Almennar fréttir
Veglegur styrkur til Hjálparsímans
19. nóvember 2020
Líknarsjóður Ögnu og Halldórs Jónssonar veitti 5 milljón króna styrk til Hjálparsímans 1717.
Í gær tók Hjálparsími Rauða krossins 1717 á móti veglegum styrk úr líknarsjóði Ögnu og Halldórs Jónssonar.
Halldór Jónsson ehf fagnra 65 ára afmæli í ár. Af því tilefni, ásamt fordæmalausu ástandi í þjóðfélaginu, hefur stjórn sjóðsins ákveðið að veita Hjálparsíma Rauða krossins 1717 fimm milljón króna styrk en auk þess hljóta eftirtaldir aðilar einnig styrk:
- Bjarkarhlíð
- Kvennaathvarfið
- Píeta samtökin
- Bergið
Halldór Jónsson var fæddur á Kirkjubæ í Hróarstungu þann 16 janúar 1916. Halldór hafði mikinn áhuga á heilbrigðismálum og lét ýmis mannúðarmál til sín taka. Hann bar mjög fyrir brjósti gengi Hjartaverndar og stóð m.a. fyrir kaupum á mikilvægum rannsóknartækjum fyrir hjartasjúklinga. Halldór lést þann 23 febrúar 1977, þá aðeins 61 árs að aldri.
Agna var fædd í bænum Hee (skammt frá Rinköbing) í Danmörku þann 29 nóvember 1915. Hún fór ung til Kaupmannahafnar og útskrifaðist frá hinu fræga smurbrauðsfyrirtæki Oscar Davidsen. Haustið 1945 vildu hún fara að skoða heiminn og byrjaði á Íslandi. Á sumrin vann hún á Gamla Garði og þar kynntist hún Halldóri, sem borðaði þar er hann var við nám í Háskóla Íslands og upp frá því var ekki aftur snúið og þau gengu í hjónaband 10. janúar 1948. Agna lést þann 24 ágúst 2009.
Agna og Halldór stofnuðu fyrirtækið Halldór Jónsson hf þann 1. febrúar árið 1955. Fyrst var starfsemin til húsa að Hafnarstræti 18, en fluttist síðar inní Dugguvog og frá árinu 1988 hefur starfsemi fyrirtækisins verið að skútuvogi 11. Þau stofnuðu einnig fyrirtækið Lystadún árið 1961 og var það rekið sem dótturfélag Halldórs Jónssonar í um 40 ár eða þangað til það var selt árið 2001.
Eftir fráfall Halldórs hélt Agna ótrauð áfram og árið 1982 stofnaði hún Líknarsjóð Ögnu og Halldórs Jónssonar sem skyldi taka til starfa að henni látinni og ánafnaði hún sjóðnum allar eigur sínar. Hlutverk sjóðsins er að styrkja hvers konar líknarstarfsemi á Íslandi. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum var árið 2010 og frá þeim tíma hefur verið úthlutað samtals kr. 130 milljónum til líknarmála.
Stjórn sjóðsins skipa Kristján S. Sigmundsson, formaður, Guðrún Herdís Guðlaugsdóttir og Jón Grímsson.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan var það gleðileg stund þegar Kristján og Jón afhentu þeim Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Söndru Björk Birgisdóttur, verkefnastjóra Hjálparsímans 1717 styrkinn.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.