðstæður og reynt á fagmennskuna og aðlögunarhæfnina. Ég fæ líka að kynnast mikið af fólki, bæði skjólstæðingum og líka kollegum sem eru oft algjörar hetjur,“ segir Hófí. „Þessi reynsla gerir það að verkum að maður lærir að meta hvað maður hefur það gott, ekki síst að vera kona á Íslandi. Það býður upp á mikil forréttindi sem margar konur í ýmsum löndum búa ekki við.“
Mikil þörf fyrir neyðarsjúkrahúsið
Hófí hikaði ekkert við að fara til Gaza, þrátt fyrir að vita að hún stefndi í mjög krefjandi aðstæður. Hún stökk strax á tækifærið til að leggja hönd á plóg.
„Ég er mjög sátt við að hafa farið í mjög krefjandi en líka nauðsynlega ferð. Neyðarsjúkrahúsið var sett upp tímabundið því það er gífurleg þörf fyrir spítala á svæðinu vegna þess að svo margir spítalar eru orðnir óvirkir. Sjúkrahúsið er í tjöldum og svona sjúkrahús eru oft notuð þar sem hafa orðið hamfarir og heilbrigðiskerfið virkar ekki. Þar starfar fólk frá ýmsum Rauða kross landsfélögum og Alþjóðaráði Rauða krossins, ásamt innlendu heilbrigðisstarfsfólki sem var mjög vel menntað og veitti mjög góða þjónustu,“ útskýrir Hófí. „Spítalinn hefur 60 rúm og allt sem þarf til að reka sjúkrahús, þar á meðal líkhús, sem var því miður mikið notað. Ásamt heilbrigðisþjónustu var líka boðið upp á sálrænan stuðning. Langstærsti hluti þeirra sem komu höfðu hlotið áverka í átökum, en þarna var líka kvennadeild sem sinnti fæðingum og mæðravernd og þar starfaði ég.“
Ómannúðlegar aðstæður og gífurlegt óöryggi
„Aðstæður á Gaza eru mjög ómannúðlegar og óöryggið er gífurlegt. Nú er talið að yfir 500 heilbrigðisstarfsmenn hafi látið lífið frá því að átökin hófust í október. Þetta er alltof há tala. Við eigum að njóta verndar. Okkar hlutverk er að bjarga mannslífum og við eigum að fá að gera það,“ segir Hófí. „Það er áhyggjuefni að þetta sé ekki virt. Við erum svo sannarlega vel merkt.
Það kom fyrir að ég þurfi að henda mér bak við sandpoka eða undir borð og við þurfum að fylgjast mjög vel með öryggisástandinu. Allir yfirmenn voru með puttann á púlsinum og við fengum alltaf leiðbeiningar ef það var einhver hætta,“ segir Hófí. „Ég varð líka mikið vör við sprengingar, bæði frá sjó, lofti og landi. Ég vaknaði við það á nóttunni að húsið hristist. Þetta er ekki stórt svæði og ég varð mjög mikið vör við þetta. En mér fannst ég samt ekki óörugg. Ég fann að allir fylgdust vel með og það var mikil áhersla lögð á öryggi okkar, sem skipti mig miklu máli.“
Mikið af mjög illa förnum sjúklingum
„Ég hef upplifað átök í Sýrlandi, Írak, austurhluta Úkraínu og Afganistan, en þetta er með því allra versta sem ég hef upplifað. Nokkuð oft kom mikill fjöldi slasaðra í einu, sem gat verið mjög krefjandi, og þá hjálpuðust allir að. Fólk var oft mjög mikið slasað og illa farið og stundum var fólk við það að deyja eða dáið, því miður,“ segir Hófí. „Í þessu starfi fór maður mikið í grasrótina í starfi Rauða krossins og uppruna hreyfingarinnar, sem snerist til að byrja með um að aðstoða fólk sem hafði særst í átökum, óháð því hver þau væru. Ég held að þessi gildi sem við stöndum fyrir hafi sennilega aldrei verið mikilvægari.
Það tók auðvitað á þegar það var ekki hægt að bjarga fólki og líka þegar fjölskyldan kom svo að leita að sínu fólki. Það var mikið af konum, börnum og ungum mönnum sem urðu fyrir barðinu á átökunum og það sló mig hvað þetta var allt tilgangslaust,“ segir Hófí. „Svo eru náttúrulega margir sem hljóta varanlegt örkuml og það er skortur á sérfræðihjálp.
Það hefur auðvitað líka andlegar afleiðingar fyrir fólk að vera í þessu umhverfi og ég dáðist oft að því hvað það var ótrúleg seigla bæði hjá starfsfólkinu og konunum sem ég hitti,“ segir Hófí. „Fólk sagði stundum að það væri í afneitun og alltaf að bíða eftir að ástandið lagaðist. Það var heitasta ósk allra og það þarf að gera það sem allra fyrst.
Langtíma skortur á mat, vatni, hreinlætisaðstöðu, aðgengi að heilsugæslu og hlutum sem gefa stöðugleika, eins og skólum, hefur auðvitað rosalega afleiðingar,“ segir Hófí. „Svo býr fólk í tjöldum og er búið að flytja mjög oft og nú er mjög heitt, fólk þjáist af streitu, kvíða og jafnvel áverkum. Þegar þetta fer allt saman minnka varnir skiljanlega hjá fólki gagnvart frekari áföllum. Svo eru farsóttir núna farnar að spretta upp, sem er það sem gerist í svona aðstæðum.“
Hefur gengið vel að vinna úr upplifuninni
„Það voru ákveðin atriði í þessari upplifun sem voru mjög erfið en þá skipti mig miklu máli að vera í mjög góðu teymi. Við unnum vel saman og gátum rætt þessi mál. Við höfðum líka tækifæri til að fá sálræna fyrstu hjálp,“ segir Hófí. „Mér hefur gengið vel að vinna úr þessu en þrátt fyrir að ég hafi alla þessa reynslu var þetta stundum mjög erfitt. En það kom ekki á óvart miðað við ástandið. Það kemur sér vel að hafa góða reynslu á þessu sviði og í lífinu almennt.
Það sem stendur helst upp úr eftir þessa ferð er hvað Rauði krossinn og gildin sem við vinnum eftir skipta miklu máli. Rauði krossinn á Íslandi er lítið landsfélag en ég held að við eigum að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu á þennan hátt. Við eigum fullt af mjög góðu fólki sem getur farið sem sendifulltrúar og okkar framlag skiptir máli,“ segir Hófí að lokum.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitHéldu tombólu fyrir fátæk börn
Almennar fréttir 24. október 2024Fjórar vinkonur úr Hafnarfirði héldu nýlega tombólu til að styrkja fátæk börn í Afríku.
Vilt þú verða leiðbeinandi í skyndihjálp?
Almennar fréttir 14. október 2024Rauði krossinn á Íslandi stendur fyrir leiðbeinendanámskeiði í Skyndihjálp dagana 5. - 8. mars 2025.
Opnuðu litlu Melabúðina til styrktar börnum á Gaza
Almennar fréttir 11. október 2024Vinkonurnar Matthildur Atladóttir, Laufey Hrefna Theodórsdóttir, Halldóra Guðrún Johnson og Anna Jakobína Hjaltadóttir stofnuðu litla búð fyrir utan Melabúðina og seldu alls kyns hluti til styrktar börnum á Gaza.