Almennar fréttir
Tölvutækni skiptir máli!
25. nóvember 2019
Tveir sendifulltrúar voru að störfum í Síerra Leóne í nóvember að efla tölvu- og upplýsingatækni Rauða krossins þar í landi.
Sendifulltrúarnir Halldór Gíslason starfsmaður Íslandsbanka og Egill Már Ólafson starfsmaður RB – Reiknisstofu Bankanna héldu í byrjun nóvember til Sierra Leone í starfsferð sem er liður í verkefni Rauða krossins á Íslandi og Alþjóðasambands Rauða krossins (IFRC) sem nefnist: Brúun hins stafræna bils sem snýr að uppbyggingu upplýsinga- og samskiptatæknigetu allt að fimmtán afrískra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans svo þau verði fær um að sinna hjálparstarfi sínu á skilvirkari og árangursríkari hátt.
Aðspurður um mikilvægi verkefnisins segir Halldór sem farið hefur í fjölmargar ferðir fyrir Rauða krossinn:
„Við skipulagningu hjálparstarfs skiptir öllu máli að tölvu- og upplýsingatækni sé til staðar, bæði til að hafa aðgengi að upplýsingum, geta miðlað þeim og samhæft hjálparstarf, hvort sem um er ræða aðgerðir í kjölfar hamfara eða þróunarverkefni sem lúta t.d. að bættu heilbrigði og valdeflingu kvenna sem er ein aðaláhersla í hjálparstarfi Rauða krossins. Þetta verkefni snýst um að aðstoða fátæk landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í að koma upp áreiðanlegu interneti, tengja höfuðstöðvar við deildir með netsambandi svo ekki þurfi t.d. að senda gögn með bíl eða rútu og á þann hátt gera allt hjálparstarf skilvirkara og áreiðanlegra. Við hjálpum til við að finna staðbundnar lausnir og reynum alltaf að kaupa þann búnað sem þarf á staðnum og tryggjum þjálfun allra sem koma að verkefninu til að tryggja sjálfbærni verkefnisins. Það hljómar kannski ótrúlega, en þessi tölvuverkefni skipta svo miklu máli að mörg líf velta á því að vel takist til“ segir Halldór og bætir við að hann sé stoltur af Íslandsbanka að lána hann, og reyndar fleiri starfsmenn bankans, til hjálparstarfa Rauða krossins í Afríku.
Rauði krossinn og fjögur íslensk fyrirtæki hafa undirritað samstarfssamning um verkefnið sem felur í sér að fyrirtækin lána Rauða krossinum starfsfólk sitt, auk þess sem þau styðja verkefnið fjárhagslega en auk þeirra hefur utanríkisráðuneytið stutt dyggilega við verkefnið. Halldór hefur verið hluti af verkefninu frá febrúar 2017 eins og áður sagði og er þetta sjöunda starfsferð hans fyrir Rauða krossinn. Egill er hins vegar að fara í sína fyrstu sendifulltrúaferð.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.