Alþjóðastarf

Bráðaliðar drepnir við störf sín

31. mars 2025

Í sautján mánuði hafa bráðaliðar og aðrir viðbragðsaðilar á Gaza þurft að bregðast við ólýsanlegum þjáningum fólks.

Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) segir svívirðilegt að átta bráðaliðar á vegum palestínska Rauða hálfmánans (PRCS), auk starfsmanna almannavarna á Gaza og Sameinuðu þjóðanna, hafi verið drepnir við störf sín á svæðinu. Kennsl voru borin á líkamsleifar fólksins í gær, sunnudag. „Þetta starfsfólk og sjálfboðaliðar voru að hætta lífi sínu til að aðstoða aðra,“ segir í yfirlýsingu ICRC. „Við erum harmi slegin og syrgjum ásamt fjölskyldum þeirra, ástvinum og samstarfsfólki.“

Sjálfboðaliðar palestínska Rauða hálfmánans koma saman til að kveðja félaga sína sem voru drepnir við störf sín. Mynd: PRCS

Þann 23. mars voru sjálfboðaliðar palestínska Rauða hálfmánans að sækja sært fólk þegar samband við þá rofnaði. Síðan þá hefur ICRC átt í reglulegum samskiptum við PRCS sem og aðila í átökunum og óskað eftir aðgengi til að finna sjálfboðaliðana.

Í sautján mánuði hafa bráðaliðar og aðrir viðbragðsaðilar á Gaza þurft að bregðast við ólýsanlegum þjáningum fólks. ICRC segir hrikalegt hversu margt heilbrigðisstarfsfólk hafi verið drepið. „ICRC fordæmir harðlega árásir á heilbrigðisstarfsfólk,“ segir í yfirlýsingunni. „Dauði hvers einasta hjálparstarfsmanns og heilbrigðisstarfsmanns er harmleikur fyrir fjölskyldur þeirra og samfélag og sker á lífsnauðsynlega björgunarlínu fyrir særða og sjúka.“ ICRC ítrekar ákall sitt um að allar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar til að skýra örlög þeirra einstaklinga sem enn er saknað.

Heilbrigðis- og hjálparstarfsfólk gegnir mikilvægu hlutverki í viðbrögðum við neyðarástandi. Það verður að vera öruggt við störf sín. „Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Heilbrigðisstarfsfólk, sjúkrabíla, hjálparstarfsfólk og almannavarnasamtök skal virða og vernda. Það er stranglega bannað að ráðast á þau eða hindra för þeirra. Grípa verður til allra mögulegra ráðstafana til að tryggja öryggi þeirra,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins, ICRC.