Almennar fréttir
Þekkir þú Skyndihjálparmann ársins?
07. janúar 2020
Veistu um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum bjargaði mannslífi á árinu 2019?
Rauði krossinn á Íslandi leitar að Skyndihjálparmanni ársins 2019!
Veistu um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum bjargaði mannslífi á árinu 2019? Ef svo er sendu okkur ábendingu í gegnum vefinn skyndihjalp.is . Tilnefningar þurfa að berast Rauða krossinum eigi síðar en þann 19. janúar 2020.
Nánar um valið
Á hverju ári velur Rauði krossinn Skyndihjálparmann ársins . Þá er einstaklingi sem hefur á liðnu ári veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.
Eftirfarandi reglur gilda um tilnefningar
- Skyndihjálparmaður ársins þarf að hafa bjargað mannslífi.
- Skyndihjálparmaður ársins þarf að hafa sýnt eftirtektaverða kunnáttu og færni í almennri skyndihjálp.
- Hjálpin sem veitt var verður að hafa leitt til betri líðan eða stöðugleika á ástandi hins slasaða eða sjúka frá þeim tíma sem slysið varð þar til fagfólk kom á vettvang.
- Skyndihjálparmaður ársins má ekki vera menntaður hjúkrunarfræðingur, læknir, sjúkraflutningamaður, bráðatæknir eða sjúkraliði.
- Skyndihjálparmaður ársins má ekki hafa unnið afrekið í starfi sínu innan öryggis- og bráðaþjónustu, það á til dæmis við um björgunarsveitarfólk, lögregluþjóna, öryggis- og sundlaugaverði.
Dómnefnd um val á Skyndihjálparmanni ársins er skipuð fulltrúum frá: Rauða krossins, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hver aðili skipar einn fulltrúa nema Rauði krossinn sem skipar tvo.
Skyndihjálparmaður ársins hlýtur viðurkenningaskjal Rauða krossins, skyndihjálparbók og ávísun á skyndihjálparnámskeið allt að 16 klst.
Athugið að tilnefningar verða bornar undir vitni að atburðinum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.