Alþjóðastarf
Enn hamfaraástand í Líbíu
27. september 2023
Líbíska þjóðin stendur enn frammi fyrir gríðarlegum áskorunum vegna hamfaranna sem fylgdu storminum Daníel fyrr í mánuðinum. Rauði krossinn hefur lagt sitt af mörkum til taka þátt í neyðarviðbragðinu.
Ástandið í austurhluta Líbíu er enn mjög slæmt eftir að stormurinn Daníel skall á landinu þann 10. september, en þá fór vindhraði yfir 70 km/klst og mikil flóð urðu sem náðu sjö metra dýpt. Strandborgir í austurhluta Líbíu hafa farið hvað verst út úr hamförunum þar í landi, sérstaklega Derna, þar sem tvær stíflur brustu þann 11. september, en það leiddi til gríðarmikils flóðs.
Heilu fjölskyldurnar hafa látist og heilu hverfin skolast á haf út. Vegakerfið við ströndina er mikið skemmt og sums staðar eru engin fjarskipti. Vegna vopnaðra átaka sem áttu sér stað á svæðinu eru virkar sprengjur í og kringum borgina Derna og flóðin hafa aukið hættuna á að þær ógni almennum borgurum.
Svæðin í austurhluta landsins sem fóru hvað verst út úr hamförunum standa frammi fyrir áður óséðri mannúðarkrísu sem þarf að bregðast við með samvinnu mannúðarsamtaka og þarlendra stjórnvalda. Enn er erfitt að meta umfang neyðarinnar vegna ýmissa áskorana á hamfarasvæðunum sem gera það líka erfitt að mæta þörfum þolenda hamfaranna.
Öll líbíska þjóðin hefur hjálpast að við að flytja mat og aðrar nauðsynjar til þolenda hamfaranna. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur einnig tekið þátt í neyðarviðbragðinu með ýmsum hætti.
Stuðningur Alþjóðaráðs Rauða krossins
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur gefið næstum sex þúsund líkpoka og veitt ýmis konar tæknilegan stuðning, auk þess að senda matvæli, lyf og aðrar nauðsynjar til þolenda hamfaranna.
Þessa dagana einbeitir ICRC sér að því að veita þeim fjölskyldum sem hafa orðið hvað verst úti í hamförunum neyðaraðstoð og er að veita yfir 6.250 fjölskyldum nauðsynleg búsáhöld og helstu hreinlætisvörur og 1.800 fjölskyldum mataraðstoð. ICRC veitir einnig starfsfólki og sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans í Líbíu þjálfun í notkun neyðarbúnaðar sem það gaf til að tryggja hreint drykkjarvatn og almennt hreinlæti.
ICRC styður einnig við heilbrigðisþjónustuna á heilsugæslum og spítölum sem urðu fyrir skemmdum í flóðunum og hefur unnið náið með Rauða hálfmánanum í Líbíu við að leita að þeim sem týndust. Fólk á skilið að fá svör og hver klukkustund sem líður þar sem þau lifa í óvissu um ástvini sína eykur á þjáningu þeirra. Alþjóðaráðið hefur meðal annars sent sérfræðinga til landsins til að hjálpa til við að bera kennsl á hina látnu til að styðja þetta starf.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitGísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Almennar fréttir 04. febrúar 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.
Rauði krossinn við Eyjafjörð leggur 2 milljónir til neyðarsöfnunar fyrir Gaza
Almennar fréttir 29. janúar 2025Í tilefni af 100 ára afmæli Rauða krossins við Eyjafjörð hefur stjórn deildarinnar ákveðið að leggja 2 milljónir króna til neyðarsöfnunarinnar. Með þessu vill deildin sýna samhug og stuðning við þá sem þurfa á hjálp að halda á þessum erfiðu tímum.
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar styrkir Frú Ragnheiði um 1.300.000 krónur
Almennar fréttir 24. janúar 2025Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins afhenti nýverið skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, styrk að andvirði 1.300.000 króna. Upphæðin er afrakstur sölu á jólabasar kvennadeildarinnar, auk handverks sem framleitt var af Prjónahópnum og selt í sölubúðum á Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvogi.