Almennar fréttir
Umsögn Rauða krossins um frumvarp til laga um landamæri
04. nóvember 2022
Hinn 25. október síðastliðinn sendi Rauði krossinn á Íslandi umsögn um frumvarp til laga um landamæri til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Í umsögninni gagnrýnir félagið ýmsar tillögur frumvarpshöfunda að ákvæðum er varðað geta réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og möguleika þeirra á að leggja hér fram umsóknir um alþjóðlega vernd.
Rauði krossinn gerir m.a. athugasemdir við breytingu á því fyrirkomulagi sem finna má í gildandi lögum um útlendinga nr. 80/2016 um brottvísun og endurkomubann. Lagt er til í frumvarpinu að heimild til að ákvarða brottvísun og endurkomubann verði færð frá Útlendingastofnun til lögreglunnar á landamærunum. Í ljósi þess hve verulega íþyngjandi slíkar ákvarðanir eru telur Rauði krossinn mikilvægt að meðalhófs verði alltaf gætt þegar slík ákvörðun er tekin en ákvörðun um brottvísun og endurkomubann getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Yrðu þeir þá útilokaðir frá því að geta lagt fram umsókn um vernd á Schengen svæðinu næstu tvö árin eða lengur.
Þá gagnrýnir Rauði krossinn tillögu frumvarpshöfunda um að ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt gildi ekki um ákvörðun um synjun, ógildingu eða afturköllun ferðaheimildar. Miklar kröfur eru gerðar til andmælaréttarins þegar mál varða mjög mikilvæg og persónuleg réttindi og að mati Rauða krossins getur ákvörðun um framangreint valdið því að einstaklingur geti ekki komið hingað til lands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Bendir félagið á að stjórnsýslulögin kveði á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar en ákvæði í sérlögum eiga ekki að geta gengið framar þeim nema veigamikil rök mæli með því. Að mati Rauða krossins eru ekki slík veigamikil rök til staðar sem réttlæta takmörkum á andmælaréttinum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga þegar ákvörðun er tekin um synjun, ógildingu eða afturköllun ferðaheimildar.
Jafnframt gerir Rauði krossinn alvarlegar athugasemdir við þær tillögur sem finna má í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins þar sem lögreglu er gert heimilt að frelsissvipta einstaklinga á þeim grundvelli einum að hafa komið til landsins með fölsuðum eða engum skilríkjum, þ.e. þegar þeir uppfylla ekki svokölluð komuskilyrði. Byggir félagið áhyggjur sínar á þeirri orðræðu sem höfð hefur verið uppi í samfélaginu að undanförnu um opnun lokaðra móttökubúða fyrir flóttafólk á meðan mál þeirra er til meðferðar hér á landi. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að fólk komi hingað til lands með fölsuðum eða engum skilríkjum en það getur í mörgum tilvikum verið eina leið fólks til að flýja ofsóknir og ofbeldi í heimalandi sínu. Samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland fullgilti árið 1956 skal refsingum ekki beitt gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins. Þá skulu aðildarríki samningsins ekki setja takmarkanir á ferðir flóttamanna sem koma ólöglega til landsins umfram það sem nauðsynlegt er.
Ítarlega umfjöllun Rauða krossins um frumvarp til laga um landamæri má finna í umsögn félagsins frá 25. október síðastliðnum.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.