Alþjóðastarf
Eitt af ár auknum átökum Rússlands og Úkraínu
24. febrúar 2023
Fyrir einu ári hófst nýr kafli í átökum Rússlands og Úkraínu. Þau vopnuðu átök sem hafa staðið yfir síðastliðið ár hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu og mannfalli. Rauði krossinn hefur reynt að lina þjáningar þolenda átakanna frá fyrsta degi.
- Eyðilegging síðustu 12 mánaða hefur haft áhrif á alla þætti í lífi milljóna einstaklinga. Mörg geta ekki snúið aftur heim og þau sem eru enn í landinu standa frammi fyrir afar erfiðum aðstæðum og hafa takmarkað aðgengi að vatni, hita, heilbrigðisþjónustu og annarri nauðsynlegri þjónustu. Vetrarkuldinn gerir daglegt líf líka enn erfiðara. Rauði krossinn í Úkraínu og samstarfsaðilar hans standa með samfélögum og veita mikilvæga aðstoð, allt frá leitar- og björgunarstörfum og læknisaðstoð til húsaskjóls og fjárhagsaðstoðar.
- Nú þegar annað árið af þessum erfiðu átökum er að ganga í garð eru áhrifin á geðheilsu fólks, bæði innan og utan Úkraínu, að aukast. Alþjóðahreyfing landsfélaga Rauða krossins í Evrópu stendur nú fyrir stærsta átaki í þágu bættrar geðheilsu í sögu sinni þar sem milljónir eiga í erfiðleikum með að takast á við angistina og streituna sem fylgir þessari krísu. Sérþjálfaðir sjálfboðaliðar og starfsfólk í Úkraínu og um alla Evrópu veitir geðheilbrigðisaðstoð og sálfélagslegan stuðning en við vitum að þessi þörf heldur áfram að aukast og verður til staðar árum saman.
- Þetta hefur sannarlega verið alþjóðlegt viðbragð hjá Alþjóðahreyfingu landsfélaga Rauða krossins, en yfir 50 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafa aukið við starfsemi sína til að styðja fólk sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna átakanna í Úkraínu. Við náðum til milljóna einstaklinga á fyrstu mánuðunum og komum til skila því sem fólk þurfti mest á að halda - reiðufé, hjálpargögnum, skyndihjálp og heilbrigðisþjónustu. Vinnan heldur áfram samhliða því að sífellt fleiri flytja sig um set innan landamæra og yfir þau og þurfa að taka erfiðar ákvarðanir í nýjum menningarheimum, tungumálum og samfélögum sem hafa tekið á móti þeim.
- Milljónir munu áfram þurfa aðstoð, þar á meðal húsaskjól, reiðufé, heilbrigðisþjónustu og stuðning við að koma sér fyrir í nýju landi eða innan Úkraínu. Alþjóðhreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans verður til staðar til að veita stuðning en við getum ekki gert þetta ein – þörf er á meira af stöðugum stuðningi til að halda áfram. Örlæti þeirra sem styðja starf okkar hefur gert okkur kleift að ná til milljóna með mikilvægri aðstoð í Úkraínu og um alla álfuna, en þetta er langtímakrísa með síauknum og síbreytilegum þörfum. Við þurfum áframhaldandi stuðning til að viðhalda viðbragði okkar og styrkja það.
- Það hafa verið tugir árása á heilbrigðisstofnanir, hjálparstarfsmenn og almenna borgara síðan í febrúar 2022 og starfsmenn Rauða krossins hafa verið myrtir við störf sín. Þessar árásir eru brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og því miður halda þær áfram og setja hjálpar- og heilbrigðisstarfsmenn í alvarlega hættu. Þær eru hrottaleg áminning um áhættuna sem sjálfboðaliðar okkar og starfsfólk taka á hverjum degi til að þjóna samfélögum og við fordæmum þessar áframhaldandi árásir eftir fremsta megni.
- Áhrifa átakanna gætir langt út fyrir Úkraínu og það mun halda áfram. Vaxandi efnahagsþrýstingur um Evrópu og heim allan skapar auknar þarfir fyrir mannúðaraðstoð í mörgum löndum, sérstaklega þeim sem hýsa fjölda flóttamanna. Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinnur í samfélögum um allan heim til að tryggir að fólk sem þarf aukinn stuðning fái þá aðstoð, hver og hvar sem þau eru.
- Úkraína er einn mengaðasti vígvöllur heims, ásamt Afganistan og Sýrlandi. Áhrifin af jarðsprengjum á fólk sem býr á, er að snúa aftur á eða fara í gegnum menguð svæði munu vara árum saman. Einfaldir og hversdagslegir hlutir eins og að gróðursetja í garðinum, leikur barna utandyra eða að ganga út af ómalbikuðum vegi geta falið í sér lífshættulega áhættu.
- Það er mikilvægt að sú ótrúlega samstaða sem sýnd er í Evrópu og um allan heim haldi áfram á meðan átökin halda áfram. Lönd sem taka við flóttafólki og samfélög þeirra hafa stigið inn til að veita fólki frá Úkraínu aukinn stuðning og bjóða upp á öryggi og vernd. Þar sem ekki sér fyrir endann á átökunum er mikilvægt að við heiðrum framlag þessara samfélaga og tryggjum að stuðningur við þau og flóttafólk haldi áfram. Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans veitir flóttamönnum og fjölskyldum sem taka á móti þeim fjárhagslegan stuðning, tungumálakennslu, starfsþjálfun og barnagæslu til að hjálpa fólki sem hefur flúið að finna ný atvinnutækifæri og endurheimta fjárhagslegt sjálfstæði.
- Nokkrar tölur: Frá upphafi átakanna til loka ársins 2022 náði Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans og Alþjóðaráð Rauða krossins saman að veita um 14,5 milljónum einstaklinga grunnaðstoð og bæta aðgengi um 10,5 milljóna að hreinu vatni. Um 1,2 milljónir hafa fengið fjárhagsaðstoð og um 31 milljarður króna hefur verið gefinn sem fjárhagsstuðningur. Fjögur þúsund manns hafa fengið upplýsingar um týnda ástvini, 15 þúsund manns sem hafa verið hneppt í varðhald í tengslum við átökin hafa fengið heimsóknir og um tvær milljónir hafa fengið húsaskjól. Alls hafa tæplega 125 þúsund sjálfboðaliðar frá 58 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans tekið þátt í þessu starfi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.