Alþjóðastarf
30 milljónir til hjálparstarfs í Marokkó og Líbíu
26. október 2023
Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu í september síðastliðnum er lokið. Félagið sendir 30 milljónir kr. til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf.

Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu er lokið. Félagið sendir alls 30 milljónir króna til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf vegna hamfara sem urðu í þessum tveimur löndum með örfárra daga millibili í september síðastliðnum. Í Marokkó varð öflugur jarðskjálfti þann 8. september og í Líbíu varð gríðarlegt flóð þann 11. september. Báðir þessir atburðir urðu þúsundum einstaklinga að bana og gerðu mikinn fjölda fólks heimilislaust.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó og Líbíu hafa frá upphafi neyðar á hvorum stað veitt mikilvæga neyðaraðstoð. Þau hafa meðal annars aðstoðað við að rýma hættusvæði, flutt særða á sjúkrahús og veitt fyrstu hjálp og sálrænan stuðning í samvinnu við yfirvöld á hverjum stað. Í framhaldinu hafa þau dreift nauðsynjavörum sem veita skjól og hreinlæti og haldið áfram að veita sálfélagslegan stuðning fyrir íbúa á vergangi.
Á báðum stöðum er nú þörf á gríðarlegri endurbyggingu. Það þarf að endurbyggja heimili, samfélög og líf fólks eftir þessar stórfelldu hamfarir og hjálpa fólki að vinna úr áföllunum sem þeim fylgja. Rauða kross hreyfingin vinnur nú hörðum höndum að þessu verkefni, en það mun taka langan tíma.
Rauði krossinn vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í neyðarsöfnuninni kærlega fyrir stuðninginn. Með hjálp ykkar og Mannvina Rauða krossins, sem og stuðningi utanríkisráðuneytisins, getum við stutt viðbrögð Rauða kross hreyfingarinnar í Marokkó og Líbíu.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
Almennar fréttir 28. mars 2025Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.

Efla seiglu með fræðslu og stuðningi
Innanlandsstarf 28. mars 2025Styrkur frá Rio Tinto hefur gert Rauða krossinum kleift að veita Grindvíkingum margvíslegan félagslegan stuðning á erfiðum tímum. Áfram verður haldið að styðja við þá og aðra íbúa á Suðurnesjum.

Vanlíðan spyr ekki hvað klukkan sé
Innanlandsstarf 25. mars 2025„Samtölin eru að þyngjast og fleiri þeirra taka lengri tíma en áður,“ segir Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsímans 1717 sem Rauði krossinn rekur. Brýnt er að renna fleiri stoðum undir reksturinn svo halda megi þeirri lífsbjargandi þjónustu sem þar er veitt áfram allan sólarhringinn.