Almennar fréttir
Terra Einingar styrkir Rauða krossinn á Íslandi
20. júlí 2023
Terra Einingar og Rauði krossinn á Íslandi munu á næstu dögum skrifa undir samstarfssamning er felur í sér styrk í formi húsnæðis undir starfssemi Ylju. Í verkefnið verða notaðar húseiningar frá Terra Einingum sem reistar verða fyrir Rauða krossinn undir samfélagsverkefni Rauða krossins sem ber nafnið Ylja.
Ylja örugga neyslurýmið er mikilvægt skref í þjónustu við fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það byggir á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun en í því felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Í rýminu munu einstaklingar 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks.
Markmið Ylju er að lágmarka þörf einstaklinga til að neyta vímuefna á almannafæri og þannig koma í veg fyrir þann skaða sem vímuefnaneysla í óöruggum aðstæðum getur haft í för með sér. Má þar nefna sýkingar, blóðborna smitsjúkdóma og ofskammtanir. Ylja leggur einnig áherslu á að mynda traust, veita stuðning og viðhalda mannlegri reisn hjá notendum úrræðisins.
Verkefnið hófst 9.mars árið 2022 og var þá í sérútbúinn bíl sem var staðsettur í miðbæ Reykjavíkur en samningur Rauða krossins og Reykjavíkurborgar rann út í mars síðastliðnum. Verkefnið þarfnast stærra og betra húsnæðis og munu einingarnar frá Terra Einingum vera stórkostleg viðbót við þjónustu þeirra sem nýta sér neyslurýmið.
Terra Einingar er leiðandi fyrirtæki í einingalausnum. Hvort sem um ræðir byggingu skóla, leikskóla, skrifstofur, vinnubúðir, gistieiningar ásamt geymslueiningum.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitGísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Almennar fréttir 04. febrúar 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.
Rauði krossinn við Eyjafjörð leggur 2 milljónir til neyðarsöfnunar fyrir Gaza
Almennar fréttir 29. janúar 2025Í tilefni af 100 ára afmæli Rauða krossins við Eyjafjörð hefur stjórn deildarinnar ákveðið að leggja 2 milljónir króna til neyðarsöfnunarinnar. Með þessu vill deildin sýna samhug og stuðning við þá sem þurfa á hjálp að halda á þessum erfiðu tímum.
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar styrkir Frú Ragnheiði um 1.300.000 krónur
Almennar fréttir 24. janúar 2025Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins afhenti nýverið skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, styrk að andvirði 1.300.000 króna. Upphæðin er afrakstur sölu á jólabasar kvennadeildarinnar, auk handverks sem framleitt var af Prjónahópnum og selt í sölubúðum á Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvogi.