Alþjóðastarf

Aðgerðir Rauða krossins og Rauða hálfmánans á heimsvísu gegn COVID-19

11. mars 2020

Rauði krossinn á Íslandi ákvað í dag, með dyggilegum stuðningi utanríkisráðuneytisins, að veita tæpum 28 milljónum til aðgerða Alþjóða Rauða krossins í baráttunni við COVID-19 vírusinn í Afríku og Mið-austurlöndum.

Rauði krossinn á Íslandi ákvað í dag, með dyggilegum stuðningi utanríkisráðuneytisins, að veita tæpum 28 milljónum til aðgerða Alþjóða Rauða krossins í baráttunni við COVID-19 vírusinn í Afríku og Mið-austurlöndum.

Aðgerðir Alþjóða Rauða krossins miða að því að draga úr áhrifum COVID-19 faraldursins á heilsufar og velferð ásamt því að draga úr þeim neikvæðu félagslegu áhrifum sem faraldurinn getur haft á einstaklinga og samfélög. Í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld í hverju landi einblínir Rauða kross hreyfingin á fjölþættar aðgerðir sem draga úr útbreiðslu og efla viðbrögð stjórnvalda og almennings þar sem staðfest smit hafa komið upp.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir að aðgerðir Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafi mikið að segja við að ná tökum á útbreiðslu COVID-19. Hér á Íslandi gegni Rauði krossinn veigamiklu hlutverki og sömu sögu má segja um fjölmörg önnur Rauða kross félög sem hafa jafnvel enn veigameira hlutverki að gegna, ekki síst í allra fátækustu ríkjunum þar sem almenn heilbrigðisþjónusta er af mjög skornum skammti og innviðir almennt ekki sterkir.

„Það sem skiptir máli er að ná að hægja á og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á heimsvísu“, segir Kristín „Á Íslandi hafa almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld stigið mjög ákveðið fram og unnið gott starf svo eftir því er tekið annars staðar. En á sama tíma og við gerum okkar besta hér á landi verðum við að rétta systrum okkar og bræðrum annars staðar hjálparhönd svo að heimurinn geti kveðið niður COVID-19 með samhentu átaki og með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins leggjum við okkar af mörkum.“

Kristín bendir á að hver og einn hafi hlutverki að gegna við að hefta útbreiðslu sem felist ekki í síst í því að huga að eigin öryggi með því að fylgja ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda, s.s. með auknum og vönduðum handþvotti. Á tímum sem þessum eru ýmsar sögusagnir og rangar upplýsingar sem fara um eins og eldur í sinu. Hluti af aðgerðum Rauða krossins hérlendis og erlendis er að kveða slíkar sögusagnir í kútinn sem oft stuðla að fordómum gagnvart tilteknum hópum samfélaga. Hér á Íslandi sem og annars staðar skiptir höfuðmáli að almenningur sé meðvitaður og taki virkan þátt i aðgerðum yfirvalda til að sporna við útbreiðslu. Margir eru kvíðnir og jafnvel óttaslegnir en með samstilltu átaki, markvissum aðgerðum og sálrænum stuðningi má draga úr áhyggjum og virkja fólk í baráttunni gegn veirunni.”