Almennar fréttir
Vegna fyrirhugaðra brottvísana barnafjölskyldna og annarra einstaklinga til Grikklands
04. mars 2020
Rauði krossinn mótmælir fyrirhuguðum endursendingum
Rauði krossinn á Íslandi mótmælir fyrirhuguðum brottvísunum barnafjölskyldna til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands en nú hafa a.m.k. fimm fjölskyldur fengið tilkynningu um að íslensk stjórnvöld muni flytja þau til Grikklands á næstu dögum og vikum. Á sama tíma berast fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhaf, t.a.m. drukknun ungs drengs þegar hann og fjölskylda hans fóru yfir hafið frá Tyrklandi á ótryggum bát. Þá er afar viðkvæmt ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands þar sem fréttir herma að um 13.000 flóttamenn bíði inngöngu. Þá berast einnig fregnir af harðræði grísku lögreglunnar og öðrum yfirvöldum og að fólki sé meinað inngöngu. Mikil ólga og andúð fólks í Grikklandi á flóttafólki er einnig áberandi í fjölmiðlum sem ætla má að fari aðeins vaxandi.
Á undanförnum vikum og mánuðum hafa margir umsækjendur um alþjóðlega vernd, bæði einstaklingar og barnafjölskyldur fengið synjun um efnismeðferð frá íslenskum stjórnvöldum og ákveðið að þau skulu send aftur til Grikklands. Sú staðreynd að ekkert barn hefur, enn sem komið er, verið sent til Grikklands hefur aðeins verið vegna þess að fjölskyldurnar hafa fallið á tímafrestum og mál þeirra tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi, eða mál þeirra endurupptekið af öðrum ástæðum, en ekki vegna þess að stjórnvöld hafi ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að senda fólk til Grikklands.
Rauði krossinn á Íslandi hefur ítrekað bent á að aðstæður þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Grikklandi séu síst skárri en þeirra sem enn hafa umsókn sína til meðferðar þar í landi. Er það sjónarmið stutt af alþjóðlegum skýrslum og frásögnum aðila sem starfað hafa fyrir alþjóðleg hjálparsamtök í Grikklandi, líkt og fram kom í umfjöllun RÚV í fréttaskýringaþættinum Kveik 4. febrúar sl. Þrátt fyrir það bendir settur forstjóri Útlendingastofnunar, og nú síðast dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær, á að þeir sem hlotið hafa vernd í Grikklandi hafi sambærileg lagaleg réttindi og þeir sem fá vernd í öðrum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt að flóttafólk verður fyrir fjölmörgum hindrunum og er í einhverjum tilfellum gert ómögulegt að sækja sér umrædd lagaleg réttindi í Grikklandi. Rauði krossinn mótmælir því að íslensk stjórnvöld meti það sem svo að nægilegt sé að réttindi séu til staðar í orði, þegar þau eru það sannarlega ekki á borði.
Rauði krossinn á Íslandi ítrekar fyrri tilmæli sín til hérlendra stjórnvalda og hvetur eindregið ríkisstjórn Íslands til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk og í ljósi frétta af ástandinu í Grikklandi sl. daga er ljóst að stjórnvöldum er enn síður stætt á að senda í fyrsta sinn börn og foreldra þeirra í aðstæður sem þessar. Fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk og það er ljóst að endursending þess til Grikklands við þessar aðstæður er til þess fallið að það fái ekki notið þeirra.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.