Alþjóðastarf
30 milljónir til hjálparstarfs í Marokkó og Líbíu
26. október 2023
Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu í september síðastliðnum er lokið. Félagið sendir 30 milljónir kr. til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf.
Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu er lokið. Félagið sendir alls 30 milljónir króna til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf vegna hamfara sem urðu í þessum tveimur löndum með örfárra daga millibili í september síðastliðnum. Í Marokkó varð öflugur jarðskjálfti þann 8. september og í Líbíu varð gríðarlegt flóð þann 11. september. Báðir þessir atburðir urðu þúsundum einstaklinga að bana og gerðu mikinn fjölda fólks heimilislaust.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó og Líbíu hafa frá upphafi neyðar á hvorum stað veitt mikilvæga neyðaraðstoð. Þau hafa meðal annars aðstoðað við að rýma hættusvæði, flutt særða á sjúkrahús og veitt fyrstu hjálp og sálrænan stuðning í samvinnu við yfirvöld á hverjum stað. Í framhaldinu hafa þau dreift nauðsynjavörum sem veita skjól og hreinlæti og haldið áfram að veita sálfélagslegan stuðning fyrir íbúa á vergangi.
Á báðum stöðum er nú þörf á gríðarlegri endurbyggingu. Það þarf að endurbyggja heimili, samfélög og líf fólks eftir þessar stórfelldu hamfarir og hjálpa fólki að vinna úr áföllunum sem þeim fylgja. Rauða kross hreyfingin vinnur nú hörðum höndum að þessu verkefni, en það mun taka langan tíma.
Rauði krossinn vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í neyðarsöfnuninni kærlega fyrir stuðninginn. Með hjálp ykkar og Mannvina Rauða krossins, sem og stuðningi utanríkisráðuneytisins, getum við stutt viðbrögð Rauða kross hreyfingarinnar í Marokkó og Líbíu.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitGísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Almennar fréttir 04. febrúar 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.
Rauði krossinn við Eyjafjörð leggur 2 milljónir til neyðarsöfnunar fyrir Gaza
Almennar fréttir 29. janúar 2025Í tilefni af 100 ára afmæli Rauða krossins við Eyjafjörð hefur stjórn deildarinnar ákveðið að leggja 2 milljónir króna til neyðarsöfnunarinnar. Með þessu vill deildin sýna samhug og stuðning við þá sem þurfa á hjálp að halda á þessum erfiðu tímum.
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar styrkir Frú Ragnheiði um 1.300.000 krónur
Almennar fréttir 24. janúar 2025Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins afhenti nýverið skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, styrk að andvirði 1.300.000 króna. Upphæðin er afrakstur sölu á jólabasar kvennadeildarinnar, auk handverks sem framleitt var af Prjónahópnum og selt í sölubúðum á Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvogi.